Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 70 . mál.


Sþ.

118. Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðna Ágústssonar um örorkubætur og örorkumat.

    Fyrirspurnin var send Tryggingastofnun ríkisins og eru meðfylgjandi svör byggð á greinargerðum frá sjúkratryggingadeild TR, lífeyristryggingadeild TR, endurskoðunardeild TR og tryggingayfirlækni.

1. Hversu margir einstaklingar fá greiddar örorkubætur?



    Hjá slysatryggingadeild eru eingöngu tryggðir launþegar við vinnu, nemendur við verklegt iðnnám, stjórnendur aflvéla og ökutækja, útgerðarmenn, sem sjálfir eru skipverjar, björgunarmenn, íþróttafólk, atvinnurekendur við eigin atvinnurekstur og þeir sem hafa tryggt sig við heimilisstörf. Örorkubætur slysatrygginga eru frábrugðnar örorkubótum lífeyristrygginga að því leyti að 15% örorka nægir til greiðslu örorkubóta og bætur vegna örorku, sem metin er á bilinu 15–49%, eru greiddar út í einu lagi í eitt skipti fyrir öll. Enn fremur eru bætur vegna örorku, sem metin er á bilinu 50–74%, reiknaðar út öðruvísi en gildir um örorkubætur lífeyristrygginga.
    Í desember 1987 var fjöldi örorkulífeyrisþega þessi:

    Örorkulífeyrisþegar, 75–100% öryrkjar ....................    3.824
    Örorkustyrkþegar, 50–74% öryrkjar ........................    2.343
    Örorkulífeyrisþegar vegna vinnuslysa, 50–100% öryrkjar ...    140
                   —-
         Samtals     6.307
                  —–

    Eftir stendur að gera grein fyrir þeim fjölda sem metinn hefur verið til 15–49% slysaörorku. Er það gert í tveimur eftirfarandi töflum sem sýna fjölda einstaklinga nokkur ár aftur í tímann.

Fjöldi einstaklinga sem fengið hafa eingreiðslu hjá slysatryggingadeild TR


(15–49% örorka) árin 1978–1988.



         Ár    Fjöldi    Fjöldi    Hlutfall eingr.
            slysa    eingr.    af fjölda slysa (%)
         —     —     —     —
        1978    1631    58    3,6
        1979    1635    66    4,0
        1980    1676    73    4,4
        1981    1609    45    2,8
        1982    1445    80    5,5
        1983    1765    81    4,6
        1984    1641    80    4,9
        1985    1795    100    5,6
        1986    1904    90    4,7
        1987    2177    155    7,1
        (1.1.–4.11.) 1988    1928    150    7,8

1

Fjöldi einstaklinga sem metinn hefur verið til 15–49% örorku


á árunum 1983–1988, skipt eftir tryggingaflokkum.



                             (1.1–4.11.)
         1983    1984    1985    1986    1987    1988
              —     —     —     —     —     —
Sjálfstæðir atvinnurekendur...         2    0    5    2    2
Stjórnendur ökutækja .........         14    13    30    33    57
Íþróttamenn ..................         1    0    0    1    2
Launþegar í landi ............         47    39    44    37    70
Sjómenn ......................         13    22    16    12    16
Bændur .......................         2    5    5    4    8
Heimilisstörf ................         2    1    0    1    0
              —     —     —     —     —     —
    Samtals    81    80    100    90    155    150

2. Hvernig fer örorkumat fram: a. Læknisfræðilegt mat?


b. Er tekið tillit til félagslegra aðstæðna einstaklinga þegar örorka er metin?



a. Læknisfræðilegt mat:

    Samkvæmt upplýsingum tryggingayfirlæknis er örorkumat alltaf læknisfræðilegt þar sem lagt er til grundvallar starfsorkutapinu sjúkdómar, andlegir og/eða líkamlegir, eða afleiðingar slysa.
    Örorkumat er unnið af læknum Tryggingastofnunar ríkisins. Það er unnið eftir vottorðum heilsugæslulækna, sérfræðinga og sjúkraskýrslum, svo og eigin skoðun tryggingalækna. Þegar slíkt örorkumat hefur verið unnið er það yfirfarið af tryggingayfirlækni eða aðstoðartryggingayfirlækni. Þyki ástæða til nánari skoðunar er aflað frekari gagna og oftast er þá viðkomandi mál lagt fyrir svokallaðan örorkumatsfund sem haldinn er einu sinni í viku. Þann fund sitja allir læknar Tryggingastofnunar ríkisins og félagsmálafulltrúi. Ef óskað er endurskoðunar eftir úrskurð eru mál ætíð tekin upp eins skjótt og auðið er þegar ný gögn hafa borist í viðkomandi máli.
    Örorkugreinargerð eða örorkumat skiptist í fjóra meginþætti:
1.     Örorka slysatrygginga sem er hreint læknisfræðilegt mat.
2.     Örorka lífeyristrygginga þar sem auk hins læknisfræðilega grundvallar matsins er tekið tillit til félagslegra aðstæðna svo sem fjárhagsvanda, atvinnuástands í héraði og fleiri þátta.
3.     Svokölluð barnaörorka þar sem einkum eru lögð til grundvallar aukin útgjöld og auka fyrirhöfn forsjármanna barna miðað við heilbrigð börn á sama aldri.
4.     Örorkumat fyrir lífeyrissjóði. Í þessari matsgerð er lagt til grundvallar tímabundið eða varanlegt sjúkdómsástand til þeirrar vinnu sem umsækjandi hafði með höndum þegar hann öðlaðist rétt til greiðslu bóta úr lífeyrissjóði.
     Nánar um örorkumat slysatrygginga: Örorkumat slysastrygginga er hreint læknisfræðilegt mat. Hér er lagt til grundvallar það starfsorkutap sem viðkomandi hefur orðið fyrir vegna afleiðinga slyss. Sem dæmi má nefna að maður sem missir annað augað mundi hljóta 25% örorku. Hvorki er tekið tillit til þess hvaða störf mundu standa manninum til boða né hverjar efnalegar aðstæður hans eru. Í örorkumati slysatrygginga er m.a. stuðst við ýmis erlend alþjóðleg fræðirit, svo sem rit sænska læknisins John Nordin og hinar nákvæmu leiðbeiningarreglur sem ameríska læknafélagið (American Medical Association) hefur gefið út, Evaluation of Permanent Impairment.
     Nánar um örorkumat lífeyristrygginga: Örorkumatið er með verulega öðrum hætti en örorkumat slysatrygginga þar sem það er svokallað blandað mat. Það þýðir að grunnurinn undir örorkumatinu er ávallt læknisfræðilegur en tekið er
tillit til félagslegra aðstæðna. Þannig er lagt til grundvallar læknisvottorð, skoðun tryggingalæknis og félagsleg staða einstaklings. Einnig liggja iðulega fyrir sjúkraskýrslur viðkomandi sjúklings og ýmsar aðrar faglegar upplýsingar. Sem dæmi mætti nefna mann sem vegna bakveiki væri metinn til 65% örorku þar sem hann fengi starf við sitt hæfi. Væri svo ástatt í heimabyggð hans að ekkert starf væri fyrir hendi við hans hæfi yrði örorkan metin meir en 75% enda verður missir hæfni til tekjuöflunar ávallt háð því um hvaða störf er að ræða.
     Nánar um barnaörorku: Heimilt er að meta barn til örorku, stigs I, sem samsvarar 25% af lífeyri, stigs II, sem samsvarar 50% af lífeyri, og stigs III, sem samsvarar 75% af lífeyri. Örorkumat barns er að því leyti ólíkt örorkumati lífeyristrygginga að hér er fyrst og fremst tekið tillit til þeirrar auknu umönnunar eða aukakostnaðar sem foreldrar (forsjármenn) verða fyrir og er þá tekið mið af heilbrigðu barni á sama aldri. Gott dæmi um börn sem þurfa mikla umönnun og valda aukakostnaði eru heilasköðuð börn.
     Nánar um örorkumat fyrir lífeyrissjóði: Örorkumat fyrir lífeyrissjóð er að því leyti frábrugðið örorkumati lífeyristrygginga að það tekur fyrst og fremst mið af orkuskerðingu með tilliti til ákveðins starfs, þess starfs sem viðkomandi hefur haft með höndum er hann öðlaðist rétt til bótagreiðslu úr sínum lífeyrissjóði. Þannig getur maður sem er 50% öryrki almennt (fyrir lífeyristryggingar) t.d. vegna bakveiki verið óhæfur til þess starfs sem hann getur fengið greitt fyrir úr lífeyrissjóði. Hér nægir að benda á mann sem er bakveikur, hann getur að jafnaði ekki stundað t.d. sjómennsku eða erfið bústörf.

b. Er tekið tillit til félagslegra aðstæðna einstaklinga þegar örorka er metin?
    Eins og fram kemur hér að framan er örorkumat slysatrygginga eingöngu læknisfræðilegt mat. Örorkumat lífeyristrygginga er hins vegar blandað. Grunnurinn undir örorkumatinu er ávallt læknisfræðilegur en tekið er tillit til félagslegra aðstæðna og vinnugetu.

3. Hversu margir einstaklingar eru metnir 75% öryrkjar?



    Véltæk skrá yfir örorkumat 50% og hærra er uppfærð á þriggja mánaða fresti. Sú venja hefur skapast að aðeins einu sinni á ári (í ársbyrjun) er fellt út af þessari skrá vegna eftirtalinn orsaka:
    Öryrki hefur látist á árinu.
    Öryrki hefur náð 67 ára aldri.
    Öryrki hefur ekki sinnt því að koma í endurskoðun.
    Við síðustu uppfærslu á skránni í september sl. voru þar 3177 karlar og 4550 konur. Þar af voru 2151 karl og 2832 konur með örorkumat meira en 75%.
    Af reynslu liðinna ára má með góðri nákvæmni áætla að tölur þessar séu 9% hærri en fjöldi þeirra örorkumata sem telja má í gildi vegna framangreindra ástæðna.
    Ekki eru til upplýsingar um fjölda slysaöryrkja sem metnir eru til 75% örorku eða meira. Hins vegar kemur fram í tölum lífeyrisdeildar, sem annast útborganir fyrir hönd slysatryggingadeildar í þessum málum, að fjöldi slysaöryrkja, sem metnir eru til 50–100% örorku, er 140 í desember 1987.

4. Hversu háar fjárhæðir eru greiddar öryrkjum, þar af til þeirra


sem hafa 75% örorkumat?



    Samkvæmt reikningum lífeyrisdeildar 1987 námu örorkubætur hennar eftirfarandi upphæðum:

    Örorkulífeyrir 75–100% öryrkja ...............         356.642.178
    Tekjutrygging vegna örorkulífeyris ............         460.485.064
    Uppbót ........................................         67.220.254
    Vasapeningar ..................................         27.348.274
    Heimilisuppbót ................................         50.857.619
    Bensínstyrkur .................................         17.122.160
    Sérstök heimilisuppbót ........................         5.552.376
    Örorkustyrkur 50–74% öryrkja .................         138.559.852
    Barnaörorkustyrkur ............................         25.234.670
    Bensínstyrkur örorkustyrkþega .................         4.297.445
    Vinnusamningur öryrkja ........................         875.322
    Barnalífeyrir .................................         72.998.813
               —————-
         Samtals         1.227.194.027
               —————-

5. Hversu margir einstaklingar, sem fá greiddar örorkubætur,


hafa meira en meðaltekjur:


a. Af þeim sem eru metnir 75% öryrkjar?


b. Af þeim öðrum sem fá greiddar örorkubætur?




    Hjá Tryggingastofnun ríkisins eru aðeins upplýsingar um þær tekjur sem lagðar eru til grundvallar við útreikning tekjutryggingar. Enginn sem fær fulla tekjutryggingu hefur meðaltekjur.
    Örorkubætur slysatrygginga eru samkvæmt lögum óháðar fjárhagsástæðum þeirra sem tryggðir eru. Því hefur slysatryggingadeild TR engar upplýsingar um tekjur slysaöryrkja.