Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 55 . mál.


Sþ.

57. Tillaga til þingsályktunar



um stofnun byggingarsjóðs námsmanna.

Flm.: Finnur Ingólfsson, Páll Pétursson, Stefán Guðmundsson,


Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir, Jón Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna í samvinnu við námsmannasamtökin, þ.e. stúdentaráð Háskóla Íslands og Bandalag íslenskra sérskólanema, byggingarsjóð sem hafi það hlutverk að fjármagna íbúðarbyggingar fyrir námsmenn. Byggingarsjóðurinn verði sjálfstæð stofnun með sérstakri stjórn og verði í vörslu Seðlabanka Íslands.
    Byggingarsjóðnum verði heimilað að taka lán hjá Byggingarsjóði verkamanna. Sjóðurinn verði til að byrja með í eigu ríkisins og námsmannasamtakanna. Tekjur sjóðsins verði leigutekjur af húsnæði í eigu sjóðsins og greiði námsmenn innan námsmannasamtakanna ákveðið hlutfall af árlegum skólagjöldum sínum til byggingarsjóðsins. Fyrstu tíu árin greiðir ríkissjóður árlega til sjóðsins þrefalda þá upphæð sem námsmenn greiða. Þegar tekjur sjóðsins standa undir eigin framlagi sjóðsins við fjármögnun bygginga afhendi ríkið samtökunum eignarhlut sinn í sjóðnum.

Greinargerð.


    Samhljóða tillaga var flutt á síðasta Alþingi, 138. mál. Hins vegar hafa verið gerðar breytingar á greinargerð tillögunnar frá því að hún var flutt síðast. Sem fylgiskjöl með tillögunni eru umsagnir stúdentaráðs Háskóla Íslands, Bandalags íslenskra sérskólanema og Félagsstofnunar stúdenta, eins og þær bárust háttvirtri félagsmálanefnd sameinaðs þings, um tillöguna á síðasta þingi.
    Undanfarin ár hefur á hverju hausti ríkt ófremdarástand í húsnæðismálum námsmanna á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er sú að þá koma mörg þúsund námsmenn utan af landi í leit að leiguhúsnæði meðan á námi stendur. Eftirspurnin eftir leiguhúsnæði á þessum tíma er langt umfram framboð og er því leiguverð mjög hátt.
    Til þessa hafa Gamli Garður, Nýi Garður og Hjónagarðar verið eina húsnæðið sem sérstaklega hefur verið ætlað fyrir námsmenn. Stúdentagarðarnir eru hins vegar aðeins fyrir stúdenta við Háskóla Íslands. Á árunum 1983–1988 hefur fjöldi umsókna um herbergi og íbúðir á stúdentagörðunum verið sem hér segir:

Gamli Garður og Nýi Garður.



    Ár    Umsóknir    Samþykkt    Neitað    Biðlisti
    1983    159    100    21    36
    1984    170    100    40    30
    1985    198    100    36    62
    1986    190    100    28    62
    1987    190    100    28    62
    1988    190    100    18    72

Hjónagarðar.


    1983    115    55    52    8
    1984    87    55    32    0
    1985    113    55    38    20
    1986    100    55    25    20
    1987    102    55    24    23
    1988    137    84    5    48

    Þessar tölur gefa ekki rétta mynd af eftirspurninni því að margir sækja ekki um eftir að hafa kynnt sér úthlutunarreglur. Þá eru ekki taldar hér umsóknir sem berast of seint, en þær eru þó nokkrar á hverju ári. Innan við 5% af stúdentum við Háskóla Íslands búa á stúdentagörðum.
    Innritaðir stúdentar við Háskóla Íslands árið 1988 eru rúmlega 4300. Það er þó aðeins brot af fjölda námsmanna því að í Bandalagi íslenskra sérskólanema eru félagsmenn 3000. Þessi samtök hafa ekkert húsnæði fyrir sína félagsmenn. Þeir verða því eingöngu að treysta á leigumarkaðinn. Auk þessa eru þúsundir námsmanna sem stunda nám í mennta- og fjölbrautaskólum sem verða einnig að leita sér að leiguhúsnæði.
    Í desember 1986 gerði Lánasjóður íslenskra námsmanna eftirfarandi flokkun á húsnæði lánþega sjóðsins sem voru í námi á Íslandi.

                        Fjöldi    Hlutfall
    Hjá foreldrum ...............         1060    23,5%
    Leigulaust húsnæði ..........         494    10,9%
    Eigið húsnæði ...............         704    15,6%
    Leiguhúsnæði ................         2252    50,0%
                      ——     ——-
                       4510    100,0%

    Af þessari könnun má ætla að helmingur námsmanna búi í leiguhúsnæði. Nú er verið að byggja nýja stúdentagarða. Fyrirsjáanlegt er að þeir munu þó ekki sinna nema litlum hluta húsnæðisþarfa stúdenta og á engan hátt leysa vanda sérskólanemanna. Auk þess mun byggingin valda Félagsstofnun stúdenta nokkrum fjárhagserfiðleikum og ljóst er að stofnunin getur ekki á næstu árum lagt út í aðrar byggingarframkvæmdir. Ávallt hefur langur tími liðið á milli þess að stúdentahúsnæði hefur verið byggt. Gamli Garður var byggður 1934, Nýi Garður 1943 og Hjónagarðar teknir í notkun 1974. Byggingarframkvæmdir við nýja garða hófust svo 1986 og fyrstu námsmennirnir fluttu þar inn í september 1988.
    Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er að stofnaður verði Byggingarsjóður námsmanna með eignaraðild Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Bandalags íslenskra sérskólanema og ríkissjóðs. Með stofnun þessa byggingarsjóðs yrði komið fastri skipan á húsnæðismál námsmanna í framtíðinni og þannig leystur sá vandi við útvegun leiguhúsnæðis sem námsmenn hafa staðið frammi fyrir á hverju hausti.
    Með stofnun byggingarsjóðsins má ná eftirfarandi markmiðum:
1.     Framtíðarlausn á húsnæðisvanda námsmanna.
2.     Lækkun námskostnaðar nemenda þar sem leiga í námsmannaíbúðunum yrði mun lægri en á hinum almenna markaði.
3.     Lægri námskostnaði er minnkar kröfur námsmanna um hækkun á framfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
4.     Að jafna aðstöðu milli landsbyggðar og höfuðborgar hvað menntun varðar.
5.     Að leiguverð á hinum almenna leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu lækkaði sem kæmi þeim helst til góða sem þar búa í leiguhúsnæði.



Fylgiskjal I.


Stúdentaráð Háskóla Íslands:


Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stofnun byggingarsjóðs námsmanna.


    Stúdentaráð Háskóla Íslands er æðsti fulltrúi háskólastúdenta innan skólans sem utan. Fjöldi innritaðra nema við Háskóla Íslands veturinn 1987–1988 er 4233.
    Uppbygging og rekstur á húsnæði fyrir háskólastúdenta hefur verið í höndum Félagsstofnunar stúdenta sem er sjálfseignarstofnun undir stjórn stúdenta, háskólayfirvalda og ríkisvaldsins.
    Félagsstofnun leigir út 100 herbergi og 55 íbúðir. Samkvæmt tölum frá 1986 bjuggu 186 stúdentar í húsnæði í eigu stofnunarinnar, en það voru þá 4,2% stúdenta. Í upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna kemur fram að um 50% námsmanna búa í leiguhúsnæði. Þetta þýðir að verulegur hluti námsmanna verður að leita eftir leiguhúsnæði á almennum markaði.
    Til þess að reyna að aðstoða þá sem hafa verið á hrakhólum með húsnæði hefur verið starfrækt húsnæðismiðlun stúdenta. Ekki hefur tekist að útvega öllum húsnæði sem þangað hafa leitað og kemur þar aðallega þrennt til:
1.     Of há fyrirframgreiðsla.
2.     Of mikið af því húsnæði sem í boði er telst lélegt.
3.     Of há leiga.
    Dæmi um algenga leigu samkvæmt upplýsingum húsnæðismiðlunar frá því í nóvembermánuði 1987:

Algeng leiga:
    Eitt herb. 8–12 þús. kr.
    Tvö herb. 20–25 þús. kr.
    Þrjú herb. 30 þús. kr.

    Nær allir stúdentar, sem búa í leiguhúsnæði, fá lán til framfærslu hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Frá 1. júní til 31. ágúst taldist óskert lán til einstaklings í leiguhúsnæði vera 24.390 kr.
    Af framansögu er ljóst að staðan í húsnæðismálum háskólastúdenta er ekki góð. Uppbygging húsnæðis fyrir námsmenn hefur verið hæg og áratugir liðið frá því að einum áfanga uppbyggingar hefur verið lokið þar til ráðist hefur verið í þann næsta. Nú er verið að byggja annan áfanga hjónagarða. Vonir eru bundnar við að 63 íbúðir verði teknar í notkun á þessu ári og fyrirhugað er að reyna að byggja 90 íbúðir á næstu 3–4 árum. Fjármögnun þessara framkvæmda hefur reynst mjög erfið. Engin framlög hafa fengist frá fjárveitingavaldinu ef undan eru skilin framlög til hönnunar stúdentagarða. Húsnæðisstofnun ríkisins lánar 85% af byggingarkostnaði garða, en Félagsstofnun þarf að útvega þau 15% sem á vantar.
    Byggingarsjóður stúdenta var stofnaður til að sjá um útvegun á þeim 15% byggingarkostnaðar sem ekki fást að láni frá húsnæðismálastjórn. Skemmst er frá því að segja að lítið hefur gengið enn sem komið er að útvega fjármagn í sjóðinn og lítið sem ekkert hefur í hann fengist ef undan eru skilin framlög stúdenta sjálfra. Vandræðaástand er því að skapast í byggingarmálum garða og til að reyna að bregðast við því ástandi var að frumkvæði stjórnar stúdentaráðs ákveðið að leggja 25% árlegra innritunargjalda í byggingarsjóðinn og háskólaráð hefur samþykkt að leggja til jafnhátt framlag af framkvæmdafé Háskólans næstu fimm árin. Stúdentaráð batt vonir við það að framlag fengist frá hinu opinbera, en þrátt fyrir yfirlýstan velvilja hæstvirts menntamálaráðherra fékkst ekkert framlag á fjárlögum 1988.
    Stærstu vandamálin við uppbyggingu námsmannahúsnæðis nú eru því annars vegar skortur á fjármagni til framkvæmda og hins vegar hversu óreglulega framkvæmdafé hefur fengist.
    Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar því fram kominni þingsályktunartillögu um Byggingarsjóð námsmanna og tekur heils hugar undir meginmarkmið hennar. Ráðið vill þó benda á að margt í tillögunni krefst ítarlegri útfærslu, t.d. þarf að setja ákveðnar reglur um aðgang námsmannasamtakanna að sjóðnum og einnig hvort ætlast er til að sjóðurinn eigi og reki íbúðarhúsnæði eða hvort um lánasjóð sé að ræða.
    Það er einlægur vilji stúdentaráðs að taka þátt í viðræðum við önnur námsmannasamtök og ríkisvaldið á grundvelli þessarar tillögu með það að leiðarljósi að bæta það ófremdarástand sem ríkir í byggingarmálum stúdenta í dag.
    Meðfylgjandi er ályktun sem samþykkt var samhljóða á fundi stúdentaráðs 16. des. 1987.

Virðingarfyllst,


f.h. stúdentaráðs


Ómar Geirsson


formaður.




    SHÍ fagnar fram kominni þingsályktunartillögu um stofnun Byggingarsjóðs námsmanna og tekur undir meginmarkmið hennar.
    Í því ófremdarástandi, sem nú ríkir í húsnæðismálum stúdenta, er nauðsynlegt að ríkisvaldið taki á vandanum og tryggi ákveðin framlög til uppbyggingar námsmannaíbúða.
    Nái markmið þessarar þingsályktunartillögu fram að ganga er hægt að koma fastri skipan á uppbyggingu námsmannaíbúða og leysa þannig í framtíðinni þann bráða húsnæðisvanda sem námsmenn búa nú við.
    Því skorar SHÍ á alþingismenn að taka undir markmið þingsályktunartillögunnar og jafnframt hraða afgreiðslu hennar sem kostur er.

Ólafur Darri Andrason.





Fylgiskjal II.


Bandalag íslenskra sérskólanema:


Til Félagsmálanefndar sameinaðs Alþingis.


(13. jan. 1988.)



    Tilefni þess að þetta bréf er ritað er m.a. að mótmæla því sem virðast vera mjög svo óvönduð vinnubrögð háttvirtrar félagsmálanefndar varðandi umfjöllun um þingsályktunartillögu um Byggingarsjóð námsmanna, mál nr. 138.
    Við lestur tillögunnar kemur berlega í ljós að þau námsmannasamtök, sem átt er við í tillögunni, eru stúdentaráð Háskóla Íslands og Bandalag íslenskra sérskólanema. Af einhverjum ástæðum, sem stjórn BÍSN er fyrirmunað að skilja, virðist háttvirt félagsmálanefnd einungis hafa séð ástæðu til að leita álits stúdentaráðs Háskóla Íslands á áðurnefndri þingsályktunartillögu. Þessum vinnubrögðum hlýtur stjórn Bandalags íslenskra sérskólanema að mótmæla harðlega og þá sérstaklega þegar horft er til þess að sérskólanemar hafa ekki aðgang að neinu námsmannahúsnæði og er því í raun vísað út á hinn almenna leigumarkað.
    Til að upplýsa háttvirta félagsmálanefnd um hvaða námsmenn er verið að tala þegar talað er um Bandalag íslenskra sérskólanema skulu hér taldir upp þeir skólar þar sem nemendur eru félagar í BÍSN, en þeir eru: Fiskvinnsluskólinn, Fósturskóli Íslands, Garðyrkjuskóli ríkisins, Iðnskólinn í Reykjavík, Íþróttakennaraskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, Leiklistarskóli Íslands, Lyfjatæknaskóli Íslands, Myndlista- og handíðaskóli Íslands, Stýrimannaskóli Íslands, Söngskólinn í Reykjavík, Tónlistarskólinn í Reykjavík, Tækniskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands.
    Hvað varðar efnislega umfjöllun um þingsályktunartillöguna sem slíka vill stjórn BÍSN fyrst nota þetta tækifæri til að árétta þá skoðun sína að ekki geti verið neitt réttlæti í því að miða allar framkvæmdir í húsnæðismálum námsmanna einungis við háskólastúdenta eins og gert hefur verið alla tíð og láta sem aðrir námsmenn þurfi ekki á húsnæði að halda eða séu jafnvel ekki til. Skorar stjórn BÍSN á háttvirta félagsmálanefnd að hafa þetta í huga í allri umfjöllun sinni um húsnæðismál námsmanna.
    Á þessu stigi málsins hlýtur umsögn BÍSN um umrædda þingsályktunartillögu að vera jákvæð, ekki síst vegna þess að þetta er í fyrsta skiptið sem einhver viðbrögð koma fram í þá átt frá hinu opinbera að fleiri námsmenn en stúdentar við Háskóla Íslands gætu þurft á því að halda að eiga aðgang að námsmannahúsnæði.
    Fyrir sitt leyti getur stjórn BÍSN fallist á að þingsályktunartillagan verði samþykkt í sinni upprunalegu mynd. Hins vegar áskilur BÍSN sér allan rétt á því að koma með aðrar athugasemdir á seinni stigum málsins. Eins setur BÍSN fram þá sjálfsögðu kröfu að ef stofnun umrædds byggingarsjóðs verður einhvern tíma að veruleika verði hlutaðeigandi námsmannasamtökum gefinn kostur á að eiga aðild að samningu laga fyrir sjóðinn og allri nánari útfærslu hans.
    Að lokum þetta. Stjórn BÍSN hvetur félagsmálanefnd til að beita sér fyrir því að eitthvað verði gert í húsnæðismálum námsmanna. Það eru engar ýkjur þegar sagt er að ástandið sé hörmulegt. Það má með nokkurri vissu fullyrða að ástandið sé ekki eins slæmt annars staðar á Norðurlöndum. Samþykkt þingsályktunartillögunnar um stofnun Byggingarsjóðs námsmanna væri góð byrjun til lausnar þessa brýna vandamáls, en aðeins ef henni væri fylgt eftir með stofnun sjóðsins og málið yrði ekki látið daga uppi á Alþingi.

Með kveðju,


f.h. framkvæmdastjórnar BÍSN


Kristinn H. Einarsson,


framkvæmdastjóri BÍSN.





Fylgiskjal III.


Félagsstofnun stúdenta:

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stofnun Byggingarsjóðs námsmanna.



    Félagsstofnun stúdenta hefur lögum samkvæmt m.a. það hlutverk að byggja og reka stúdentagarða fyrir stúdenta við Háskóla Íslands. Er stofnunin líklega eini aðilinn hérlendis, enn sem komið er a.m.k., sem hefur þetta hlutverk skilgreint í lögum, þ.e. að byggja íbúðarhúsnæði fyrir námsmenn.
    Stofnunin á nú og rekur um 100 einstaklings- og parherbergi og 55 leiguíbúðir. Á tímabilinu frá ágústmánuði til desembermánaðar á þessu ári verða teknar í notkun 63 íbúðir og fyrirhuguð er bygging á um 30 íbúðum til viðbótar á næsta ári og um 60 íbúðum á næstu tveimur til þremur árum þar á eftir. Ljóst er eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að þetta mun þó hvergi nægja til að mæta þörf háskólastúdenta á íbúðarhúsnæði.
    Húsnæðisstofnun ríkisins (Byggingarsjóður verkamanna) lánar 85% byggingarkostnaðar en stofnunin þarf að útvega þau 15% sem á vantar. Í því skyni hefur verið stofnaður sérstakur sjóður, Byggingarsjóður stúdenta, með aðild stúdentaráðs HÍ, háskólaráðs og menntamálaráðuneytis. Sjóðurinn er í umsjá Félagsstofnunar stúdenta.
    Stúdentaráð Háskóla Íslands og Félagsstofnun stúdenta hafa samþykkt að leggja fjórðung árlegra skráningargjalda í sjóðinn og háskólaráð hefur samþykkt jafnhátt árlegt framlag af framkvæmdafé Háskólans næstu fimm ár. Fjárveitingavaldið hefur hins vegar hætt öllum fjárstuðningi við byggingarframkvæmdir stúdenta frá þeim tíma er framkvæmdir hófust, en árin á undan var veitt árlega 200 þúsund krónum til hönnunar stúdentagarða. Beiðni Félagsstofnunar um framlag á fjárlögum þessa árs var hafnað af háttvirtri fjárveitinganefnd Alþingis, en menntamálaráðherra hefur lýst stuðningi sínum við að ríkisvaldið leggi fram jafnháa upphæð og hvor hinna aðilanna leggur í sjóðinn.
    Þessi framlög eru forsenda þess að stofnunin geti staðið við hlutverk sitt um byggingu stúdentagarða. Verði þau afnumin mun stofnunin ekki geta staðið í frekari framkvæmdum á þessu sviði.
    Þess er ekki að vænta að háskólastúdentar vilji greiða í tvo sjóði. Stuðningur Félagsstofnunar stúdenta við hugmyndina um byggingarsjóð námsmanna hlýtur því að vera háður því skilyrði að hlutur stúdenta við Háskóla Íslands í þeim fjármunum, sem þar yrðu til skiptanna, yrði að minnsta kosti jafnstór og núverandi fyrirkomulag býður upp á.
    Til þess að nefna glöggt dæmi þá þyrfti framkvæmdafé háskólastúdenta að nema að minnsta kosti 50 millj. kr. á ári (framlög + lán) til þess að þeir væru settir jafnt. Ef ekki er hægt að tryggja svo háa upphæð verður að telja að hagsmunum háskólastúdenta sé betur borgið við óbreytt ástand.
    Af framansögðu má vera ljóst að frá sjónarhóli Félagsstofnunar stúdenta eru nokkrir annmarkar á tillögunni um Byggingarsjóð námsmanna eins og hún hefur verið sett fram. Telja verður að hagsmunum Félagsstofnunar stúdenta og þar með stúdenta við Háskóla Íslands væri betur borgið ef ríkisvaldið féllist á að greiða þriðjung á móti stúdentum og Háskólanum í Byggingarsjóð stúdenta. Það kann að vera umhugsunarvert hvort Félagsstofnun ætti að þjóna fleiri námsmönnum í húsnæðismálum en einungis þeim sem stunda nám við Háskóla Íslands, en tillagan fjallar ekki um það og verður ekki rætt frekar að svo stöddu.
    Til að auðvelda námsmannasamtökum að byggja yfir félagsmenn sína má benda á þá leið að fé það, sem Húsnæðisstofnun ríkisins/Byggingarsjóður verkamanna lánar til félagslegra leiguíbúða á vegum stofnana og félagasamtaka, verði aukið. Þannig má stuðla að því að biðtími eftir þeim lánum styttist og ef til vill væri einnig hægt að hækka lánshlutfall og lengja lánstíma án þess að námsmenn þyrftu að reiða sig á bein framlög úr ríkissjóði. Slíkar aðgerðir mundu eftir sem áður gera ráð fyrir að byggingaraðilar þyrftu að leggja fram 10–15% af kostnaði við bygginguna og væri í raun aðeins styrking á núverandi kerfi sem virðist í meginatriðum reynast vel.

    Samþykkt 11. febrúar 1988 á stjórnarfundi Félagsstofnunar stúdenta.

Óskar Magnússon


formaður.