Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 158 . mál.


Nd.

169. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 19. gr. laganna:
a.     2. málsl. 2. tölul. 3. mgr. orðast svo: Sama á við um lán sem tekin eru erlendis vegna kaupa eða reksturs á kaupskipum og flugvélum sem notaðar eru í atvinnuskyni.
b.     Orðin „eða lengingu á lánstíma“ í 3. tölul. 3. mgr. falla niður.
c.     Við 3. mgr. bætist nýr töluliður, 4. tölul., svohljóðandi: Lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina.

2. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 1988“ í 4. mgr. 22. gr. laganna kemur: 31. desember 1989.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 4. mgr. 22. gr. laga nr. 10/1988 falla ákvæði V. kafla þeirra úr gildi um næstu áramót. Þessi kafli laganna fjallar um gjald af erlendum lánum, leigusamningum o.fl. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1989 er gert ráð fyrir að framhald verði á gjaldtöku þessari á næsta ári og er reiknað með að tekjur ríkissjóðs af henni verði 200 m.kr. Af þessum sökum er frumvarp þetta lagt fram en samkvæmt því fellur V. kafli laga nr. 10/1988 ekki úr gildi fyrr en 31. desember 1989, sbr. 2. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er í a-lið lagt til að heimild til þess að undanþiggja lánssamninga vegna kaupa á atvinnuflugvélum og kaupskipum gjaldskyldu verði gerð ótvíræð.
    Í b-lið er í öðru lagi lagt til að heimild til þess að undanþiggja skuldbreytingarlán gjaldskyldu verði gerð rýmri en hún nú er með því að fella niður skilyrði um að nýja lánið sé ekki til lengri tíma en hið eldra.
    Í c-lið er loks lagt til að heimilt verði að undanþiggja gjaldtöku lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða stjórnvalda í þágu útflutningsgreina.

Um 2.–3. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.