Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Herra forseti. Það var vegna þess sem hv. þm. Júlíus Sólnes kom inn á áðan sem ég hef máls. Hann vakti athygli á því að skv. 9. gr. frv. til l. um ráðstafanir vegna kjarasamninga hefur verið gerð sú breyting á að það mætti skilja þá breytingu með þeim hætti að það væri gert ráð fyrir því að eignarskattsaukinn sem núv. hæstv. ríkisstjórn lagði á á sl. vetri yrði festur. Það er gert ráð fyrir því að það sé tiltekið sérstaklega fimm ára tímabil. Ég tek undir þau orð hv. þm. Júlíusar Sólnes að þannig er hægt að skilja þessa lagagrein. Ég vil þess vegna láta það koma fram að þegar Sjálfstfl. hefur aðstöðu til og völd mun hann beita sér fyrir því að afnema þennan eignarskattsauka. Þessi eignarskattsauki er hin mesta svívirða. Ég sé að hv. þm. Eiður Guðnason brosir. Það vill svo til að við höfum kynnst því nokkuð vegna þess að við okkur hafa talað ekkjur og aðrir sem eiga erfitt með að mæta þessari skattlagningu þannig að ég held að hv. þm. ætti að spara sér það að brosa að erfiðleikum annarra þegar sorgin og erfiðleikar koma með þeim hætti að ekkjur standa uppi með eignir sem þær geta ekki losnað við og geta heldur ekki greitt skatta af vegna núverandi skattlagningar hæstv. ríkisstjórnar sérstaklega í sambandi við þennan eignarskattsauka. Þessi eignarskattsauki er hin mesta svívirða sem hefur verið sett í lög á Íslandi um áratugi. (Gripið fram í.) Það er rétt, hv. þm. Skúli Alexandersson. Ég vildi þess vegna láta það koma fram að við sjálfstæðismenn munum afnema þennan eignarskattsauka þegar við höfum völd og aðstöðu til.
    En ég vildi víkja nokkrum orðum að þeirri umræðu sem var um sjávarútveg og fiskiðnað áðan. Ég verð að segja það eins og er að það kom mér mjög á óvart þegar hæstv. forsrh. sagði að það lægju fyrir vandamál hjá 15 eða 16 fyrirtækjum sem fælu það í sér að ef hlutafjársjóður ætti að koma til skjalanna þyrfti að breyta í hlutafé 2,5 milljörðum kr. í tveim fyrirtækjum ef það ætti að vera hægt að mæta því sem hv. þm. Halldór Blöndal var að ætlast til að hæstv. forsrh. beitti sér fyrir í tengslum við hlutafjársjóðinn. Þetta eru skelfileg tíðindi svo að ekki sé meira sagt og er ég ekki að ásaka hæstv. forsrh. fyrir það því að það má ekki hengja sendiboðann fyrir það að koma með slæm tíðindi þó það hafi tíðkast hér áður fyrr. ( Forsrh.: Ég þakka.) Það er ekkert að þakka. En í þessu felst, ef við lítum á að það er ekki hægt að tala um nema 75--100 alvörufyrirtæki á sviði hraðfrystiiðnaðar á Íslandi og ég er þegar að tala um 15 fyrirtæki, að þetta er mjög alvarlegt mál. ( SkA: Þú telur bara SH-húsin.) Ég tel þau hús sem eru í rekstri, ef mætti orða það þannig, á ársgrundvelli eins og er sagt á hagfræðimáli. Það eru mjög alvarleg tíðindi og segir okkur þá sögu að ástand í þessari atvinnugrein er mjög alvarlegt.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson sagði að það mætti rekja vandamál hraðfrystiiðnaðarins mörg ár aftur í tímann og hann vildi sérstaklega, ef ég skildi hann rétt, greina hv. þm. frá því að þessi vandamál hafi

sérstaklega upphafist þegar framsóknarmenn tóku við stjórn sjávarútvegs og fiskiðnaðar. Þá hafi niðurlæging sjávarútvegs og fiskiðnaðar á Íslandi hafist hvað afkomu snertir. Ef það er misskilningur hlýtur hv. þm. að leiðrétta þetta. En ég rakti nokkuð í ræðu fyrir nokkrum dögum hvernig þessi ranga stefna í sjávarútvegi og fiskiðnaði hefði verið allt frá því að framsóknarmenn komust til valda í þessum efnum þegar ég var að ræða um kvótann ásamt hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Það er rétt ályktað hjá honum að þegar fjárfestingaræðið hófst á þeim tíma sem hæstv. núv. forsrh. var sjútvrh., það var þegar frystitogurunum var dreift um allt land til byggðarlaga sem höfðu ekkert við togara að gera, er togurum var fjölgað úr 76 upp í 116 nú og þar áður að vera um 20 frystitogarar, að ýmsir okkar vöruðu við því að þetta fjárfestingaræði hlyti að koma niður á atvinnugreininni í heild. Ég held að það sé eitt af þeim atriðum og kannski meginástæðan fyrir því hversu illa gengur hjá heildinni.
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson greip fram í fyrir mér og talaði um framsókn. Það er staðreynd, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að valdamenn Framsfl., þeir sem réðu ferðinni í sjávarútvegsmálum og í þeim ríkisstjórnum sem þeir tóku þátt í eftir 1979 eða 1980 ef ég man rétt, réðu og hafa ráðið mjög miklu um að á þeim árum komu inn togarar í stórum stíl. Það vita þeir sem fylgdust með þessu. (Gripið fram í.) Það er ekki rétt. Árið 1980 minnir mig að hafi verið um 80 togarar á Íslandi. Núna eru þeir 116 eða 120. Það munar um þessa fjölgun. Það er m.a. þessi fjölgun sem gerir svo erfitt að útfæra kvótann eins og þörf krefur. Ég veit ekki annað en framsóknarmenn hafi farið með sjávarútvegsmál á þessu tímabili. (Gripið fram í). Ég er vanur því að þeir menn beri ábyrgð á því sviði sem þeir taka að sér. Hér er hæstv. sjútvrh. staddur og hann getur örugglega svarað fyrir þetta. Hann þekkir erfiðleikana og hæstv. forsrh. var að skýra okkur frá því hvað ástandið væri hrikalegt í sjávarútvegi og fiskvinnslunni. Það væri svo hrikalegt að hann sæi engin ráð hvernig ætti að bjarga þessari atvinnugrein.
    Þetta er mjög alvarlegt mál og hefði átt að ræðast betur á hinu háa Alþingi, en nú er ekki tími til þess þar sem þinglausnir fara fram í dag.
    En það er mjög alvarlegt að svo skuli komið í þessari atvinnugrein, sem er
grundvallaratvinnugrein í íslensku atvinnulífi, að þar er mjög mikil hnignun, sérstaklega í hraðfrystiiðnaðinum. Það leiðir til þess að það mun verða ákveðinn atgervisflótti úr þessari atvinnugrein. Það mun verða flótti úr byggðarlögunum þar sem sjávarútvegur og fiskiðnaður er undirstaðan í allri framfærslu því að gjaldþrota fyrirtæki, fyrirtæki sem aldrei sjá möguleika á að hagnast neitt, geta ekki greitt fullnægjandi laun. Það vita allir. Þegar svo er komið flýr fólkið frá þessum fyrirtækjum. Það flýr úr þessum sveitarfélögum og hverfur til annarra atvinnugreina, leitar annað. Þetta er því miður það sem blasir við. Það verður samdráttur í sköpun

grundvallarverðmæta sem er útflutningur á vörum.
    Til þessa hafa sjávarútvegur og fiskiðnaður verið helsta tekjulind þjóðarinnar í öflun verðmæts gjaldeyris. Nú er svo komið að það er verulegur samdráttur í þessari atvinnugrein og það sem er hörmulegast og sorglegast er að hér höfum við hlustað á það af vörum hæstv. forsrh. að hann kann engin ráð við því og hefur enga fastmótaða stefnu um það hvernig á að koma þessari atvinnugrein aftur á réttan kjöl þannig að hún hafi jákvæða afkomu og geti skapað fólki þá framtíðarvon sem allir hljóta að binda við þær atvinnugreinar og þá framfærslu sem fólk hefur.