Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 229 . mál.


Nd.

427. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum.
    Sé ekki starfandi hjúkrunarfræðingur á viðkomandi stofnun, deild eða sviði getur ráðuneytið heimilað að sjúkraliði beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart þeim sérfræðingi sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs.
    Ráðherra ákveður í reglugerð um nám sjúkraliða og starfsemi Sjúkraliðaskóla Íslands.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi 8. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt gildandi lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða, sbr. áður 8. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974, starfa sjúkraliðar undir stjórn og á ábyrgð hjúkrunarfræðings. Þetta hefur haft í för með sér að því aðeins er hægt að ráða sjúkraliða til starfa að til staðar sé hjúkrunarfræðingur. Hefur þetta löngum valdið óánægju hjá sjúkraliðum sem m.a. hafa haldið því fram að ástæða sé til þess að sjúkraliðar geti starfað sem aðstoðarmenn annarra sérfræðinga en hjúkrunarfræðinga sé hjúkrunarfræðingum ekki til að dreifa á hlutaðeigandi stofnun, sviði eða deild.
    Við gerð kjarasamninga í apríl 1987 var gefið vilyrði fyrir því af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að þessi þáttur laga nr. 58/1984, um
sjúkraliða, yrði skoðaður sérstaklega. Að tilhlutan ráðuneytisins hefur verið útbúið frumvarp til laga um breyting á lögum um sjúkraliða sem tekur mið af því að sjúkraliðar starfi undir stjórn tiltekins hjúkrunarfræðings, þ.e.a.s. þess hjúkrunarfræðings sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs, og beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum en ekki gagnvart ótilteknum hjúkrunarfræðingum sem kunna að starfa á viðkomandi stofnun, sviði eða deild, eins og nú er.
    Enn fremur er gert ráð fyrir því að sé ekki starfandi hjúkrunarfræðingur á viðkomandi stofnun, deild eða sviði geti ráðuneytið heimilað að sjúkraliði starfi undir yfirstjórn tiltekins sérfræðings, t.d. læknis sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs og beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum.
    Enn fremur er lögð til sú breyting að í lögum um sjúkraliða sé að finna ákvæði er kveði á um starfsemi Sjúkraliðaskóla Íslands, en núgildandi ákvæði um skólann er að finna í 8. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974. Fer betur á að hafa ákvæði um skólann í lögum um sjúkraliða.
    Samstaða hefur náðst um frumvarp þetta við stjórn Sjúkraliðafélags Íslands.