Ferill 48. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 48 . mál.


Sþ.

50. Tillaga til þingsályktunar



um að efla kjararannsóknir.

Flm.: Kristín Einarsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir,


Guðmundur H. Garðarsson, Hjörleifur Guttormsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að kjararannsóknir verði gerðar áreiðanlegri en nú er. Í því skyni verði launamiðar og skattagögn þannig úr garði gerð að fram komi á launamiðum áreiðanlegar upplýsingar um fjölda vinnustunda að baki dagvinnulaunum, yfirvinnulaunum og öðrum launagreiðslum. Jafnframt verði starfsheiti skilgreind og samræmd og þau tilgreind á launamiðum og skattframtali. Enn fremur verði settar reglur sem tryggi skil á launamiðum og réttum upplýsingum.

Greinargerð.


    Þessi tillaga til þingsályktunar var lögð fram í lok 110. löggjafarþings og var þá tekin á dagskrá en kom ekki til umræðu. Því er tillagan endurflutt óbreytt. Efni tillögunnar er enn jafnbrýnt og áður.
    Í mörg ár hafa verið gerðar kjararannsóknir hér á landi. Mörg stéttarfélög, kjararannsóknarnefnd, Framkvæmdastofnun, Þjóðhagsstofnun og fleiri aðilar hafa gert kannanir á kjörum fólks á vinnumarkaðinum. Rannsóknir hafa að mestu byggst á skattframtölum, svörum einstakra launamanna og svörum fyrirtækja. Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna hefur nýlega verið sett á laggirnar að fyrirmynd kjararannsóknarnefndar aðila vinnumarkaðarins.
    Kjararannsóknir byggja að sjálfsögðu á þeim upplýsingum sem hægt er að ná til. Þjóðhagsstofnun hefur gert kannanir sem byggja á skattagögnum. Þau gögn eru mikilvæg, sérstaklega ef upplýsingarnar væru ítarlegri og áreiðanlegri. Kjararannsóknarnefnd notast eingöngu við gögn frá atvinnurekendum. Ef fyrirspurnum er ónákvæmt svarað eða gögn illa unnin getur það leitt til þess að upplýsingar um kjör heilla starfshópa komi ekki fram.
    Við samanburð á niðurstöðum kjararannsókna hefur skort alla samræmingu í notkun hugtaka. Til dæmis er ekki unnt að bera saman tiltekin starfsheiti úr
könnunum frá hinum ýmsu aðilum. Þetta skapar rugling og ónákvæmni.
    Launamiðar eru nú þannig að á þeim eiga að koma fram ýmsar upplýsingar um laun, hlunnindi, stéttarfélag, lífeyrissjóð o.fl. og eru þær án efa misgóðar. Hingað til hefur ekkert verið gert til að tryggja að þær upplýsingar, sem nú er beðið um, komi fram. Það þarf að sjá til að þessar upplýsingar séu samræmdar og áreiðanlegar. Í því skyni getur verið nauðsynlegt að setja viðurlög við því ef ekki koma réttar og fullnægjandi upplýsingar fram á launamiðum.
    Undanfarin ár hafa orðið verulegar breytingar á launakerfum í landinu. Í meginatriðum er hægt að segja að um tvö launakerfi sé að ræða. Launakerfi opinberra starfsmanna er nánast hreint taxtakerfi en launakerfi á almennum vinnumarkaði er taxtakerfi í grunninn en ofan á er byggt kerfi með bónus, yfirborgunum og uppmælingum. Taxtar á almennum markaði sýna því lágmarkslaun á hverjum tíma. Allmargar stéttir, einkum kvennastéttir, taka eingöngu laun samkvæmt töxtum en stór hluti launafólks fær aukagreiðslur af ýmsu tagi. Margir fá þessar greiðslur fyrir mikla vinnu en þó er töluvert um að samið sé beint við vinnuveitanda um hærri laun en taxtar kveða á um. Hugtök eins og ómæld yfirvinna og jafnvel óunnin heyrast gjarnan í umræðum um launamál og þykir orðið sjálfsagt að semja um slíkar greiðslur ef mögulegt er. Þetta á við um einstaka stéttir í opinberri þjónustu en aðallega á þetta við um almenna vinnumarkaðinn. Í mörgum tilvikum eru taxtalaunin aðeins fjarlæg viðmiðun fyrir yfirborganir og ýmis hlunnindi.
    Yfirborganir og aukagreiðslur sýna svo að ekki verður um villst getu atvinnuveganna til að greiða hærri laun en taxtar segja til um. Yfirvinna af ýmsu tagi verður stöðugt stærri hluti af þeim launum sem fólk fær úr launaumslaginu. Það er því mikilvægt að auðvelt sé að gera sér grein fyrir hve stór hluti af launagreiðslum er annað en grunn- eða taxtalaun.
    Til að gera sér ljóst hvaða laun eru greidd fyrir sams konar vinnu er nauðsynlegt að starfsheiti verði skilgreind og samræmd. Í kjararannsóknum, sem nú eru gerðar, eru notuð mismunandi starfsheiti eftir því hver fjallar um málið. Þannig notar kjararannsóknarnefnd eitt kerfi og Framkvæmdastofnun annað. Þetta leiðir til þess að erfitt er að gera sér grein fyrir eðli hinna ýmsu starfa og hvaða laun eru greidd fyrir þau.
    Tillaga þessi felur í sér að skráðar verði á einfaldan hátt upplýsingar til að auðvelda og bæta kjararannsóknir. Með því verður hægt að átta sig betur á því fyrir hvers konar vinnuframlag laun eru greidd, svo sem dagvinnu og
yfirvinnu. Einnig gerir tillagan ráð fyrir að samræma og skilgreina starfsheiti betur en nú er gert.
    Efldar og nákvæmari kjararannsóknir auka líkur á að unnt sé að gera launakerfin auðskiljanlegri. Um leið og upplýsingar af því tagi, sem hér er lagt til, liggja fyrir aukast líkur á því að launakerfi verði jafnframt aðgengilegri og með því stigið eitt skref í þá átt að skapa réttlátari tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.