Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 102 . mál.


Sþ.

105. Tillaga til þingsályktunar



um deilur Ísraels og Palestínumanna.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir, Páll Pétursson.



    Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.
    Alþingi fordæmir síendurtekin mannréttindabrot Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum að undanförnu og leggur áherslu á að ísraelsk stjórnvöld virði Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum.
    Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila og telur að Ísland eigi að bjóðast til að vera gestgjafi slíkrar ráðstefnu.
    Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt hennar til að stofna eigin ríki í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 um leið og viðurkenndur er tilveruréttur Ísraelsríkis innan öruggra landamæra. Jafnframt ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi felur ríkisstjórninni að framfylgja ofangreindri stefnu og viðurkenna Frelsissamtök Palestínu, PLO, sem málsvara palestínsku þjóðarinnar.

Greinargerð.


    Ástandið á svæðunum, sem Ísraelsmenn hafa haldið herteknum í Palestínu allt frá árinu 1967, hefur farið hríðversnandi síðustu missiri. Það er óþolandi bæði fyrir Palestínumenn og Ísraelsmenn og brýtur gegn alþjóðlegum samþykktum um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og almenn mannréttindi. Á tímabilinu frá 8. desember 1987 til 27. september 1988 drápu ísrelska hernámsliðið og ísraelskir landnemar 374 óbreytta Palestínumenn, þar af fjölda barna, unglinga og gamalmenna (sjá fylgiskjal IX).
    Ástandið í þessum heimshluta og áframhaldandi hernám Ísraelsmanna er storkun við almenningsálit og ógnun við heimfriðinn. Um leið og framferði Ísraelsstjórnar er fordæmt ber að leggja áherslu á að hið fyrsta verði kvödd saman alþjóðleg friðarráðstefna um Austurlönd nær á vegum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila, þar á meðal Frelsissamtaka Palestínu, PLO, og Ísraels á jafnréttisgrundvelli.
    Palestínuþjóðin er til og verður að geta ráðið sjálf málum sínum samkvæmt viðteknum alþjóðalögum. Liður í friðsamlegri lausn mála þarf að felast í því að Palestínumenn viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis og á sama hátt viðurkenni Ísraelsmenn rétt Palestínumanna til að stofna eigin ríki á hernumdum svæðum í Palestínu. Slík gagnkvæm viðurkenning væri í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 (fylgiskjal I), en með henni var tilveruréttur Ísraelsríkis staðfestur, svo og í samræmi við allar ályktanir Sameinuðu þjóðanna upp frá því.
    Þá ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og árlegar ályktanir allsherjarþingsins.
    Eðlilegur samningsaðili fyrir hönd palestínsku þjóðarinnar eru Frelsissamtök Palestínu, PLO. Engin önnur samtök hafa gert tilkall til að tala fyrir hennar hönd og þau njóta fylgis þorra Palestínumanna bæði á herteknu svæðunum og þeirra sem eru í útlegð. Ljóst má vera að án þátttöku PLO í friðarsamningum verður ekki tryggður varanlegur friður milli Ísraelsmanna og araba. Þótt PLO hafi fyrr á árum staðið fyrir stefnu sem margir hafa gagnrýnt er ekki hægt að hafna þeim nú sem fulltrúum palestínsku þjóðarinnar. Nægir í því sambandi að benda á að Frelsissamtök Palestínu eru í reynd viðurkennd sem einu samtökin til að koma fram fyrir hönd Palestínumanna innan Sameinuðu þjóðanna, af samtökum óháðra ríkja og af ríkjum Arababandalagsins. Því eiga íslensk stjórnvöld nú að taka upp stjórnmálaleg samskipti við Frelsissamtök Palstínu, PLO.
    Ísland var haustið 1986 gestgjafi fyrir fund leiðtoga Sovétríkjanna og Bandaríkjanna þar sem grunnur var lagður að þeim árangri í afvopnunarmálum sem síðan hefur náðst. Skipulagning þess fundar af hálfu Íslendinga fór vel úr hendi og hlaut almenna viðurkenningu. Þáverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, setti eftir fundinn fram hugmynd um friðarstofnun á Íslandi og sem utanríkisráðherra tók hann í fyrra málstað Palestínumanna svo að eftir var tekið. Það væri í góðu samræmi við þetta að íslensk stjórnvöld byðust nú til að taka við friðarráðstefnu um Palestínumálið.
    Íslendingar hafa áratugum saman veitt Ísraelsmönnum stuðning á alþjóðvettvangi. Sá stuðningur hefur m.a. byggst á samúð með málstað gyðinga í trausti þess að þeir gengju fram af sanngirni, minnugir eigin sögu og þjáninga. Við höfum því í senn skyldur og stöðu til þess að krefjast nú réttlætis fyrir palestínsku þjóðina sem orðið hefur þolandi ákvarðana sem Ísland ber ábyrgð á ásamt mörgum öðrum.
    Margar þjóðir og alþjóðasamtök hafa að undanförnu ályktað um Palestínumálið og fordæmt framferði Ísraelsstjórnar. Má í því sambandi minna á ályktun öryggisráðsins frá 5. janúar 1988 (fylgiskjal II) og ályktun Evrópuþingsins 10. mars 1988 (fylgiskjal III). Alþjóðasamband jafnaðarmanna gerði ályktun um Palestínumálið í janúar 1988 (fylgiskjal IV) og enn er í gildi ályktun Efnahagsbandalags Evrópu frá 13. júní 1980 (fylgiskjal V).
    Rétt er að minna á lokayfirlýsingu leiðtogafundar arabaríkjanna í Alsír 7.–8. júní 1988, en þar kom fram eindreginn stuðningur við PLO og Jassir Arafat (fylgiskjal VI).
    Í fylgiskjali VII kemur fram jákvæð afstaða Jassirs Arafats til ályktana Sameinuðu þjóðanna nr. 242 og 338 og einnig er birt frásögn af ræðu sem hann flutti á fundi Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna 19. febrúar 1988 (fylgiskjal VIII).
    Þá er að lokum birt með tillögu þessari bréf stjórnar Félagsins Ísland-Palestína til alþingismanna, dags. 28. september 1988. Þar er þess m.a. óskað að þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi taki höndum saman um að styðja baráttu palestínsku þjóðarinnar fyrir réttlæti, frelsi og friði. „Slíkt er frumforsenda fyrir farsælli þróun í Austurlöndum nær, ekki síst fyrir Ísraelsmenn sjálfa,„ segir í niðurlagi bréfsins.
    Með tillögu þessari er leitað eftir afstöðu Alþingis í mikilvægu máli sem æ fleiri hafa áhyggjur af, einnig hér á landi. Vegna aðildar Íslands á sínum tíma að ákvörðunum um stofnun Ísraelsríkis berum við hluta af ábyrgðinni á því sem þar hefur síðan gerst. Þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs hefur leitt til mikilla erfiðleika, styrjaldarátaka og hörmunga fyrir það fólk sem áður byggði Palestínu. Nú er það skylda Íslendinga að eiga þátt í að rétta hlut palestínsku þjóðarinnar um leið og tryggð er framtíð Ísraelsríkis.



Fylgiskjal I.


Útdráttur úr skjölum annars fundar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
Ályktanir frá 16. september – 29. nóvember 1947.

Ályktun um skýrslu sérnefndar um málefni Palestínu.


Áætlun um skiptingu og efnahagslegt samband.



I. hluti.


Framtíðarstjórnskipan og stjórn Palestínu.



A. Endalok umboðsstjórnar, skipting og sjálfstæði.
1.     Umboðsstjórn Palestínu skal ljúka hið fyrsta og í öllu falli eigi síðar en 1. ágúst 1948.
2.     Hersveitir umboðsstjórnarinnar skulu fluttar á brott í áföngum frá Palestínu og skal brottflutningi hersveitanna lokið svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en 1. ágúst 1948.
.      Umboðsstjórnin skal tilkynna nefndinni með eins miklum fyrirvara og unnt er um þá ákvörðun sína að binda enda á stjórnarumboðið og yfirgefa hvert svæði fyrir sig.
.      Umboðsstjórnin skal eftir fremsta megni leitast við að tryggja að fólk verði flutt brott af svæði innan ríkis gyðinga, þar sem m.a. er að finna höfn og upplendi með aðstöðu sem nægir til að taka á móti verulegum fjölda innflytjenda svo fljótt sem unnt er og í öllu falli eigi síðar en 1. febrúar 1948.
3.     Sjálfstæðu ríki gyðinga og araba ásamt sérstakri alþjóðlegri stjórn Jerúsalemborgar eins og gert er ráð fyrir í III. lið þessarar áætlunar verði komið á fót innan tveggja mánaða eftir brottflutning hersveita umboðsstjórnarinnar og í öllu falli eigi síðar en 1. október 1948.Landamörk arabaríkisins, gyðingaríkisins og Jerúsalemborgar skulu vera eins og lýst er í II. og III. hluta hér á eftir.
4.     Tímabilið frá því að allsherjarþingið samþykkir tillögur sínar um málefni Palestínu og þar til komið hefur verið á sjálfstæði araba- og gyðingaríkjanna skal vera aðlögunartími.

F. Heimild til aðildar að Sameinuðu þjóðunum.
    Þegar sjálfstæði annaðhvort gyðingaríkisins eða arabaríkisins hefur tekið gildi eins og gert er ráð fyrir í þessari áætlun og yfirlýsing og skuldbindingar hafa verið undirritaðar af öðrum hvorum aðila skal tekin til vinsamlegrar umfjöllunar umsókn þess aðila um inntöku og aðild að Sameinuðu þjóðunum í samræmi við 4. gr. stofnsamnings Sameinuðu þjóðanna.



Fylgiskjal II.


Ályktun öryggisráðsi ns 5. janúar 1988.



     Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 607, dags. 5. jan. 1988, skilgreinir aðgerðir Ísraelsríkis, einkum brottrekstur Palestínumanna frá herteknu svæðunum, sem brot á Genfarsáttmálanum um meðferð óbreyttra borgara á herteknum svæðum.
    Ályktunin er athyglisverð af tveimur ástæðum:
    Bandaríki Norður-Ameríku greiddu í fyrsta skipti í sex ár atkvæði með ályktun sem beinist gegn Ísraelsríki.
    Í ályktuninni er vikið að herteknu svæðunum sem palestínskum landssvæðum og fjallað um réttindi palentínskra borgara. Þar með urðu þáttaskil í baráttu Palestínumanna fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á því að þeir væru sérstök þjóð og einnig því að hið hertekna land héti Palestína.
    Ályktunin fylgir hér með.

    Öryggisráðið:
–     með hliðsjón af ályktun nr. 605 frá 22. desember 1987,
–     með miklum áhyggjum af ástandi mála á hernumdum svæðum Palestínu,
–     eftir að hafa verið tilkynnt sú ákvörðun Ísraels, hernámsveldisins, að „halda áfram brottflutningi“ á palestínskum borgurum á hernámssvæðinu,
–     með hliðsjón af ákvæðum Genfarsáttmálans um vernd almennra borgara á stríðstímum frá 12. ágúst 1949 og sérstaklega gr. 47 og 49 sama sáttmála,
1.     staðfestir enn að ákvæði Genfarsáttmálans frá 12. ágúst 1949 um vernd almennra borgara taka til svæða í Palestínu sem og annarra arabískra svæða, sem Ísrael hefur hernumið frá 1967, þar með talin Jerúsalem;
2.     skorar á Ísrael að forðast brottflutning nokkurra Palestínuaraba frá hermnumdu svæðunum;
3.     fer þess sterklega á leit við Ísrael, hernámsveldið, að gegna þeim skyldum sem sáttmálinn kveður á um;
4.     ákvarðar að hafa ástandið á þeim svæðum Palestínu og annarra arabaríkja, sem hernumin hafa verið af Ísrael frá 1967, þar með talin Jerúsalem, til athugunar.



Fylgiskjal III.


Evrópuþingið fordæmir Ísraelsher.


(Úr Mbl. 11. mars 1988.)



    Evrópuþingið í Strasborg fordæmdi 10. mars „pyntingar, tilviljanakenndar handtökur, kúganir og ofbeldisverk ísraelska hersins“ á hernumdu svæðunum.
    Daginn áður felldu þingmenn á Evrópuþinginu samninga sem framkvæmdastjórn og ríkisstjórnir Evrópubandalagsins höfðu gert við ísraelsku stjórnina. Í máli þingmanna kom fram að andstaða þeirra beindist fyrst og fremst gegn framferði Ísraela gagnvart Palestínumönnum á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu. Settar hafa verið fram hugmyndir um að beita Ísrael viðskiptaþvingunum.
    Atkvæðagreiðslur af þessu tagi fara fram samkvæmt ákvæðum Rómarsáttmálans, sem tóku gildi 1. júlí á síðasta ári, en þá voru völd þingsins í Strasborg
aukin að nokkru leyti. Samningarnir, sem felldir voru, fjölluðu m.a. um tollfrjálsan innflutning frá Ísrael á ávaxtasafa og afskornum blómum, hagstæð lán til Ísraela og breytingar á viðskiptasamningi Ísraels við EB. Ljóst er að stjórnmálalegar afleiðingar þessa atburðar eru mun alvarlegri en efnahagslegar afleiðingar hans, þótt rétt sé að gera ekki lítið úr þeim.



Fylgiskjal IV.


Alþjóðasamband jafnaðarmanna


fordæmir ofbeldi Ísraelsmann a.


(Úr Arab and International News, Jerúsalem, 37. tbl. maí 1988.)



    Dagblaðið Le Monde skýrði frá því 14. maí að Alþjóðasamband jafnaðarmanna, sem hélt fund dagana 9.–12. maí til að ræða samskipti austurs og vesturs, hefði endað með því að verja mestum tíma í umræður um ástandið í Mið-Austurlöndum, einkum á hernumdu svæðunum.
    Meðal fulltrúa á fundinum voru þrír forsætisráðherrar Evrópulanda (frá Noregi Gro Harlem Brundtland, frá Spáni Felipe Gonzalez, frá Svíþjóð Ingvar Carlsson og frammámenn í Alþjóðasambandinu svo sem Óskar Lafontaine (frá Þýskalandi), Neil Kinnock (frá Stóra-Bretlandi), Bettino Craxi (frá Ítalíu), Símon Peres (frá Ísrael) og Walid Jonblatt (frá Líbanon).
    Símon Peres var kominn frá Ísrael til að reyna að bægja frá harðri gagnrýni á stjórn sína, en það tókst honum ekki. Hann bar fram yfirlýsingu sem hafði á sér yfirbragð hógværðar en hvikaði þó hvergi frá grundvallaratriðum. Hann studdi hugmyndina um alþjóðlega friðarráðstefnu, en sagði að Palestínumenn yrðu að vera hluti af jórdönsku sendinefndinni. Hann viðurkenndi að Palestínumenn yrðu að velja eigin fulltrúa, en sagði að hann gæti ekki fallist á beina þátttöku PLO.
    Næst talaði Craxi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu. Hann sagði: „Ég tel að við ættum að segja afdráttarlaust að stefna núverandi stjórnar Ísraels eyðileggi allar horfur á friði, brjóti réttindi þjóða og sé í andstöðu við alþjóðalög. Stuðningur Verkamannaflokksins við ranga og skammsýna stefnu er veikleiki og vanræksla á skyldum.“
    Ræðunni var fagnað með lófataki en Símon Peres gekk úr salnum.

Ráðstefna Alþjóðasambands jafnaðarmanna


í Madrid 12. nóvember 1988.



Ályktun um Mið-Austurlönd.
    Alþjóðasamband jafnaðarmanna lýsir þungum áhyggjum af versnandi ástandi í Mið-Austurlöndum.
    Mannleg þjáning hefur aukist á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu, einkum meðan núverandi uppreisn Palestínumanna stendur yfir. Sú staðreynd að misheppnast hefur að finna pólitíska lausn á átökunum í Mið-Austurlöndum og koma af stað raunhæfum friðarumleitunum hefur valdið djúpstæðri gremju meðal Palestínumanna. Uppreisn þeirra stafar einnig að miklu leyti af óbærilegum aðstæðum á hernámssvæðum Ísraelsmanna.
    Alþjóðasambandið heitir á alla aðila og á allt fólkið á svæðinu, gyðinga og araba, að forðast allt ofbeldi og allar aðgerðir sem stríða gegn alþjóðalögum og mannréttindum. Meðan á hernáminu stendur hvílir sérstök ábyrgð á herstjórn Ísraelsmanna. Við fordæmum harðlega ofbeldisverk ísraelskra hersveita á herteknu svæðunum. Jafnframt fordæmum við harðlega hryðjuverkaárásir palestínskra eða annarra samtaka gegn borgaralegum skotmörkum sem auka á hættuástandið.
    Alþjóðasamband jafnaðarmanna er enn fylgjandi friðsamlegri lausn deilunnar og trúir því fastlega að raunveruleg friðaráætlun sé möguleg. Við ítrekum stuðning okkar við alþjóðlega friðarráðstefnu sem haldin verði á vegum Sameinuðu þjóðanna og kölluð verði saman á grundvelli stofnsamþykktar Sameinuðu þjóðanna og 242. og 338. ályktana öryggisráðsins. Á þessari ráðstefnu skulu allir viðkomandi aðilar, þar á meðal Palestínumenn, sem eigi rétt á að velja eigin fulltrúa, stefna að því að tryggja öryggi núverandi ríkja, þar á meðal Ísraels, og staðfesta rétt Palestínumanna til sjálfsákvörðunar.
    Alþjóðasambandið virðir framtak George Shulz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fyrsta skref fram á við og vonast til þess að það muni stuðla að pólitískri lausn. Sambandið fagnar einnig vilja Sovétmanna til að gegna jákvæðu hlutverki við að leita að lausn. Við hvetjum Mikhail Gorbatsjoff aðalritara og Ronald Reagan forseta til að koma á gagnkvæmum skilningi milli þjóðanna tveggja og vinna að skjótum framförum.
    Alþjóðasambandið styður eindregið tilraunir aðildarflokka sinna í Ísrael, Verkamannaflokksins og Verkalýðsflokksins (MAPAM) til að koma á friðsamlegum samningum og finna pólitíska lausn á grundvelli sósíaliskrar hugmyndafræði.
    Við styðjum einnig tilraunir Palestínumanna til að koma á friði með samningum. PLO gæti lagt verulega af mörkum til friðarumleitana með því að breyta þjóðarstofnskrá sinni og viðurkenna Ísraelsríki.
    Það er nauðsynlegt að afneita ofbeldi sem aðferð til að leysa deilur og að koma á gagnkvæmri viðurkenningu á Ísraelsríki og rétti Palestínumanna til sjálfsákvörðunar.
    Gera verður allt sem hægt er til að bæta aðstæður Palestínumanna á hernumdu svæðunum. Við skorum á allar þjóðir heims að veita þeim efnahags- og líknaraðstoð. Við skorum á ísraelsk stjórnvöld að opna nú þegar aftur skólana á Vesturbakkanum.
    Atburðir undanfarinna mánaða sýna að þetta kunni að vera eitt síðasta tækifærið sem gefst til friðsamlegs samkomulags og því skorar Alþjóðasamband jafnaðarmanna á alla viðkomandi aðila að fallast á grundvallarhugmyndina um alþjóðlega ráðstefnu um frið í Mið-Austurlöndum.



Fylgiskjal V.


YFIRLÝSING EB UM MIÐ-AUSTURLÖND


(Gefin út í Feneyjum, 13. júní 1980.)



1.     Þjóðhöfðingjar og forsætisráðherrar, ásamt utanríkisráðherrum, skiptust á skoðunum um alla þætti núverandi ástands í Mið-Austurlöndum, m.a. um stöðu samningamála í kjölfar samkomulags sem undirritað var af Egyptalandi og Ísrael í mars 1979. Þeir voru sammála um að vaxandi spenna á þessu svæði fæli í sér alvarlega hættu og að því væri heildarlausn á ágreiningi Ísraelsmanna og araba nauðsynlegri og brýnni en nokkru sinni fyrr.
2.     Hin níu aðildarríki Evrópubandalagsins telja að hefðbundin tengsl og sameiginleg hagsmunamál, sem tengja Evrópu Mið-Austurlöndum, leggi Evrópu þá skyldu á herðar að gegna sérstöku hlutverki og krefjist þess nú að þau vinni með áþreifanlegri hætti að friði.
3.     Í þessu sambandi byggja hin níu aðildarríki bandalagsins á ályktunum 242 og 338 í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, svo og á skoðunum sem þau hafa lýst yfir við ýmis tækifæri, einkum í yfirlýsingu frá 29. júní 1977, 19. september 1978, 26. mars og 18. júní 1979, svo og í ræðu sem haldin var fyrir þeirra hönd 25. september 1979 af utanríkisráðherra Írlands á 34. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
4.     Á þeim grundvelli sem þannig hefur verið lagður er tími til kominn að stuðla að viðurkenningu og framkvæmd þeirra tveggja grundvallaratriða sem viðtekin eru á alþjóðavettvangi: réttur allra þjóða á svæðinu, þar á meðal Ísraelsmanna, til tilveru og öryggis og réttur allra manna til réttlætis, en það felur í sér viðurkenningu á lögmætum réttindum Palestínumanna.
5.     Öll löndin á svæðinu eiga rétt á því að búa í friði innan öruggra, viðurkenndra og tryggra landamæra. Þær tryggingar, sem nauðsynlegar eru til friðarsamkomulags, skulu lagðar til af Sameinuðu þjóðunum með ákvörðun öryggisráðsins og ef nauðsyn krefur eftir öðrum leiðum sem gagnkvæmt samkomulag næst um. Bandalagsríkin níu lýstu því yfir að þau væru reiðubúin til þátttöku innan ramma heildarsamkomulags og með raunverulegum og bindandi alþjóðatryggingum, þar á meðal (með tryggingum) á svæðinu.
6.     Sanngjarna lausn verður að finna á Palestínuvandanum sem snýst ekki einvörðungu um flóttamenn. Skapa þarf hinni palestínsku þjóð, sem
        meðvituð er um tilvist sína sem slík, aðstöðu til að nýta til fulls rétt sinn til sjálfsákvörðunar með viðhlítandi aðgerðum sem skilgreindar yrðu innan heildarfriðarsamkomulagsins.
8.     Til þess að þessum markmiðum verði náð þarf að koma til þátttaka og stuðningur allra aðila sem hlut eiga að því friðarsamkomulagi sem bandalagsríkin níu vinna nú að í samræmi við þau grundvallaratriði sem sett eru fram í yfirlýsingunni sem getið er hér að framan. Þessi grundvallaratriði eiga við um alla aðila og þar með þjóð Palestínumanna og PLO sem verða að eiga hlut að samningaviðræðunum.
8.     Bandalagsríkjunum níu er ljóst hve mikilvæg staða Jerúsalemborgar er fyrir alla aðila. Þau leggja áherslu á að þau muni ekki viðurkenna neinar einhliða aðgerðir sem miða að því að breyta stöðu Jerúsalem og að hvert það samkomulag sem gert er um stöðu borgarinnar skuli tryggja frjálsan aðgang allra að helgistöðum þar.
9.     Bandalagsríkin níu leggja áherslu á nauðsyn þess að Ísraelsmenn bindi enda á hernám þess lands sem þeir hafa hersetið síðan í átökunum 1967 eins og þeir hafa gert með hluta Sínaískaga. Ríkin eru sannfærð um að landnám Ísraelsmanna sé alvarleg hindrun í friðarumleitunum í Mið-Austurlöndum. Bandalagsríkin níu telja landnám þetta, svo og breytingar á íbúatölu og eignarrétti á hinum hernumdu svæðum brjóti í bága við alþjóðalög.
10.     Svo mikið sem bandalagsríkjunum níu er í mun að binda enda á ofbeldi telja þau að aðeins afneitun ofbeldis og hótana um að beita ofbeldi af hálfu allra aðila geti skapað andrúmsloft trausts á svæðinu og orðið grundvöllur að heildarlausn á átökunum í Mið-Austurlöndum.
11.     Bandalagsríkin níu hafa ákveðið að koma á nauðsynlegu sambandi við alla viðkomandi aðila. Tilgangurinn með því er að kynnast afstöðu aðila til þeirra grundvallaratriða sem sett eru fram í þessari yfirlýsingu og í ljósi niðurstaðna þessara könnunarviðræðna að ákveða hvaða mynd slík áætlun af þeirra hálfu gæti hugsanlega tekið.
    Síðari ályktanir Sameinuðu þjóðanna (ályktanir öryggisráðsins ES-7/2 29. júlí 1980, ályktun öryggisráðsins nr. 478 20. ágúst 1980, ályktanir allsherjarþingsins nr. 35–169 og 35–207 frá 15. og 16. desember 1980 o.s.frv.) hafa ítrekað fyrri ályktanir og fordæmt „Jerúsalemfrumvarpið“ frá 1980 þar sem því er lýst yfir berum orðum að Jerúsalem skuli um alla framtíð vera óskipt höfuðborg Ísraels og aðsetur stjórnar, þings og dómsvalds. Í ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 6. febrúar 1982 var innlimun
Ísraelsmanna á Gólanhæðum fordæmd. Í ályktun Sameinuðu þjóðanna í júní 1982 var innrás Ísraelsmanna í Líbanon fordæmd og þess krafist að Ísraelsmenn drægju heri sína til baka.



Fylgiskjal VI.


Arafat og PLO með pálmann í höndunum eftir Alsírfundinn.


(Mbl. 11. júní 1988.)



    Jassir Arafat, formaður Frelsissamtaka Palestínumanna, stendur með pálmann í höndunum að loknum leiðtogafundi araba í Algeirsborg. Einróma lýstu fulltrúarnir samstöðu með Palestínumönnum á hernámssvæðum Ísraels. Sömuleiðis að PLO væri hinn eini rétti málsvari Palestínuþjóðarinnar og Arafat óumdeilanlega foringi. Stefna Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum var fordæmd og staðfest einum rómi að Frelsissamtök Palestínu væru hinn eini og sanni aðili er gæti farið með málefni Palestínumanna. Tekið var fram að það væri skylda allra bandalagsþjóðanna að styðja og efla PLO svo að Palestínumönnum mætti takast að ná fram rétti sínum.
    Öll ríki Arababandalagsins, 21 að tölu, sendu fulltrúa og aðeins þrjá þjóðhöfðingja vantaði, frá Írak, Óman og Sómalíu, en næstæðstu menn þessara ríkja voru á fundinum. Sýndi þátttakan strax þegar til fundarins var boðað að mjög víðtæk samstaða hafði náðst. Fréttaskýrendur sem fylgdust með fundinum segja að sjaldgæft sé að verða vitni að jafnmikilli og, að því er virtist, einlægri samstöðu meðal araba og þar kom fram.
    Áreiðanlegir heimildarmenn hafa fyrir satt að náðst hafi samkomulag, bak við tjöldin, um að öll aðildarríkin stæðu að því að koma á laggirnar sjóði sem ætlað sé að fjármagna áframhaldandi aðgerðir Palestínumanna á Vesturbakkanum og í Gaza.

Viðhorfið til Arafats.
    Eins og alkunna er hafa verið miklar deildur milli hinna ýmsu hópa sem berjast fyrir sjálfstæðu ríki Palestínumanna. Sumir þeirra hafa árum saman átt í útistöðum við Arafat og m.a. notið stuðnings Líbíumanna og Sýrlendinga. Oft hefur verið grunnt á því góða milli Husseins Jórdaníukonungs og Arafats og svo mætti lengi telja.
    Eftir að fundinum lauk kepptust ýmsir fulltrúar við að lofa forustu Arafats og sögðu að nýtt skeið væri runnið upp í samskiptum hinna arabísku bræðralagsþjóða. Menn skyldu auðvitað gæta þess að taka slíkum skrúðyrðum með nokkurri varúð, en fram hjá því verður ekki lengur horft að Arafat hefur risið upp margefldur eina ferðina enn. Á fundinum gekk hver leiðtoginn af öðrum á hans fund og var við hvern talað lengi og hljótt. Margir spyrja hver verði staða andstæðinga Arafats í arabaríkjunum þar sem þeir hafa notið stuðnings hæstráðenda. Um það er of snemmt að spá, en ekki er ólíklegt að það takist að fá einhverja þeirra til samstarfs við Arafat á ný.
    Það vakti óneitanlega mikla athygli að Gaddafí, leiðtogi Líbíu, skyldi koma til fundarins. Hann hafði kunngert að hann hefði engin áform um það. Leiðtogar Alsír munu hafa lagt hart að Gaddafí og þar sem honum er mjög í mun að vingast á ný við nágrannaþjóðirnar í Norður-Afríku hefur það ugglaust ráðið úrslitum.

Mikill einhugur.
    Ástæðan fyrir því hversu mikil eindrægni var á fundinum og samstaða með PLO afdráttarlaus á sér ýmsar skýringar og er ekki úr vegi að víkja að þeim hér til glöggvunar.
    Þegar leiðtogafundur arabaríkja var haldinn í Amman í nóvember sl. voru málefni Palestínumanna nánast hunsuð. Aðalmál fundarins var stríðið við Flóann, milli Írans og Íraks, og sáralítill gaumur gefinn að málflutningi PLO- manna sem vildu fá stuðningsyfirlýsingu við Arafat. Því var Amman-fundurinn mikil vonbrigði fyrir forystu PLO og Palestínumenn almennt.
    Skömmu síðar brutust út óeirðirnar á hernámssvæðum Ísraela sem smátt og smátt urðu að uppreisn. Stjórnmálaskýrendur segja einsætt að upphafið megi rekja til gremjunnar yfir áhugaleysi arabaþjóðanna á Amman-fundinum. Ekki hefur neinum verið stætt á því að fullyrða að PLO hafi staðið að baki óeirðanna í byrjun. Margt bendir einmitt til þess að uppreisnin hafi komið forsvarsmönnum PLO jafnmikið á óvart og ísraelskum stjórnvöldum. Að henni stóðu án efa ungir og reiðir Palestínumenn sem hvorki gátu þraukað lengur né sætt sig við auma stöðu, sáu ekki fram á stuðing neins staðar og vildu ekki sæta því hlutskipti sem næsta kynslóð á undan hafði látið sig hafa. Þeim fannst óhugsandi annað en grípa til einhverra ráða sem vektu athygli á málstað þeirra. PLO-forustan brá hins vegar við skjótt og hefur tekið síaukinn þátt í að skipuleggja uppreisnina. Einnig hefur PLO skipulagt starf ákveðinna óeirðanefnda á hernámssvæðunum og veitt fjölskyldum látinna fjárhagsaðstoð. Allir vita að Ísraelar hafa ekki megnað að kveða niður
uppreisnina og þótt kyrrara sé nú er langt frá því að allt sé með sama hætti og var og verður sennilega aldrei aftur.
    Þó að allt sé á huldu um hvernig niðurstöður Alsírfundarins muni beinlínis snerta íbúa Vesturbakkans og Gaza er þó á hreinu að meiri hluti Palestínumanna þar fylkir sér um Arafat. Og hann hefur, að sinni að minnsta kosti, fengið blessun allra þjóða Arababandalagsins. Sá árangur skyldi ekki vanmetinn, en hversu raunverulegur hann verður þegar á herðir á vitanlega eftir að koma í ljós.



Fylgiskjal VII.


Ályktun öryggisráðsins nr. 338 frá 22. október 1973.



Öryggisráðið:
1.      heitir á alla aðila að yfirstandandi vopnaskiptum að hætta allri skothríð og binda enda á allar hernaðaraðgerðir þegar í stað, eigi síðar en 12 klukkustundum eftir samþykkt þessarar ályktunar, á þeim vígstöðvum sem þeir nú ráða yfir;
2.      heitir á alla deiluaðila að hefja strax eftir gildistöku vopnahlésins framkvæmd ályktunar öryggisráðsins nr. 242 (frá árinu 1967) í öllum atriðum;
3.      ákveður að strax, og meðan á vopnahlénu stendur, skuli hefjast samningaviðræður milli deiluaðila með viðeigandi hætti með það að markmiði að koma á réttlátum og varanlegum friði í Mið-Austurlöndum.
    Samþykkt á 1747. fundi með 14 atkvæðum gegn engu.

    Ályktun 242 (frá árinu 1967), borin fram af Stóra-Bretlandi, S/8247, samþykkt einróma í ráðinu 22. nóvember 1967 á 1382. fundi þess.

Öryggisráðið:
lýsir yfir áframhaldandi áhyggjum sínum af alvarlegri stöðu mála í Mið-Austurlöndum;
leggur áherslu á ólögmæti landvinninga með stríði og þörfina á því að vinna að réttlátum og varanlegum friði þar sem öll ríki á svæðinu geti búið við öryggi;
leggur enn fremur áherslu á að öll aðildarríki hafi með samþykki sínu á
stofnsamningi Sameinuðu þjóðanna skuldbundið sig til að hlíta 2. gr. samningsins.
1.     Lýsir því yfir að efndir á grundvallaratriðum stofnsamnings krefjist þess að komið verði á réttlátum og varanlegum friði í Mið-Austurlöndum þar sem framfylgt verði báðum eftirfarandi grundvallaratriðum:
. a.     að ísraelskar hersveitir verði fluttar brott af þeim svæðum sem hertekin voru í undangengnum átökum,
. b.     að öllum ófriði verði hætt og að virt verði og viðurkennd sjálfstjórnarréttur, landamæri og pólitískt sjálfstæði allra ríkja á svæðinu og réttur þeirra til að búa í friði innan öruggra og viðurkenndra landamæra, óhultir fyrir hótunum um ofbeldi og ofbeldisverkum.
2.     Lýsir enn fremur yfir nauðsyn þess:
. a.     að tryggðar verði frjálsar siglingar um alþjóðasiglingarleiðir á svæðinu,
. b.     að réttmæt lausn verði fundin á flóttamannavandanum,
. c.     að tryggð verði landfræðileg friðhelgi og pólitískt sjálfstæði sérhvers ríkis á svæðinu með aðgerðum sem m.a. fælu í sér myndun hlutlausra belta.
3.     Felur framkvæmdarstjóra að tilnefna sérstakan fulltrúa er fari til Mið-Austurlanda til að koma á sambandi við þau ríki sem hlut eiga að máli til að stuðla að því að komið verði á sáttum og til að aðstoða við tilraunir til að ná fram friðsamlegri og viðurkenndri lausn í samræmi við ákvæði og grundvallaratriði þessarar ályktunar.
4.     Felur framkvæmdarstjóra að skila skýrslu til öryggisráðsins um árangur tilrauna hins sérstaka fulltrúa eins fljótt og unnt er.

Arafat ítrekar samþykki PLO á ályktunum nr. 242 og 338.


(Úr Palestinian News, Jerúsalem, 37. tbl. maí 1988.)



    Formaður PLO, Jassir Arafat, hélt ræðu á leiðtogafundi Einingarsamtaka Afríku (OAU) í Addis Ababa í Eþíópíu þar sem hann lýsti hugmyndum PLO um að binda enda á átök araba og Ísraelsmanna og koma á friði í Mið-Austurlöndum.
    Hann minntist á að hann hefði við nokkur fyrri tækifæri sett fram hugmyndir PLO um það að hvernig hægt væri að koma á friði í Palestínu. „Við teljum að besta leiðin til að ná hinum langþráða friði sé að Sameinuðu
þjóðirnar kalli saman ráðstefnu fastafulltrúa öryggisráðsins ásamt þeim þjóðum sem hlut eiga að átökunum í Mið-Austurlöndum, þar á meðal PLO, sem er eini lögmæti fulltrúi palestínsku þjóðarinnar, á jafnræðisgrundvelli.“
    „Á þessum stað,„ sagði hann enn fremur „þar sem framkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna heyrir til mín, ítreka ég fylgi okkar við alþjóðalög og viðurkenningu okkar á öllum ályktunum Sameinuðu þjóðanna (sem varða málefni Palestínu) þar á meðal ályktanir nr. 242 og 338 sem grundvöll fyrir slíkri ráðstefnu.“
    Hann kallaði síðan á „vernd til handa palestínsku þjóðinni sem veitt yrði af alþjóðlegum hersveitum eða eftirlitssveitum sem undanfari að endalokum hernámsins eða að sett yrði upp tímabundin alþjóðleg umboðsstjórn þar til komið yrði á fót ríki Palestínu.“
    Arafat lagði áherslu á þá stefnu PLO í málefnum Afríku að styðja „þjóðir sem berjast fyrir frelsi, sjálfstæði og sjálfstjórn“.



Fylgiskjal VIII.


Arafat ávarpar Mannréttindanefndina.


(Úr Palestinian News, Jerúsalem, 35. tbl. febrúar 1988.)



    Mannréttindanefndin hélt 44. fund sinn í Genf til að ræða meðal annarra mála „spurninguna um brot gegn mannréttindum á landsvæðum araba, þar á meðal í Palestínu“.
    Í ræðu sem Arafat hélt á fundinum 19. febrúar lýsti hann virðingu sinni og þakklæti fyrir störf nefndarinnar og lagði síðan áherslu á það hversu þýðingarmikið málefni Palestínu væri fyrir frið og öryggi í Mið-Austurlöndum. Hann minntist enn fremur á þvermóðskulega neitun Bandaríkjanna að viðurkenna grundvallarstaðreyndir vandans og þá hvatningu sem það væri Ísraelsstjórn að viðhalda og efla „stálhnefastefnu“ ísraelsku stjórnarinnar.
    Til þess að sporna við hinni hrottalegu kúgun sem nú viðgengst og gegn þeim stuðningi, sem hún nýtur frá Bandaríkjamönnum, beindi hann til allra „réttlætis-, frelsis- og friðarunnandi“ fólks og aðila í heiminum að tryggja alþjóðlega vernd fyrir óvopnaða Palestínumenn sem væru fórnarlömb hryðjuverka og kúgunar sem bryti gegn öllum alþjóðalögum og sáttmálum. Ábyrgð á slíkri
vernd ætti að vera í höndum alþjóðlegra sveita af einhverju tagi og mundi þetta hjálpa Palestínumönnum að ná fram rétti sínum til sjálfsákvörðunar og eigin ríkis þar sem Jerúsalem væri höfuðborg.
    Hann ítrekaði þá ósk landa sinna að friði yrði komið á á svæðinu og nauðsyn þess að haldin yrði alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku hinna fimm föstu aðildarríkja öryggisráðsins og allra aðila sem hlut eiga að máli á jafnræðisgrundvelli, þeirra á meðal PLO. Þessi ráðstefna skyldi gera kröfu um lögmætan rétt Palestínumanna og byggja á ályktunum Sameinuðu þjóðanna um málið, þar á meðal ályktunum nr. 242 og 338.
    Hann ræddi síðan um hin miklu áhrif sem uppreisn fólksins og hinar fasisku hernaðarráðstafanir, sem gerðar hefðu verið til að bæla hana niður, hefðu haft um heim allan með þeim afleiðingum að yfir stjórn Ísraels hefði rignt fordæmingum og afneitunum. Í nafni þjóðar sinnar og framkvæmdanefndar PLO þakkaði hann öllum sem sýnt hefðu stuðning við andspyrnu Palestínumanna og nefndi sérstaklega gyðinga í Ísrael og úr samfélögum gyðinga um heim allan sem hefðu mælt gegn hinum hrottafengnu aðferðum Ísraelsmanna sem fælust í „járnhæls- og beinbrotastefnu“ þeirra.



Fylgiskjal IX.


Palestínumenn drepnir af hernámssveitum Ísraelsmanna,


landnemum og óbreyttum borgurum í uppreisninni.


(8. desember 1987 til 27. september 1988.)



Gagnaverkefni um mannréttindi Palestínumanna.
Alþjóðaskrifstofan Chicago.
Heimildarmaður: Louise Cainkar.

Heildarfjöldi fallinna til þessa er 374. Af völdum skotsára hafa fallið 248 manns. Af öðrum völdum hafa fallið 126 manns (33 vegna barsmíða, raflosts og grjótkasts, 63 af völdum táragass og 30 hafa fallið við grunsamlegar aðstæður eða vegna óbeinnar ábyrgðar yfirvalda).

— REPRÓ Í GUTENBERG —





Fylgiskjal X.


Bréf Félagsins Ísland-Palestína til alþingismanna.


(28. sept. 1988.)



    Þótt efnahagsvandi þjóðarinnar sé mikill og alþingismenn séu að sjálfsögðu önnum kafnir við að finna lausn á þeim vandamálum, sem hrjá okkar litlu þjóð, megum við ekki gleyma skyldu okkar gagnvart bræðrum og systrum okkar sem búa við mun erfiðari aðstæður en við.
    Íslendingar hafa nú sýnt Palestínuþjóðinni tómlæti í 41 ár eða frá því Síonistasamtök gyðinga fengu að stofna ríki í Palestínu og Palestínumenn urðu að landlausum flóttamönnum. Atkvæðagreiðslur íslenskra stjórnvalda um mál Palestínuþjóðarinnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru talandi vitni um þetta tómlæti. Hve lengi eigum við Íslendingar að loka augunum fyrir tilveru þessarar þjóðar og fyrir því himinhrópandi misrétti sem hún hefur verið og er enn beitt á þessari stundu?
    Palestínumenn leggja áherslu á að þeir vilja eiga góð samskipti við allar þjóðir og bíða þess, einmitt nú á örlagatímum, að Íslendingar svo og aðrar lýðræðisþjóðir veiti þeim marktækan stuðning svo þeir geti loks náð því sem Sameinuðu þjóðirnar ætluðu þeim árið 1947, m.a. réttinum til að lifa sem frjáls þjóð í sínu eigin landi.
    Félagið Ísland-Palestína fer þess á leit við hvern og einn alþingismann að hann beiti sér persónulega fyrir því
    að ríkisstjórn Íslands styðji viðleitni Palestínuþjóðarinnar til að efna sjálfsákvörðunarrétt sinn í reynd, m.a. tilraunir Palestínumanna til að byggja upp eigin stjórnsýslu á herteknu svæðunum, efla eigin iðnað og landbúnað, byggja upp menntakerfi sitt og þróa frjáls viðskipti við útlönd,
    að Alþingi Íslendinga heiti því að Ísland muni viðurkenna sjálfstæðisyfirlýsingu Palestínuríkis á herteknu svæðunum við hlið Ísraelsríkis, ef slíkt kæmi fram, svo og viðurkenni bráðabirgðaríkisstjórn Palestínuþjóðarinnar sem er í burðarliðnum,
    að Ísland beiti sér með virkum hætti fyrir því að alþjóðleg friðarráðstefna um málefni Mið-Austurlanda með þátttöku allra deiluaðila, þar með talinna Ísraels og Frelsissamtaka Palestínumanna á jafnréttisgrundvelli, og með þátttöku fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, verði haldin sem fyrst og að Ísland bjóðist til að hýsa þessa ráðstefnu.
    Félagið okkar er hlynnt pólitískri og friðsamlegri lausn Palestínumálsins sem felur í sér sambúð beggja þjóðanna, sem búa í Landinu helga, annaðhvort í tveim aðskildum ríkjum eða í einu ríki eftir því sem deiluaðilunum semur um. Við styðjum heilshugar viðleitni aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Pérez de Cuellar, um að finna viðunandi og réttlátar lausnir á deilu Ísraela og Palestínumanna. Við væntum þess að varanlegur friður og gagnkvæm viðurkenning Ísraela og Palestínumanna verði helsti árangur alþjóðlegrar friðarráðstefnu um Austurlönd nær sem stefnt er að. Það er þó brýnt að lýðræðisþjóðirnar leggi hart að stjórn Ísraelsríkis að hún virði alþjóðalög, mannréttindi og velji leið skynseminnar meðan Palestínumenn rétta fram sáttahönd.
    Við vonum að geta treyst á að þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi Íslendinga geti tekið höndum saman um að styðja baráttu Palestínuþjóðarinnar fyrir réttlæti, frelsi og friði. Slíkt er frumforsenda fyrir farsælli þróun í Austurlöndum nær, ekki síst fyrir Ísraelsmenn sjálfa.

Virðingarfyllst,


Elías Davíðsson


f.h. stjórnar Félagsins Ísland-Palestína.