Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 163 . mál.


Nd.

176. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 56/1972, um lögreglumenn, með síðari breytingum.

Flm.: Árni Gunnarsson, Friðjón Þórðarson, Kristín Halldórsdóttir,


Geir Gunnarsson, Ingi Björn Albertsson.



1. gr.

    Í stað 1. mgr. 5. gr. laganna koma þrjár málsgreinar svohljóðandi:
    Lögreglumenn, hvort sem þeir eru í föstu starfi eða kvaddir lögreglunni til aðstoðar, eru opinberir starfsmenn og njóta sömu verndar og aðstöðu og þeir menn er gegna borgaralegri skyldu.
    Engan má ráða eða skipa lögreglumann eftir 1. janúar 1990 án þess að hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Heimilt er að lausráða nema til reynslu til lögreglustarfa meðan á námi þeirra stendur í Lögregluskóla ríkisins. Reynsluráðning skal aldrei standa lengur en tvö ár. Heimilt er að ráða til lögreglustarfa menn án prófs frá Lögregluskóla ríkisins til afleysinga í sumarleyfum á tímabilinu 15. maí til 30. september ár hvert. Ákvæði varðandi próf frá Lögregluskóla ríkisins ná ekki til skipshafna á varðskipum, tollvarða, héraðslögreglumanna eða varalögreglumanna; þó skulu þeir sem lokið hafa prófi frá Lögregluskóla ríkisins ganga fyrir um þessi störf þar sem það á við.
    Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni lögreglustörfum. Brot gegn ákvæði þessu varðar sektum nema þyngri refsing liggi við að lögum og skal með mál út af brotum þessum fara að hætti opinberra mála.

2. gr.

    2. mgr., er verður 4. mgr., 5. gr. laganna orðast svo:
    Ríkissjóður skal bæta lögreglumönnum meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 56/1972, um lögreglumenn, er flutt til að ná fram tveimur mikilvægum breytingum.
     Í fyrsta lagi að tryggja það að eftir 1. janúar 1990 verði enginn ráðinn eða skipaður lögreglumaður nema hann hafi áður lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Þó er heimilt að lausráða menn til reynslu til lögreglustarfa meðan á námi þeirra stendur. Þessi breyting kemur heldur ekki í veg fyrir að unnt sé að ráða menn án prófs frá Lögregluskólanum til afleysinga í sumarleyfum á tímabilinu 15. maí til 30. september ár hvert. Þá er ekki gert ráð fyrir að þetta ákvæði nái til skipshafna á varðskipum, tollvarða, héraðslögreglumanna né varalögreglumanna.
    Með þessari breytingu vilja flutningsmenn frumvarpsins að það verði gert að fastri reglu að lögreglumenn hefji starfsferil sinn með því að fá grunnmenntun í Lögregluskólanum. Þessu frumvarpi er ætlað að tryggja menntun lögreglumanna. Með því yrði ráðin bót á óviðunandi ástandi sem nú ríkir. Talsverður hluti af lögregluliði í stærstu lögregluumdæmum er án starfsmenntunar og lætur nærri að um einn þriðji hluti lögreglumanna, sem nú sinna útköllum í Reykjavík, sé án þessarar menntunar. Hlutfallið er enn lakara á Keflavíkurflugvelli.
    Nokkur hópur þeirra manna, sem starfa í Reykjavík, hefur aðeins notið kennslu á fárra daga námskeiði sem nægir ekki til annars en að kynna þeim um hvað starfið snýst. Hætt er við að þessir menn hafi litla eða enga þekkingu á þeim lögum og reglum sem þeir eiga að starfa eftir né heldur undirstöðuþekkingu í sálarfræði sem löggæslumönnum er nauðsynleg. Líkur eru á því að störf þeirra verði ófullnægjandi og umkvörtunarefni.
    Það er þó lakara að þeir menn, sem ekki hafa lokið námi frá Lögregluskólanum, hafa ekki þá þekkingu á lögum sem þarf til að tryggja grundvallarréttindi borgaranna, t.d. réttindi handtekinna manna. Aukinn fjöldi kærumála á hendur lögreglumönnum rökstyður þetta.
    Þetta ástand getur orðið til þess að hinn almenni borgari glatar því trausti sem hann hefur haft á lögreglunni og réttarríkinu. Það er skylda ríkisvaldsins á hverjum tíma að stuðla að því að í landinu starfi vel menntað og vel þjálfað lögreglulið. Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar að undanförnu til að efla starf Lögregluskóla Íslands og er það samdóma álit sérfróðra manna að skólinn geti nú veitt góða og nauðsynlega menntun sem geri lögreglumenn mun hæfari til að takast á við stöðugt flóknari og erfiðari verkefni í síbreytilegu þjóðfélagi.
     Í öðru lagi gerir frumvarp þetta ráð fyrir breytingum á bótaskyldu ríkissjóðs gagnvart lögreglumönnum sem slasast eða verða fyrir öðru tjóni vegna starfs síns. Á undanförnum árum hefur fjölgað þeim tilvikum að lögreglumenn hafa orðið fyrir alvarlegum áverkum vegna starfa sinna. Má þar nefna barsmíðar, spörk og hvers konar líkamsmeiðingar. Ofbeldi virðist fara vaxandi, svo og notkun ýmissa hættulegra vopna svo sem barefla og hnífa.
    Lögreglumenn, sem hafa orðið fyrir alvarlegum líkamsmeiðingum og hlotið örorku eða örkuml af, hafa orðið að sækja mál sín um skaðabætur á hendur þeim er meiðslunum hafa valdið. Málaferli hafa oft tekið langan tíma og oftar en ekki hefur niðurstaðan orðið sú að tjónvaldar hafa ekki reynst borgunarmenn. Þá fyrst kemur að bótaskyldu ríkissjóðs. Þetta hefur valdið mörgum lögreglumönnum miklum erfiðleikum, fjárhagstjóni og röskun á heimilishögum.
    Með þessu frumvarpi er ríkissjóði gert að bæta lögreglumönnum meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Ríkinu er þarna lögð sú skylda á herðar að bæta tjón samkvæmt mati og það getur síðan höfðað mál á hendur tjónvaldi.
    Nauðsynlegt er talið að skilgreina betur í lögunum ábyrgð ríkissjóðs, m.a. vegna dóma sem fallið hafa í skaðabótamálum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Fyrsta mgr. frumvarpsins er samhljóða 1. málsl. núverandi 1. mgr. 5. gr. laganna og 3. mgr. er samhljóða 2. og 3. málsl. Efnisbreyting frumvarpsins kemur því fram í 2. mgr. Þar verður sú breyting á frá núgildandi lögum að lögreglumenn verða ekki ráðnir til fastra starfa nema því aðeins að þeir hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins. Þó er gerð undantekning með sumarafleysingamenn sem ráðnir eru til starfa á tímabilinu 15. maí til 30. september. Þá ná þessi ákvæði ekki til starfsmanna á varðskipum, tollvarða, héraðslögreglumanna eða varalögreglumanna. Héraðslögreglumenn eru þeir sem hafa lögreglustarf að aukastarfi. Eingöngu er þörf fyrir héraðslögreglumenn utan Reykjavíkur þar sem jafnan starfa fáir lögreglumenn. Héraðslögreglumenn eru kallaðir til aðstoðar fullgildum lögreglumönnum við sérstakar aðstæður, svo sem vegna dansleikja um helgar og útihátíða á sumrin. Héraðslögreglumenn eiga að hafa lokið sérstöku námskeiði við Lögregluskólann.

Um 2. gr.


    Hér er lögð til sú breyting frá núgildandi lögum að réttur lögreglumanna til bóta úr ríkissjóði vegna meiðsla eða tjóns, sem þeir verða fyrir vegna starfs síns, verður ótvíræður. Vegna túlkunar á greininni í núgildandi lögum hafa lögreglumenn orðið að stefna tjónvaldi fyrst, og ekki fyrr en dómur er fallinn í máli og í ljós hefur komið að greiðslugeta tjónvalds er engin kemur til kasta ríkissjóðs. Nauðsynlegt er að kveða fastar á um bótaskyldu ríkissjóðs.

Um 3. gr.


    Greinin skýrir sig sjálf.