Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 180 . mál.


Nd.

261. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr. í Nd., 15. des.)



1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verður 2. mgr., og orðast svo:
    Launamanni skv. 2. tölul. 4. gr. ber að tilkynna skattstjóra um áætlaðar tekjur sínar á staðgreiðsluári, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, fyrir 20. janúar ár hvert, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

2. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 11. gr. laganna:
a.     3. mgr. orðast svo:
.      Á skattkorti skulu, auk upplýsinga sem um getur í 1. og 2. mgr., koma fram upplýsingar um hlutfall persónuafsláttar. Ríkisskattstjóri skal auglýsa skatthlutfall og fjárhæð persónuafsláttar fyrir upphaf hvers staðgreiðsluárs, svo og ef breytingar verða á staðgreiðsluári. Ráðherra getur í reglugerð sett ákvæði um hlutfallslega skiptingu persónuafsláttar sem draga skal frá staðgreiðslu á hverju greiðslutímabili.
b.     Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
.      Ríkisskattstjóra er heimilt að ákveða að útgáfa skattkorta skv. 1. mgr. falli niður, enda gildi áður útgefin skattkort það ár sem skattkortaútgáfan fellur niður, þó ekki skattkort skv. 5. og 6. mgr. 12. gr. Þó skal gefa út skattkort til þeirra aðila er ekki hafa áður fengið skattkort en öðlast hafa rétt til þess.

3. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 12. gr. laganna:
a.     2. málsl. 5. mgr. fellur niður.
b.     Í stað „20%“ í 6. mgr. kemur: 50%.

4. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi:
    Skattstjóra er heimilt að ákveða að laun hvers almanaksmánaðar séu hærri en 1 / 12 hluti árlegs endurgjalds, enda liggi fyrir samþykkt greinargerð launamannsins.

5. gr.

    Í stað orðanna „innan tíu virkra daga frá tilkynningu“ í 4. mgr. 28. gr. laganna kemur: innan 15 daga frá og með dagsetningu tilkynningar.

6. gr.

    Síðari málsliður 6. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
    Innan 15 daga frá og með dagsetningu úrskurðar skattstjóra er heimilt að áfrýja mati hans til ríkisskattstjóra sem kveður upp endanlegan úrskurð.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Prentað upp.