Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég held að það sé vel valinn til þess tími að fara í eldhúsumræður og ræða um hvernig staða fiskvinnslufyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja er og hvernig björgunarstarfið hefur gengið hjá hv. ríkisstjórn til að bjarga þrotabúi fyrri ríkisstjórnar. Það er ósköp eðlilegt að hv. þm. Halldór Blöndal krefjist svara við því. Það er ósköp eðlilegt að það sé beðið um að svara því hvernig gengið hafi að bjarga og snúa við þeirri þróun sem var á haustdögum 1988.
    Allt er það sem hér er verið að ræða um, bjarganir í gegnum Atvinnutryggingarsjóð og bjarganir í gegnum hlutafjársjóð, arfur fyrri tíma. Það er sjálfsagt að ganga á ríkisstjórnina og krefjast svara um hvernig þessir hlutir ganga. Ég get tekið undir með hv. þm. að þetta gengur allt of hægt. Og ég get tekið undir það með hv. þm. líka að það eru veittar allt of litlar upplýsingar um þessa hluti. Við heyrum einstaka sinnum nefndar tölur og tölur eins og hæstv. forsrh. nefndi í lok ræðu sinnar rétt áðan, að það vantaði 2,5 milljarða í þessi 15--16 fyrirtæki sem hlutafjársjóður hefur nú til umfjöllunar, til þeirra fyrirtækja sem talið er nauðsynlegt að bjarga sem þannig er ástatt fyrir að eru meginstoð í byggðum eða uppistaða í einni sérstakri atvinnugrein. Önnur fyrirtæki eru ekki tekin til umfjöllunar eða skoðunar í þeim ágæta sjóði. En þau eru mörg fleiri sem er svipað ástatt fyrir. Arfur síðustu ríkisstjórnar er hrikalegur.
    Það verður ekki heldur borið á móti því að seinagangur er í fleiru en því að reyna að bjarga fyrirtækjum sem voru að fara á hausinn þegar núv. ríkisstjórn tók við. Seinagangurinn í því að koma á rekstrargrundvelli hjá fyrirtækjum er líka allt of mikill. Ég sagði í blaðagrein að hlutirnir eru þannig því miður á þessum vettvangi að ráðleysi tekur við af ráðleysi. Það hefur ekki enn þá verið komið á þannig löguðum rekstrargrundvelli að fyrirtæki í sjávarútvegi skili einhverju eða séu rekin með hagnaði. Það hefði kannski mátt lengja þingtímann um einn dag, ekkert vera að hamast við að ræða um vegáætlun sl. nótt allt þar til kl. fjögur, og ræða bæði um Byggðastofnun og ræða um þessa stöðu, ræða um stöðu fiskvinnslufyrirtækja og landsbyggðar, taka sér tíma til þess áður en þingmenn færu heim.
    Ég þakka Halldóri Blöndal fyrir að hann skyldi hafa vakið þessa umræðu hér. Hann nefndi m.a. að það gengi illa með reksturinn á sameignarfyrirtækinu í Ólafsfirði. Þar hótaði ríkisfyrirtækið RARIK lokun eftir einn eða tvo mánuði síðan sameiningin var gerð vegna ógreiddra raforkuskulda. Mér finnst þetta alveg ótrúleg frétt ef sönn er, ef frágangurinn í sambandi við sameiningu þessara fyrirtækja, þessa bjargráðs sem bæði þessi ríkisstjórn og aðrar hafa talið vera alveg höfuðatriði, að sameina fyrirtæki, hefur ekki verið betri en svo að eftir eins mánaðar rekstur blasir við lokun fyrirtækisins vegna þess að það hefur ekki gengið frá raforkuskuldum fyrirtækjanna sem voru sameinuð. Ekki finnst mér fyrirhyggjan mikil. Sjálfsagt eru að verki í þessum fyrirtækjum pólitískir samherjar bæði hæstv. forsrh. og hv. þm. Halldórs

Blöndals. Ætli pólitíkin komi þessu ekki ansi mikið við? Ætli staðan í dag sé ekki afleiðing pólitíkur? Einmitt í sambandi við sameiningu fyrirtækjanna eru fleiri fréttir að berast til okkar. Stórsameiningin sem gerð var fyrir rúmu ári og mikið var talað um að ætti að bjarga undirstöðufyrirtæki í einni atvinnugrein, Álafossi, mun því miður ekki hafa skilað því sem átti að skila. Og á undanförnum vikum hefur verið unnið þar að endurskipulagningu enn á ný.
    Það voru hálfleiðinlegar fréttir sem við fengum í útvarpinu í gærkvöld og eru sjálfsagt í fjölmiðlum í morgun. Það var að stórsameiningarfyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu, sjávarútvegsfyrirtækið Grandi, fyrirmynd allra, bæði frjálshyggjumannanna og sameiningarmannanna í framsókn, hafi tapað einum 150 millj. kr. á síðasta ári, þetta fyrirtæki sem átti að vera fyrirmynd að því hvernig ætti að sameina fyrirtæki og hvernig ætti síðan að reka þau með hagnaði. Þannig er ástandið.
    Ég er ekkert hissa á því þó að hv. þm. Halldóri Blöndal þyki leiðinlegt að fara heim af þingi með allar þær spurningar sem í hans huga eru um það hvernig þessir hlutir muni ganga á næstu mánuðum, hvernig gengið verði frá fyrirtækjum á þann veg að þau geti haldið áfram rekstri. Það verði ekki bara sagt: Þetta verður á morgun og þetta verður í næstu viku, þetta verður í næsta mánuði, þær fyrirgreiðslur sem væntanlegar eru á þessum vettvangi.
    Það sem kannski skiptir höfuðmáli er að fá heilbrigðan rekstursgrundvöll fyrir þessi fyrirtæki, en einmitt í sambandi við það hefur verið bent á ýmis atriði og forustumenn og ráðherrar og aðrir hafa talað um að þetta sé ekki stjórnvöldum að kenna, þetta sé vegna þess að það sé veiddur svo mikill fiskur úti á miðunum og unninn þar, hann sé fluttur út o.s.frv. Nei, vitaskuld er þetta ekki stjórnvöldum að kenna, segja þeir. En ég segi: Þetta er stjórnvöldum að kenna.
    Það er ekki hægt að ætlast til þess eins og var í umræðunni í sameinuðu þingi í gær að komið sé fram eins og hæstv. forsrh. sagði þá um stofnun sem heyrir undir hann: Mér finnst að sú stofnun sýni ekki nógu mikið frumkvæði.
Það var verið að ræða um Byggðastofnun í sameinuðu þingi í gærkvöld. Forsrh. sjálfur segir hluti sem þessa og ætlast til þess að stofnun sem undir hann heyrir sýni meira frumkvæði en ríkisstjórnin sjálf. Um hvað eru menn að tala og við hverju búast menn? Það er vitaskuld ekki hægt að búast við neinu sérstöku þegar yfirmenn stofnana kvarta undan því að þær hafi ekki frumkvæði til þessa eða hins.
    Það er ekki hægt að búast við neinu sérstöku þegar forráðamenn landsins og jafnvel forustumenn í samtökum atvinnuveganna kvarta undan því að rekstur frystihúsanna sé í vandræðum vegna þess að það sé unnið of mikið úti á hafi og það sé flutt of mikið af afla óunnum til útlanda. Af hverju er þetta? Þetta er vegna þess að rekstursgrundvöllur fiskvinnslunnar í landi er ekki heilbrigður. Það er vegna þess að það er búið þannig að þeim rekstri að menn flýja. Það er

stjórnarstefnan undanfarandi sem hefur búið þannig að fiskvinnslunni í landinu að þetta gerist. Menn flýja með vinnsluna út á haf í staðinn fyrir að landa afla sínum í landi og að stjórnvöld hlúi að þessum rekstri. Ísland er nefnilega byggilegt fyrst og fremst vegna þess að það var hagstætt að hafa fiskvinnslustöðvar í landi. Það var veiðistöð á miðju veiðisvæði. Núna er verið að eyðileggja þennan grundvöll byggðar á Íslandi og hefur verið gert á undanförnum missirum. Frá þessu verður að snúa. En þær aðgerðir sem hafa verið í gangi, tilburðir, ganga allt of hægt og eru of litlar.
    Það er vitaskuld alveg ástæðulaust að gera frystitogara út frá Akureyri eða gera hann út héðan frá Reykjavík. Það dettur sem betur fer engum í hug að gera hann út frá Snæfellsneshöfnum. Það er alveg eins gott að gera þessa frystitogara út frá Bremen eða Cuxhaven eða Hull eða Fleetwood og meðan við sköpum ekki rekstursskilyrði fyrir fiskvinnslu hér á landi horfum við eftir fleiri og fleiri skipum í þennan rekstur.
    Ég gæti nefnt ýmislegt fleira, en ég kom aðeins inn í umræðuna vegna þess að hv. 2. þm. Norðurl. e. var að benda á þessa stöðu og vildi fá svör við því hvernig björgunarstarfið gengi. Það ber að þakka honum fyrir að þessi umræða á sér stað hér nú og að menn muni eftir því nú þegar þeir fara heim af hverju staðan í þjóðfélaginu er eins og hún er. Það er ekki vegna þeirrar ríkisstjórnar sem situr nú. Það er fyrst og fremst vegna stjórnarstefnunnar á síðasta ári, þ.e. vegna ríkisstjórnarstefnu ríkisstjórnar Þorsteins Þálssonar. ( GHG: Miklu lengra til baka.) Og jafnvel lengra til baka. Það mætti jafnvel fara í fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þó að ýmislegt sem sú ríkisstjórn gerði væri ekki svo afleitt. Það var til í því að sú ríkisstjórn gerði eitt og eitt sæmilega, ekki alveg jafnsvart og hin. ( StG: Þú veist hvernig þá snerist fiskurinn við.) Ja, sérstaklega snérist það við, hv. þm. Stefán Guðmundsson, þegar framsóknarmenn settust í sjútvrn. Það fór strax að bera á því þegar að því kom. Það er erfitt að benda alveg á dag en þróunin hefur verið á þennan veg eins og ég hef fjallað um hér. Þetta hefur allt verið að fara á verri veginn í sambandi við rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og fiskveiðistefnan hefur verið röng. Og núverandi ríkisstjórn hefur ekki tekið með þeirri rögg á þeim málum sem þörf var á á síðasta hausti. Hún lét eiga sig að skapa þessum atvinnugreinum, fiskvinnslu og útgerð, heilbrigðan rekstrargrundvöll um leið og hún tók við. Hún hefur verið að gefa út smáskammta sem ekki hafa dugað í neinu tilfelli. Enn þá er stór hluti af sjávarútveginum, jafnvel allar greinar sjávarútvegsins, rekinn með halla.