Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 224 . mál.


Ed.

408. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 8/1985.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Forseti Íslands skipar prófessora, en menntamálaráðherra dósenta og lektora. Eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum ræður háskólaráð aðjúnkta og erlenda lektora að fengnum tillögum háskóladeildar, en háskóladeild stundakennara og styrkþega.
    Umsækjendur um prófessorsembætti, dósentsstörf og lektorsstörf skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf þau, er þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og námsferil sinn og störf.
    Skipa skal hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna embættinu eða starfinu. Háskólaráð skipar einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan, en deild sú, sem hann á að starfa við, hinn þriðja, og er hann formaður. Í nefnd þessa má skipa þá eina, er lokið hafa háskólaprófi á hlutaðeigandi fræðasviði, eða eru að öðru leyti viðurkenndir sérfræðingar á því sviði. Háskólaráð skipar ritara dómnefnd til ráðuneytis, leiðbeiningar og annarrar aðstoðar. Háskólaráð setur reglur um starfshætti dómnefndar og hlutverk ritara og skulu þær lagðar fyrir menntamálaráðherra til staðfestingar.
    Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita umsækjenda og rannsókna svo og námsferli þeirra og störfum megi ráða að þeir séu hæfir til að gegna embættinu eða starfinu. Leita skal álits hlutaðeigandi skorar áður en háskóladeild fjallar um umsækjendur sem dómnefnd telur hæfa. Eiga fulltrúar stúdenta á skorar- og deildarfundi þá ekki atkvæðisrétt. Engum manni má veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf við háskólann, nema meiri hluti dómnefndar telji hann hæfan og meiri hluti deildarfundar mæli með honum í embættið eða starfið.
    Heimilt er að kveða svo á í reglugerð að framangreind ákvæði skuli gilda um sérfræðinga við rannsóknastofnanir eða aðrar háskólastofnanir.
    Heimilt er að flytja lektor í dósentsstöðu og dósent í prófessorsembætti samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Háskólaráð getur lagt til að forstöðumaður háskólastofnunar sé fluttur í prófessorsembætti eftir sömu reglum og gilda um flutning dósents í prófessorsembætti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta um breyting á gildandi lögum um Háskóla Íslands er flutt að fengnum tillögum háskólaráðs. Tillögunum fylgdi svofelld greinargerð af hendi háskólaráðs:

Almennar athugasemdir.
    Reglur um undirbúning og framkvæmd stöðuveitinga við Háskóla Íslands gegna lykilhlutverki fyrir starfsemi stofnunarinnar og þróun. Miklu varðar að vel sé til reglnanna vandað og jafnframt kappkostað að beina framkvæmd þeirra inn á markvissar og skipulegar brautir. Í þessu skyni leggur háskólaráð til að skipan stöðuveitingamála verði framvegis byggð á þrenns konar réttarheimildum.
1.     Á lögum þar sem mælt sé fyrir um meginatriði eins og verið hefur.
2.     Á reglugerð þar sem sömu atriði séu rakin ásamt nánari útfærslu.
3.     Á fyrirmælum eða reglum, sem háskólaráð setji innan marka háskólalaga og reglugerðar, þar sem orðaðar séu almennar reglur um starfshætti dómnefnda og ýmis atriði varðandi meðferð stöðuumsókna.
    Skuli þessar reglur lagðar fyrir menntamálaráðherra til staðfestingar.
    Markmið þeirra breytinga, sem háskólaráð gerir tillögur um, eru einkum þessi:
1.     Að undirbúningur ákvörðunar um stöðuveitingar sé sem vandaðastur.
2.     Að framkvæmd dómnefndarstarfa sé sem samræmdust.
3.     Að sneiða svo sem kostur er hjá ágreiningi um stöðuveitingar.
    Aðalbreytingar eru þessar:
1.     Ritari skipaður af háskólaráði er dómnefnd til ráðuneytis og leiðbeiningar um störf hennar.
2.     Áhrif háskóladeildar eru aukin. Hefur deildin vald til að velja úr hópi hæfra umsækjenda, en vald ráðherra þrengist og er fyrst og fremst synjunarvald.
3.     Leita skal álits hlutaðeigandi skorar áður en deild fjallar um umsækjendur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


1. mgr.


    Ákvæði þetta er óbreytt.

2. mgr.


    Lektorsstöður eru hér lagðar að jöfnu við prófessorsembætti og dósentsstöður um alla meðferð umsókna. Er engu minni ástæða til að vanda vel val manna þegar þeir fá fasta stöðu í fyrsta sinn við Háskólann en síðar er þeir hljóta hærri stöður.

3. mgr.


    Gert er ráð fyrir að dómnefndir séu skipaðar með sama hætti og í gildandi lögum. Með því móti hafa háskóladeild, háskólaráð og ráðherra tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í dómnefnd. Ætlast er þó til þess að dómnefndarmenn séu óháðir þeim stofnunum, sem skipa þá, eins og verið hefur.
    Eitt nýmæli felst í ákvæðinu um skipan dómnefnda. Ritari skipaður af háskólaráði skal vera dómnefnd til trausts og halds í störfum hennar. Það er bæði til flýtisauka og öryggis fyrir dómnefnd að geta fengið allar upplýsingar innan nefndar um lagareglur, reglugerðarákvæði, starfsreglur, framkvæmdavenjur, fyrirmyndir og annað er snertir meðferð þessara mála. Er þessi tilhögun til þess fallin að stuðla að samkvæmni og vandaðri meðferð.

4. mgr.


    Í ákvæði þessu felast verulegar breytingar. Í fyrsta lagi er tryggt að álit hlutaðeigandi skorar verður kynnt á deildarfundi áður en deildin fjallar um hæfa umsækjendur. Faglegt álit skorar á hæfi umsækjenda er veigamikið og nauðsynlegt í fjölfaglegum deildum þar sem viðfangsefni kennara eru mjög ólík.
    Í öðru lagi er háskóladeild falið að velja nýjan háskólakennara úr hópi hæfra umsækjenda. Við flesta háskóla eru nýir kennarar valdir af háskólunum sjálfum, t.d. af deildum, ráðninga- og valnefndum eða með öðrum hætti. Er tímabært að færa þessa ákvörðun til þeirrar háskóladeildar þar sem væntanlegur kennari mun starfa.
    Veitingarvald ráðherra er hér takmarkað mun meira en í gildandi lögum. Má ráðherra ekki veita manni stöðu, nema hann hafi hlotið meðmæli dómnefndar og háskóladeildar. Takmarkanir á stöðuveitingavaldi ráðherra tíðkast almennt erlendis þegar um mannaráðningar við háskóla er að ræða. Þykja þær eðlilegar afleiðing af sjálfstæði slíkra stofnana.

Um 2. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Stúdentaráð Háskóla Íslands:

Reykjavík, 12. desember 1988.

Menntamálaráðherra
Svavar Gestsson.

    SHÍ fagnar þeirri ákvörðun Háskólaráðs að leggja til við yður breytingu á 11. gr. háskólalaga. Reynslan sýnir það ljóslega að nauðsynlegt er að Háskólinn sjálfur eigi sem mest vald í eigin efnum. Að sjálfsögðu má svo deila um á hvern hátt búa eigi um hnútana í þeim efnum svo sem umræður í háskólaráði sýndu glögglega. Er það mat stúdenta að sú lausn sé ágæt sem lagafrumvarpið felur í sér.
    Athygli yðar er þó vakin á því að í háskólaráði lögðu fulltrúar stúdenta til að úr 11. gr. yrðu felld orðin: ... „og eiga fulltrúar stúdenta á deildarfundi þá ekki atkvæðisrétt“. Var þetta lagt til m.a. vegna þess að hið nýja frumvarp leggur aukna áherslu á faglegt mat dómnefnda þannig að röksemdir gegn atkvæðisrétti stúdenta eigi ekki lengur við. Helstu röksemdir stúdenta voru þar að auki að stúdentar í háskólaráði hafa atkvæðisrétt í öllum málum, m.a. varðandi stöðuveitingar, stúdentar þekkja oft umsækjendur af eigin raun gegnum kennslu og að stúdentar eru minna háðir klíkumyndunum og flokkadráttum í deildum. Naut þessi tillaga stúdentafulltrúanna mikils stuðnings forystumanna stúdenta í deildum. Örlög hennar urður þau að hún var
felld í háskólaráði með átta atkvæðum gegn sjö.
    Með bréfi þessu viljum við fullvissa yður, herra ráðherra, um stuðning stúdenta við lagafrumvarp þetta.

F.h. menntamálanefndar SHÍ,


Valborg Snævarr


formaður.