Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 191 . mál.


Nd.

224. Frumvarp til laga



um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985.

Flm.: Ingi Björn Albertsson.



    

1. gr.

    Á eftir 2. mgr. 35. gr. laganna bætist ný málgrein svohljóðandi:
    Eigi almenningur kost á að taka þátt í beinni útvarpssendingu, svo sem í gegnum síma eða á annan sambærilegan hátt, skal hver og einn segja til nafns og bera ábyrgð á því sem hann segir. Stjórnandi slíkrar útsendingar skal enn fremur tryggja sér fyllri upplýsingar um sérhvern þátttakanda en ber ella sjálfur ábyrgð á framlagi hans takist ekki að hafa upp á honum. Skylt er stjórnanda útvarpsþáttar með samtöl við hlustendur, sem útvarpað er samtímis, að nota þar til gerðan útbúnað sem tefur útsendingu í stutta stund svo að unnt sé að koma í veg fyrir að útvarpað sé ærumeiðingum um nafngreinda menn eða óviðurkvæmilegum ummælum að mati stjórnanda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Það hefur mjög færst í vöxt að útvarpsstöðvar hafi í dagskrám sínum útvarpsþætti sem byggjast á símtölum við fólk úti í bæ í beinni útsendingu og hafa þessir þættir oft náð töluverðum vinsældum. Það er hins vegar áhyggjuefni að í slíkum þáttum er hætta á að viðmælendur, sem komnir eru í beina útsendingu og ná eyrum þúsunda manna, geri ekki grein fyrir sér og flytji ávirðingar og óviðurkvæmileg ummæli um nafngreint fólk án þess að nokkrum vörnum verði við komið.
    Eitt það dýrmætasta, sem hver einstaklingur á, er gott mannorð. Og það getur tekið drjúgt skeið á ævi hans að ávinna sér þann orðstír. Hins vegar tekur það óvandaðan mann ekki nema sekúndubrot að skemma mannorð annars manns
ef hann fær tækifæri til þess í útvarpi. Þess vegna á löggjafinn að gera það sem í hans valdi stendur til þess að vernda menn fyrir slíku. Það virðist sem svo að virðing fyrir mannorði og tilfinningum annarra fari þverrandi eftir því sem þjóðfélagið verður opnara og frjálslegra, og er það miður.
    Í þessu frumvarpi er lagt til að beinar útsendingar útvarps í gegnum síma eða á sambærilegan hátt séu háðar ákveðnum skilyrðum sem sett eru til þess að vernda mannorð og reyna að koma í veg fyrir að ærumeiðandi ummælum sé útvarpað yfir landslýð. Skilyrðin eru þau að stjórnanda útvarpsþáttar er skylt að fá uppgefið nafn viðmælanda og fyllri upplýsingar ef mögulegt er. Aðalatriðið er þó að skylda útvarpsstöðvar til þess að nota búnað er tefur útsendingar í örfáar sekúndur (delay system) þannig að hægt sé að koma í veg fyrir að mannskemmandi ummælum sé útvarpað. Það má geta þess að slíkur búnaður er víðast hvar notaður erlendis við útsendingar af þessu tagi. Fari hins vegar ærumeiðandi ummæli engu að síður „í loftið“ er, eftir frumvarpinu sá, er ummælin viðhafði, ábyrgur fyrir þeim, en náist ekki til hans einhverra hluta vegna þá er stjórnandi þáttarins ábyrgur.
    Þó að nú standi yfir endurskoðun útvarpslaga telur flutningsmaður málið það brýnt að það þoli enga bið.