Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 131 . mál.


Sþ.

138. Tillaga til þingsályktunar



um úrbætur í atvinnumálum kvenna.

Flm.: Unnur Kristjánsdóttir, Ólöf Hildur Jónsdóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Guðrún Helgadóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa fjögurra manna nefnd til að gera tillögur til úrbóta á atvinnumöguleikum og starfsskilyrðum þeirra kvenna sem vinna við iðnað, landbúnað og sjávarútveg á landsbyggðinni.
    Félagsmálaráðherra skipi formann nefndarinnar en sjávarútvegsráðherra, iðnaðarráðherra og landbúnaðarráðherra skipi einn nefndarmann hver.
    Nefndin starfi á vegum félagsmálaráðuneytis og skal skila áliti eigi síðar en 1. júní nk.

Greinargerð.


    Sú fólksfækkun, sem hefur orðið víða á landsbyggðinni, er fyrst og fremst í sveitum og þéttbýlisstöðum með einhæft atvinnulíf. Á mörgum svæðum með fjölbreytt atvinnulíf og hátt þjónustustig hefur íbúum hins vegar fjölgað.
    Athyglisvert er að þegar bornir eru saman þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni kemur í ljós að fólksfækkun er ekki síður á stöðum þar sem meðallaun eru mjög há, enda oft um að ræða bæi þar sem sjávarútvegur er aðalatvinnuvegurinn.
    Alkunna er að nær eingöngu konur vinna einhæf störf ófaglærðs verkafólks í frumvinnslu á Íslandi. Í þeim byggðarlögum þar sem þjónustustig er lágt eru möguleikar kvenna til atvinnu því nær eingöngu innan frumvinnslugreina.
    Ljóst er að tæknivæðing í frumvinnslugreinum eykst mikið á næstu árum. Má þar benda á að innan tíðar verður notkun tölva orðin ríkur þáttur í störfum innan iðnaðar og fiskvinnslu. Í landbúnaði er líklegt að auk vöruþróunar á hefðbundnum framleiðsluvörum komi nýjar framleiðslugreinar, svo sem silungseldi. Þessi aukna fjölbreytni mun krefjast þess að starfsmenn í þessum greinum þurfi fræðslu og hvatningu til að takast á við ný verkefni.
    Á síðustu árum hefur verið boðið upp á ýmiss konar aðstoð og fræðslu fyrir konur í því skyni að auka atvinnulegt sjálfstæði þeirra. Þá hefur einnig verið gert átak í starfsfræðslu fyrir ófaglært verkafólk í fiskvinnslu og iðnaði, en lítið hefur verið gert til að auka möguleika kvenna til að öðlast starfsframa innan frumvinnslugreina og til að auka þátttöku þeirra í þjónustustörfum sem tengjast þessum starfsgreinum.
    Áhugi kvenna á að bæta atvinnustöðu sína er mikill. Árangur af námskeiðum fyrir konur, t.d. í stofnun og stjórnun fyrirtækja, hefur oft verið ótrúlegur. Með þessari tillögu er bent á leið til að auka fjölbreytni atvinnumöguleika þeirra kvenna sem hafa litla nú.