Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Svona í lok umræðunnar hefur umfang landhelginnar komið inn í þessa umræðu. ( StG: Stærsta málið.) Það er stærsta málið, alveg hárrétt, hv. þm. Stefán Guðmundsson.
    Þegar við vorum að berjast fyrir stærri landhelgi gerðum við það fyrst og fremst á þeim grunni að við þyrftum að geta ráðið landhelginni sjálfir, við þurftum að geta varist ryksugunum sem verksmiðjutogararnir voru kallaðir þá, Rússarnir og Þjóðverjar og aðrir sem voru með þá. Við vorum að því líka til þess að forða því að Bretinn héldi áfram hinu stórkostlega smáfiskadrápi á miðunum. En á þeim tíma sem Bretinn og Þjóðverjinn voru á miðunum, á tímabilinu sem ég benti á áðan milli 1950 og 1960, Rússarnir voru ekki komnir mjög mikið þá, fiskuðum við að meðaltali 460 þúsund tonn og áfram héldum við að afla ef fiskaðist á Íslandsmiðum milli 1960 og 1970 alveg upp undir 400 þús. tonn, þ.e. meðalafli á ári, meðan við réðum ekki stjórninni sjálfir. En þegar öll stjórnin kom í okkar hendur og síðustu ár þegar stjórnin hefur verið í höndum hæstv. sjútvrh. sem hér situr og með góðu samþykki útvegsmanna eins og ég var að nefna áðan er ástandið á þann veg að við erum búnir að missa veiðistofninn okkar niður í að það blasir við að hann fari ekki niður fyrir 300 þús. tonn. Þetta er ömurlegt, en það er reynt að þegja yfir þessum sannleik og sem minnst um það talað.