Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 166 . mál.


Sþ.

285. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Friðriks Sophussonar um erlendar lántökur til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

1. Hvað hefur viðskiptaráðuneytið veitt heimild til mikillar erlendrar


lántöku til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja og stofnana


á yfirstandandi ári? Í svari óskast heimildir flokkaðar eftir atvinnugreinum,


fyrirtæki og stofnanir nefndar og hve mikil heimild var veitt


til hvers fyrirtækis og stofnunar.



    Á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 20. maí 1988 voru gefnar út heimildir til erlendrar lántöku að upphæð 964.900.000 kr. en ríkisstjórnin hafði samþykkt að heimila fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisiðnaði að taka erlend lán til fjárhagslegrar endurskipulagningar alls að upphæð einn milljarður króna.
    Aðrar lánsheimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar námu alls 4.657.914.000 kr., þannig að í heild voru gefnar út heimildir í þessu skyni að upphæð 5.622.814.000 kr. Þar af var gefin út heimild til Landsvirkjunar að upphæð 2.602.400.000 kr. en andvirði þess láns var nýtt til að greiða upp erlend lán að sömu fjárhæð.
    Að öðru leyti var skipting þessara lánsheimilda milli atvinnugreina þannig að til sjávarútvegsfyrirtækja námu heimildir alls 1.590.614.000 kr. Til iðnaðar-, verslunar- og þjónustufyrirtækja 1.224.800.000 kr. Til flugrekstrar 129.000.000 kr. og til fiskeldis 76.000.000 kr. Við skiptingu milli einstakra atvinnugreina ber að hafa í huga að mörg fyrirtæki fást við fjölþætta starfsemi og kunna því sum þeirra fyrirtækja, sem hér eru talin til iðnaðar-, verslunar- og þjónustustarfsemi, einnig að fást við útgerð og fiskvinnslu.
    Þá ber að vekja sérstaka athygli á því að ofangreindar tölur byggjast á þeim heimildum sem gefnar hafa verið út í ráðuneytinu en ekki er víst að þær hafi allar verið nýttar til erlendrar lántöku.
    Ekki er unnt að verða við þeirri ósk fyrirspyrjanda að nefna nöfn einstakra fyrirtækja eða lánsupphæðir til þeirra og er þar stuðst við þá venju sem ríkir um bankaleynd.

2. Á grundvelli hvaða samþykktar í ríkisstjórn hafa heimildirnar verið veittar?



    Eins og fyrr greinir voru heimilaðar erlendar lántökur á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 20. maí 1988 alls að upphæð 964.900.000 kr.
    Aðrar lánsheimildir voru gefnar út í viðskiptaráðuneytinu á grundvelli laga nr. 63 frá 31. maí 1979 og reglugerðar nr. 519 frá 14. desember 1979 og nr. 211 frá 29. apríl 1988, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála.
    Á þessu ári hafa alls verið gefnar út heimildir til erlendrar lántöku að upphæð 10.433.605.635 kr., en til samanburðar má geta þess að árið 1987 voru gefnar út heimildir fyrir 13.465.477.490 kr. Þar af námu skuldbreytingar vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar 6.816.869.806 kr.