Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 211 . mál.


Nd.

354. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 96/1987, um breytingu á lögum nr. 55 30. mars 1987, tollalögum.

Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar (PP, GGÞ, ÁrnG, RA, GHH, IBA).



1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III orðast svo:
    Tollur á vörum í tollskrárnúmerum 2001.1000–2005.9000 skal lækka í 20% 1. janúar 1990, 10% 1. janúar 1991 og falla niður 1. janúar 1992.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þegar síðustu breytingar voru gerðar á tollalögum var ráð fyrir því gert að landbúnaðarráðherra yrði veitt heimild til að leggja sérstakt jöfnunargjald á innflutt grænmeti til að viðhalda svipaðri samkeppnisaðstöðu innlendra grænmetisframleiðenda gagnvart innfluttu grænmeti og var fyrir tollalagabreytinguna.
    Gert var ráð fyrir að tollar á innflutt grænmeti lækkuðu um næstu áramót, 1988–1989, um 10%, úr 30% í 20%. Fyrrnefnd álagning jöfnunargjalds hefur hins vegar enn ekki komið til framkvæmda.
    Markaðsstaða innlendrar grænmetisframleiðslu versnaði verulega með álagningu söluskatts á innlent grænmeti, en jöfnunargjaldið átti m.a. að koma vegna söluskattsáhrifanna.
    Frumvarp þetta er flutt til að fresta um sinn þeim tollalækkunum sem áttu að koma til framkvæmda um næstu áramót. Komi tollalækkunin til framkvæmda getur það haft alvarleg áhrif á innlenda grænmetisframleiðslu en í þessari grein eru nú miklir erfiðleikar. Frestun tollalækkunarinnar er einnig til þess fallin að unnt reynist að huga nánar að stöðu greinarinnar.