Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. minni hl. heilbr.- og trn. (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra mannaði sig upp í að taka til máls. Það kom á daginn sem ég hafði sagt að hann er mér sammála. Það er mikilvægt að sú yfirlýsing er komin fram og fyrst hann er það drengilegur að standa upp og taka þetta fram get ég heitið honum fullum stuðningi okkar í haust við að fá þessu máli breytt þannig að þessi nefskattur þurfi aldrei að koma aftur til framkvæmda. Það er hægt að finna aðrar leiðir í þessu máli. Hann telur að alþýðuflokksmenn hafi skákað málinu til að fá aukinn tíma og við skulum standa með ráðherra í því að breyta þessu þegar þar að kemur ef þetta fer fram eins og meiri hluti virðist vera fyrir hér. En auðvitað er einfaldast að samþykkja brtt. okkar þremenninganna sem gengur út á að fella niður nefskattinn og taka upp beint framlag. Þar með er þetta mál leyst, það þarf ekkert að athuga það meira til haustsins. Ég býð ráðherranum jafnframt að ganga til liðs við okkur um þá tillögu.