Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 219 . mál.


Nd.

394. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Flm.: Albert Guðmundsson.



1. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna, sbr. 3. gr. l. nr. 14/1987 og 2. gr. l. nr. 92/1987, bætist nýr töluliður svohljóðandi:
4.     Tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr., þegar frá þeim hafa verið dregnar þær fjárhæðir sem um ræðir í 1.–2. tölul. þessa stafliðar, sem maður hefur aflað á síðustu tólf starfsmánuðum sínum áður en hann lætur af störfum fyrir aldurs sakir. Frádráttur þessi skal þó aldrei vera hærri en 2.500.000 kr. enda hafi viðkomandi náð 55 ára aldri eða öðlast rétt til eftirlauna eða ellilífeyris úr lífeyrissjóði.
.      Réttur til frádráttar skv. 1. mgr. kemur ekki til greina nema einu sinni fyrir hvern mann.
.      Frádrátt skv. 1. mgr. skal einnig veita framteljanda sem fellur frá og hafði fyrir heimili að sjá og hafði ekki nýtt þessa frádráttarheimild áður.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við endanlega álagningu tekjuskatts á árinu 1989 af tekjum ársins 1988.

Greinargerð.


    Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp í ársbyrjun 1988 var afnuminn sérstakur frádráttur fyrir þá launþega sem voru að ljúka starfsdegi sínum. Fyrir þessum frádrætti hafði verið barist lengi en hann komst fyrst í lög vorið 1983 (lög nr. 21/1983) er samþykkt var frumvarp frá flutningsmanni þessa máls ásamt ellefu öðrum þingmönnum úr öllum flokkum. Síðar, þegar
flutningsmaður var fjármálaráðherra, voru gerðar nokkrar breytingar á lagaákvæðum um þennan frádrátt til rýmkunar, sbr. lög nr. 119/1984, en ákvæðin síðan afnumin við upphaf staðgreiðslukerfis skatta, eins og áður segir, með lögum nr. 14/1987.
    Þegar lagafrumvörp um staðgreiðsluna voru til meðferðar á Alþingi var því mótmælt að þessi réttur launafólks til skattfrelsis síðasta starfsárið yrði af því tekinn. Þá var því borið við að frádrátturinn ætti ekki lengur við þegar staðgreiðslukerfið væri komið á og að frádrátturinn ylli óviðráðanlegum flækjum í hinu nýja kerfi. Hvorttveggja er rangt. Staðgreiðslukerfið er engin grundvallarbreyting á skattkerfinu heldur aðeins nýtt fyrirkomulag greiðslu skatta, eins konar fyrirframgreiðsla. Eftir sem áður verður launamönnum gert að skila skattskýrslu og hefðbundin álagning fer fram um mitt ár.
    Með því að taka aftur upp í skattalögin óbreytt ákvæðið um skattfrádrátt þeirra sem eru að ljúka starfsævi sinni mundi við endanlega álagningu tekjuskatts myndast inneign hjá þeim gjaldendum sem ættu rétt á þessum frádrætti og hún koma til endurgreiðslu eftir almennum reglum í 2. mgr. 112. gr. laganna (sbr. 17. gr. l. nr. 14/1987).
    Jafnframt er í frumvarpi þessu lagt til að skattfrádrátturinn komi til framkvæmda þegar í sumar við endanlega ákvörðun skatta fyrir tekjuárið 1988. Þar með væri bættur skaðinn sem skeði við upphaf staðgreiðslunnar 1988 og enginn launamaður, sem lokið hefur starfsævi sinni á því ári, fyrsta ári staðgreiðslunnar, yrði hlunnfarinn.
    Loks er lagt til að hámark frádráttarins, eins og það var ákveðið í lögum nr. 72/1986, hækki til samræmis við aðrar tölur frá þeim tíma.