Byggðastofnun
Föstudaginn 19. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég skal ekki taka mikinn tíma í sambandi við þetta mál. Hér er eitt af stærstu málunum og ég ætla aðeins að stikla á því í örstuttum tíma sem gefur enga möguleika til að ræða þessi mál til hlítar á einn eða neinn hátt. Nú harma ég það mjög því að hér var komið inn á margt sem hefði mátt hafa langt mál um.
    Mig langar hins vegar til að taka undir með hæstv. forsrh. Það má kannski orða það svo að menn hafi gert sér miklu meiri vonir um að það væri verið að leysa mál með Byggðastofnun en raun varð á og ég get sagt það sem mína skoðun að það er alveg ljóst að Byggðastofnun hefur ekki þá möguleika sem hún þyrfti að hafa vegna þess að hún er alltaf í einhverju ákveðnu þjónustuhlutverki sem henni er fengið frá degi til dags. Hún hefur ekki það fjármagn eða umsvif sem þyrfti að hafa til að sinna þessum málum í raun og veru. Hún er alltaf að reyna að bjarga smáum hlutum. Þetta er nokkuð sem þyrfti að breytast og skapa Byggðastofnun það frumkvæði sem hún raunverulega ætti að hafa í byggðamálum í landinu eða aðstoð við að koma þeim málum í betra horf en eru hjá okkur. Það er t.d. eitt að færa þjónustustöðvar út á land o.s.frv. eins og mætti halda langt mál um.
    Mér datt í hug þegar við fórum á fund, a.m.k. þingmenn Framsfl., í Byggðastofnun í vetur og sáum þar vel upp sett prógramm um hvað þyrfti að gera eða hvað þyrfti að skoða til að koma þessum málum í betra horf en þau eru í, en síðan hefur raunverulega ekkert heyrst um þessi mál og ekki farið fram slík umræða sem var vissulega raunhæf kveikja að á þessum fundi.
    En það sem mig langaði aðeins til að segja er að í dag eru víða byggðarlög í miklum vanda og eru raunverulega komin að því að gefast upp. Fyrir nokkrum dögum kom úr einu byggðarlagi, Dalabyggð, sendinefnd til ríkisstjórnar, hæstv. forsrh., og bað um aðstoð við að reyna að finna möguleika á því að koma í veg fyrir að öll þjónusta, verslun og viðskipti á þessu svæði hyrfu einn góðan veðurdag í gjaldþrot og ómögulegheitum sem því fylgja. Hæstv. forsrh. brást hart við og skrifaði Byggðastofnun og óskaði eftir aðgerðum. Síðan er sennilega liðinn tæpur mánuður, en það hefur ekkert gerst. Ég er ekki að ásaka einn eða neinn, en ég minni á það að þegar við erum að ræða um þessi mál á hv. Alþingi og erum með mikla skýrslu fyrir framan okkur hlýtur þetta að koma upp í hugann. Erum við virkilega svo vanmegnugir að grípa inn í bráðan vanda í byggðamálum sem þetta atvik ber vitni um? Ég held nefnilega að við þurfum að átta okkur á því að við stöndum hér með mál í höndum sem hefði átt að vera hægt að ræða í heila viku niður í kjölinn því til viðbótar að menn geri sér grein fyrir hvaða stefnu þeir vilja taka í þessum málum. En við erum svona vanmegnugir og það er einmitt það sem ég vildi koma að og ég tek undir að það þarf að sýna í verki að við viljum gera það sem við auglýsum að við ætlum að gera og höfum stefnu til að fara eftir.