Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það var ekki mín ætlan að hér hæfust langar umræður um þingsköp heldur var ákveðinni spurningu beint til hæstv. forseta sem hann hefur svarað mjög skilmerkilega. En vegna orða hv. 2. þm. Vestf. verður það að koma fram að í bréfi hæstv. ráðherra er beðið um upplýsingar um óskyld efni og beðið um mat á upplýsingum sem beðið var um í skýrslubeiðni sem lögð var fram á sérstöku þingskjali. Það sem kannski öllu máli skiptir er að þessum málum er síðan blandað saman þegar beðið er um skýrslu. Ég er alveg sammála forseta. Það er ljóst af lögum um Ríkisendurskoðun að það eru forsetar Alþingis sem biðja Ríkisendurskoðun um skýrslur og þess vegna er beiðnin send forseta sameinaðs þings. Það var hins vegar gert með þeim hætti þegar hæstv. ráðherra átti í hlut að afrit var sent Ríkisendurskoðun og það afrit var síðan grundvöllur þess að þessum málum var blandað saman og það stenst ekki samkvæmt lögum og hefur skýrt komið fram hjá hæstv. forseta.
    Varðandi störf Ríkisendurskoðunar verð ég að segja að auðvitað orkar allt tvímælis sem þaðan kemur, en það breytir ekki því að þessi stofnun er nýkomin undir Alþingi og reynir ugglaust að gera það sem í hennar valdi stendur til þess að koma fram með upplýsingar að beiðni þingsins og þingmanna með atbeina forseta þingsins. Ég held að það sé eðlilegt að slíkir barnasjúkdómar komi fram í upphafi, en það skiptir ákaflega miklu máli að strax sé ljóst hvaða reglur gilda um þetta mál. Það sem ég legg mest upp úr er jafnræðisreglan og að það verði ekki um samblöndun að ræða eins og hv. 4. þm. Vestf. benti réttilega á þegar hann bar þetta saman við það hvað gerast mundi ef um fyrirspurnir væri að ræða eða aðrar þinglegar gerðir.
    Að allra síðustu, virðulegur forseti, tek ég það fram að orðið ,,ígildi`` er ekki neikvæðrar merkingar. Í þessu tilviki var eingöngu átt við að hæstv. ráðherra er ekki þingmaður en nýtur sömu réttinda og hefur sömu skyldur og venjulegir þingmenn að öðru leyti en því að hann hefur ekki atkvæðisrétt hér á þingi. Hugtakið ,,ígildi`` er þess vegna ekki notað hér til minnkunar fyrir hæstv. ráðherra. Oftast þykir mönnum virðing að því að vera settir á þingmannabekk með kröftugum þingmönnum eins og t.d. hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni.