Stjórnarráð Íslands
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. meiri hl. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. allshn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands.
    Þetta frv. er þríþætt. Í 1. gr. er ákvæði um að stofnað verði umhverfisráðuneyti og það fært í lög, en að öðru leyti kveður það á um ráðningar ráðuneytisstjóra og annarra starfsmanna ráðuneyta.
    Nefndin hefur rætt frv. ítarlega og kallaði til umræðu Hallgrím Snorrason hagstofustjóra og Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra. Fyrir nefndinni var annað frv. viðamikið, frv. til l. um umhverfismál, og nefndin leitaði umsagnar fjölmargra aðila um það mál sem snertir sérstaklega þau ákvæði sem eru í 1. gr. frv.
    Það varð úr að meiri hl. allshn. taldi rétt á þessu stigi að afgreiða ekki frv. til l. um umhverfismál frá nefndinni vegna þess að tíminn var orðinn skammur en í þess stað að mæla með samþykkt þessa frv. með brtt. sem fluttar eru á þskj. 1287 og mun ég nú gera grein fyrir þeim. Þær eru m.a. þess efnis að í 1. efnismgr. 3. gr. falli niður orðin ,,eða deildarstjóra``. Nefndin taldi það einfaldara að skrifstofustjóri væri staðgengill ráðuneytisstjóra og að eðlilegt væri að ráðuneytisstjóri hefði jafnan staðgengil þegar ekki næðist til hans en ekki aðeins í forföllum. Þessar breytingar miða að því. Sömuleiðis að í 4. mgr. falli niður ,,eða deildarstjóri`` og að í stað orðanna ,,skrifstofustjóra og deildarstjóra`` í síðustu málsgrein komi: og skrifstofustjóra. Nefndinni fannst þetta skýrara og koma í veg fyrir að þarna myndist flækjur í framkvæmd.
    Í öðru lagi eru brtt. við síðari mgr. 5. gr. Fyrri málsgreinin gerir ráð fyrir að forseti Íslands veiti embætti ráðuneytisstjóra og aðstoðarráðuneytisstjóra til sex ára í senn sem er höfuðbreyting eins og er sagt í lögum. Síðari málsgreinin gerði ráð fyrir að ráðherra skipaði aðra starfsmenn ráðuneytis til sama tíma. Þetta var talið óeðlilegt og var talið eðlilegra að áfram gilti algengasta ráðningarform starfsmanna stjórnarráðsins, ráðning með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þess vegna gerir brtt. ráð fyrir því að niður falli orðin ,,til sama tíma`` og hljóði einfaldlega þannig: Ráðherra skipar aðra starfsmenn ráðuneytis.
    6. gr. kveður á um gildistökuna, að þau lög sem varða ráðningu starfsmanna ráðuneytis og ráðningu ráðuneytisstjóra og aðstoðarráðuneytisstjóra öðlist þegar gildi, en ákvæðið um stofnun umhverfisráðuneytis öðlist gildi 1. jan. 1990.
    Ég hef gert grein fyrir þessum brtt. Meiri hl. allshn. leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum, en undir nál. meiri hl. skrifa Jón Kristjánsson, Sighvatur Björgvinsson, Geir Gunnarsson og Guðni Ágústsson.