Byggðastofnun
Föstudaginn 19. maí 1989

     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal verða við beiðni forseta um að stytta mál mitt. Það er kannski við hæfi, og ég hefði kannski ekki þurft að koma hér upp, hvernig þessi umræða fer fram. En ég vil þó koma upp til að mótmæla því mjög eindregið, sem hér hefur komið fram, að Byggðastofnun hafi skort frumkvæði. Ég fullyrði að Byggðastofnun hefur haft frumkvæði í fjölda mála. Hún hefur haft frumkvæði í því að koma upp mörgum fyrirtækjum og stutt þau dyggilega. Ég get því miður ekki talið þau öll hérna upp vegna tímaleysis.
    Ég vil einnig svara því sem hefur komið beint fram hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni. Byggðastofnun beitti sér fyrir því að gera sérstaka áætlun, Dalabyggðaáætlun, og réði til þess gagnkunnugan heimamann að fylgja því máli fram. ( AS: Það var fulltrúi Alþingis.) Byggðastofnun gerði það og réði mann til þess og það sem þú ert að vitna í er bréf sem hafi komið til Byggðastofnunar til að taka fyrir ákveðna þætti í Búðardal. Það bréf barst inn á stjórnarfund Byggðastofnunar í þann mund þegar var verið að slíta fundinum. Það er það sanna í málinu.
    Virðulegur forseti. Ég skal verða við óskum manna um að teygja ekki lopann í þessu máli. En ég hef margt að segja um byggðamál og ég ætla að biðja menn að lesa skýrslu um starfsemi Byggðasjóðs Framkvæmdastofnunar ríkisins sem unnin var af manni sem situr á móti mér og heitir Sighvatur Björgvinsson. Hún ætti að geta fært mönnum sanninn um hvort Byggðastofnun hefur haft frumkvæði og hafi orðið að liði eður ei.
    Ég lýk máli mínu, en ég hef tækifæri til að tala við félaga mína tvo betur eftir hádegi á morgun.