Framhaldsskólar
Laugardaginn 20. maí 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Þetta frv. er enn verr undirbúið en mörg þau frumvörp sem við erum nú að hraða í gegn og það varðar hagsmuni hópa sem þegar hafa orðið fyrir miklu tjóni, sem sé alla þá mörgu sem stunda nám í framhaldsskólum. Það varðar líka hagsmuni starfsmanna þessara stofnana. Ráðningarfyrirkomulagi kennara er breytt í grundvallaratriðum tveimur dögum eftir að samið var við þá. Um þetta hefur alls ekki verið nægilega faglega fjallað og ekki af hálfu kennara og ýmissa annarra sem þurfa nauðsynlega að fjalla um mál sem þetta. Þess vegna leggjum við áherslu á að málinu verði vísað frá og næsta mál tekið fyrir. Það er vegna hins slæma og litla undirbúnings sem þetta mál hefur fengið og reynsla hefur ekki fengist á nýsett lög um þetta efni. Enn fremur eru sveitarstjórnir alfarið andvígar þeim ákvæðum um skólanefndir í frv. sem breyta á og fjalla um hagsmuni þeirra. Ég segi vitanlega já.