Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 247 . mál.


Ed.

457. Frumvarp til laga



um lögbókandagerðir.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Lögbókandagerðir (notarialgerðir) eru valdsmannsathafnir sem sýslumenn framkvæma hver í sínu umdæmi. Nefnist sýslumaður lögbókandi (notarius publicus) við þær gerðir.
    Starfsmenn utanríkisþjónustu Íslands, sem veita sendiráðum erlendis forstöðu, og sendiræðismenn eru hver í sínu umdæmi lögbókendur varðandi athafnir og löggerninga sem íslenskir ríkisborgarar standa að einhverju eða öllu leyti að. Utanríkisráðherra getur veitt kjörræðismönnum Íslands erlendis sömu heimild.
    Um hæfi lögbókanda til að annast lögbókandagerð fer eftir almennum reglum um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði, eftir því sem við á.
    Ekki er þörf votta við lögbókandagerðir, nema þar sem slíkt er sérstaklega áskilið í lögum.

2. gr.

    Lögbókandagerð telst opinber staðfesting á því sem efni hennar kveður á um. Jafngildir hún vottun tveggja manna um þá athöfn eða staðreynd sem hún tekur til.
    Að því leyti, sem reglur annarra laga kveða á um sérstakar gerðir lögbókanda eða framkvæmd þeirra, halda þær gildi sínu, en beita skal ákvæðum þessara laga að öðru leyti um þær gerðir, eftir því sem við verður komið.

3. gr.

    Lögbókandagerð fer fram á starfsstöð lögbókanda, nema nauðsyn beri til annars vegna aðstæðna eða eðlis málefnisins.
    Þeim, sem fara með lögbókandagerðir, skulu lagðar til á kostnað ríkissjóðs tölusettar, gegnumdregnar og innsiglaðar gerðabækur. Slíkar bækur skulu löggiltar af því ráðuneyti sem hlutaðeigandi embættismaður heyrir undir.

4. gr.

    Óski maður eftir að lögbókandi staðfesti undirskrift hans á skjali skal hann sanna á sér deili og undirrita skjalið eða kannast við undirskrift sína að lögbókanda viðstöddum.
    Nú er ástæða til að ætla að endurtekið verði óskað staðfestingar lögbókanda á undirskrift sama manns. Getur sá, sem svo er ástatt um, á eigin ábyrgð látið lögbókanda í té í eitt skipti fyrir öll sýnishorn undirskriftar sinnar. Áður skal hann sanna á sér deili og rita undir yfirlýsingu í gerðabók lögbókanda um að framvegis megi í skjóli hennar staðfesta samkvæmt bréflegri beiðni undirskrift hans undir skjöl sem lögbókanda berast í því skyni.

5. gr.

    Nú lýsir maður því yfir í viðurvist lögbókanda að efni skjals sé í samræmi við ætlun sína, en hann sé ófær vegna líkamlegs heilsubrests um að undirrita það. Getur þá lögbókandi ritað vottorð um þetta á skjalið. Telst það vottorð hafa sömu þýðingu og ef sá, sem skjalið stafar frá, hefði sjálfur undirritað skjalið að lögbókanda viðstöddum.

6. gr.

    Ef maður óskar eftir staðfestingu lögbókanda á hæfi sínu eða heimild til að standa að efni skjals skulu lögbókanda látin í té þau sönnunargögn um málefnið sem hann telur þörf. Lögbókandi verður að öðru leyti ekki krafinn um að meta hæfi eða heimild útgefanda skjals eða að afla gagna um þau efni, nema lög mæli á annan veg.

7. gr.

    Lögbókandi ritar vottorð á skjöl sem hann staðfestir skv. 4., 5. eða 6. gr. Í vottorði hans skal tekið nákvæmlega fram til hvers eða hverra atriða staðfestingin tekur. Eftir því sem lögbókanda þykir ástæða til má hann geta í vottorði sínu með hverjum hætti þau atriði hafa verið sönnuð sem vottorðið fjallar um. Þá skal hann einnig geta annarra atriða, ef hann telur þau geta haft þýðingu við mat á hæfi þess, sem stendur að löggerningnum, eða við mat á gildi löggerningsins að öðru leyti. Við undirskrift sína undir vottorð skal lögbókandi tiltaka nákvæmlega hvar og hvenær staðfesting á sér stað.

8. gr.

    Nú er þess beiðst að lögbókandi staðfesti undirskrift undir skjal á erlendu tungumáli eða efni þess. Má lögbókandi þá krefja þann, sem um gerðina
biður, um þýðingu löggilts skjalaþýðanda á skjalinu, nema lögbókandi telji sjálfum sér fært að þýða það. Ef óskað er eftir að vottorð lögbókanda á skjali verði á erlendu tungumáli, skal sá, sem um það biður, leggja til þýðingu löggilts skjalaþýðanda á þeim texta vottorðs sem lögbókandi mælir fyrir um.

9. gr.

    Nú er skjal, sem óskað er staðfestingar lögbókanda á, ætlað til afnota erlendis, og reglur eða venjur í viðkomandi ríki leiða til að efni þess hafi ekki tilætlaða þýðingu, nema það sé staðfest með eiði eða drengskaparheiti. Lögbókanda er þá heimilt að færa upplýsingar um meginefni skjalsins til bókar í gerðabók. Má sá, sem um staðfestingu lögbókanda biður, vinna eið eða drengskaparheit að sannleiksgildi efnis skjalsins, og skal það sérstaklega bókað.
    Um framkvæmd og skilyrði heitfestingar skv. 1. mgr. skal farið eftir réttarfarsreglum um eiðvinning vitnis í einkamáli, eftir því sem við á.

10. gr.

    Ef óskað er eftir að lögbókandi staðfesti að atburður hafi átt sér stað eða að athöfn hafi farið fram með tilteknum hætti skal hann kvaddur með hæfilegum fyrirvara til að vera viðstaddur.
    Lögbókandi færir í gerðabók frásögn sína af þeim atburðum eða athöfnum sem hann staðfestir. Um efni bókunar skal eftir atvikum gæta ákvæða 7. gr. Bókun sína undirritar lögbókandi ásamt þeim sem hlut eiga að máli.
    Ef sérstakar aðstæður krefjast þess getur lögbókandi fært efni löggernings jafnharðan í gerðabók eftir fyrirsögn þess sem hann stafar frá. Um staðfestingu lögbókanda á undirritun og efnisatriðum slíkra löggerninga gilda fyrirmæli 4. til 9. gr., eftir því sem við á.

11. gr.

    Lögbókanda skulu afhent skjöl, sem honum er ætlað að staðfesta, í nægilegum fjölda samhljóða eintaka til að hann fái haldið einu eftir. Á því eintaki skulu vera undirritanir þeirra, sem hlut eiga að máli, auk vottorðs lögbókanda.
    Með samritum skjala skv. 1. mgr. skulu geymd eintök þeirra sönnunargagna, sem lögbókanda hafa verið afhent skv. 6. gr., auk þýðinga skjala á erlendum tungumálum, ef þær hafa verið fengnar. Dómsmálaráðherra er heimilt að kveða á í reglugerð um varðveislu og umbúnað þessara skjala og sönnunargagna.

12. gr.

    Staðfest endurrit eða myndrit af öðrum skjölum en viðskiptabréfum, sem lögbókandi varðveitir skv. 11. gr., teljast jafngild frumriti þeirra að lögum.
    Að því leyti, sem bókun lögbókanda í gerðabók felur í sér löggerning manns, telst staðfest endurrit úr gerðabókinni samsvara skjalfestu eintaki löggerningsins.

13. gr.

    Lögbókanda er óheimilt að láta af hendi endurrit eða myndrit skjala, sem hann varðveitir, eða endurrit úr gerðabók nema með samþykki þess sem um gerð hans hefur beðið. Nú er sá maður látinn og má lögbókandi þá láta af hendi endurrit eða myndrit til þeirra sem telja sig geta byggt rétt á efni skjalsins.
    Nú hefur staðfestingar lögbókanda verið leitað til að sanna atburð eða athöfn, sem varðar réttindi annars manns en þess, er um gerðina hefur beðið, eða ótiltekins fjölda manna. Er þá lögbókanda heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., að afhenda þeim, er telur málefnið sig varða, endurrit úr gerðabók varðandi viðkomandi atburð eða athöfn.
    Lögbókanda ber að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli málsins. Honum er óheimilt nema með samþykki þess, sem um gerð hans hefur beðið, að veita upplýsingar um hvort hún hafi farið fram eða um efni hennar, nema svo standi á að þeim, sem um upplýsingar biður, megi afhenda samrit eða endurrit löggernings eða gerðar samkvæmt reglum 1. eða 2. mgr.

14. gr.

    Nú er óskað lögbókandagerðar, en lögbókandi telur að gerðin muni engum tilgangi þjóna eða að skilyrðum þessara eða annarra laga fyrir gerð með því efni, sem um er beðið, sé ófullnægt, og má hann þá hafna beiðni um gerðina. Lögbókanda er skylt að afhenda þeim, sem hann synjar um gerð, skriflegan rökstuðning fyrir afstöðu sinni, ef krafist er.
    Þótt svo standi á sem í 1. mgr. segir má lögbókandi framkvæma gerð, ef hann telur eftir atvikum ekki ástæðu til að synja um hana, en í bókun sinni eða rituðu vottorði á skjali skal hann geta þeirra atriða sem hann telur áfátt.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Meðan lög nr. 74 27. apríl 1972, um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., eru enn í gildi, skulu þeir embættismenn, sem þar er mælt fyrir, eftir sem áður fara með lögbókandagerðir (notarialgerðir) auk þeirra sem taldir eru í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga þessara.

16. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi eftirfarandi lög og ákvæði laga:
1.     Opið bréf um testamenti og notarialgerðir 8. janúar 1823.
2.     Í 1. málsl. 2. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 23. júní 1936, orðin „auk nótaríalgerða“.
3.     3. mgr. 41. gr. og 2. mgr. 43. gr. erfðalaga nr. 8 14. mars 1962.
4.     15. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39 16. apríl 1971.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögbókandagerð er í frumvarpi þessu átt við það sama og nefnt hefur verið notarialgerð hér á landi að erlendri fyrirmynd. Í lögum um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 72/1974, er kveðið á um að bæjarfógetar og sýslumenn, í Reykjavík borgarfógetar, hafi með höndum notarialgerðir, auk lögreglustjóra utan kaupstaða. Í fyrirliggjandi frumvarpi til laga, sem ætlað er til að leysa þau lög af hólmi, hefur verið gengið út frá að þessar gerðir verði framvegis í höndum sýslumanna sem fari með stjórnsýslustörf í þágu ríkisins í héraði. Í því frumvarpi er þó ekki kveðið á um einstök viðfangsefni sýslumanna, heldur ætlast til að þau ráðist af fyrirmælum annarra laga. Er því þörf sérstakrar lagasetningar um það hverjir fari með þessar gerðir, ef það frumvarp verður að lögum.
    Hér á landi hefur líkt og næstu nágrannalöndum vantað almennar reglur um lögbókandagerðir (notarialgerðir) þótt gert sé ráð fyrir framkvæmd þeirra í ýmsum lögum, með þeim hætti að tiltekin opinber vottun skjala eða atburða eigi sér stað með atbeina lögbókanda (notarius publicus). Frá þessu er þó sú undantekning að í opnu bréfi 8. janúar 1823 um testamenti og notarialgerðir
er að finna svohljóðandi almenn fyrirmæli í þessu sambandi:
"7.     Undir ströngustu embættisábyrgð sé notario uppálagt sjálfum að framkvæma þau verk og meðtaka þær skýrslur, um hverjar hann ber vitni, þó má, ef við þarf, annar áreiðanlegur maður .... setjast .... til að framkvæma verk hans í forföllum þessa embættismanns og ber þess í gerðunum, sem útgefast, að geta, er þau verk af þvílíkum útréttast.
8.     Loksins ber notario til alls, er honum viðkemur að framkvæma, framvegis tvö vitni til staðfestingar að brúka.“
    Af augljósum ástæðum hefur verið takmarkað gagn af þessum reglum við framkvæmd umræddra gerða sem eru algengar og geta tekið til fjölbreytilegra atriða. Vegna þess tilefnis, sem hefur gefist samkvæmt áðursögðu til að gera frumvarp til laga um þessar gerðir, hefur þótt rétt að leggja til setningu almennra reglna um framkvæmd þeirra til að taka af vafa um ýmis atriði sem risið hefur í þessum efnum.
    Í lagaákvæðum um þær gerðir, sem frumvarp þetta tekur til, eru þær jafnan nefndar „notarialgerðir“ (eða „nótaríalgerðir“) og sá embættismaður, sem annast þær, nefndur heitinu „notarius publicus“. Í frumvarpinu er lagt til að þessar gerðir verði nefndar lögbókandagerðir og samkvæmt því að sá maður, sem þær annast, beri heitið lögbókandi. Eru þessi hugtök tekin upp eftir fyrirmynd í lögum um verndun fornmenja, nr. 40/1907, sem að vísu eru fallin úr gildi fyrir fjölda ára síðan, en ekki er vitað til að annars staðar hafi verið leitast við að íslenska framangreind heiti í lögum.
    Reglur laga nr. 74/1972 hafa eins og eldri lög um sama efni falið þeim embættismönnum að hafa lögbókandagerðir með höndum sem fara með dómstörf í héraði. Er hér um sömu skipan mála að ræða og þekkist í til dæmis Danmörku og Noregi. Hefur þetta haft í för með sér að á köflum hefur þótt óljóst hvort lögbókandagerðir verði taldar til dómsathafna eða umboðsstarfa héraðsdómara í þágu framkvæmdarvaldsins. Þeirri skoðun hefur almennt verið fylgt hér á landi, bæði í fræðiritum og framkvæmd, að gerðir þessar séu yfirvaldsgerðir, ekki dómsathafnir. Með frumvarpi þessu er tekið af skarið í þessum efnum til samræmis við þá skoðun. Er því gengið út frá að lögbókandagerðir verði í höndum sýslumanna sem frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði ráðgerir að fari með stjórnsýslustörf í þágu ríkisins.
    Eins og getið hefur verið hér á undan, eru ýmis sérákvæði í lögum, sem ráðgera að lögbókandagerðir fari fram í tilteknu skyni. Má í grófum dráttum flokka efni þessara reglna með eftirfarandi hætti:
    Staðfesting undirritunar á skjali.
1.     15. gr. laga nr. 29/1885, um lögtak og fjárnám, án undanfarins dóms eða sáttar (undirritun veðskuldabréfa).
2.     2. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð (undirritun tilkynninga til firmaskrár).
3.     146. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög (undirritun tilkynninga til hlutafélagaskrár).
    Staðfesting á hæfi manns til að standa að ráðstöfun.
1.     4. liður VI. kafla erfðalaga, nr. 8/1962 (staðfesting erfðaskráa).
2.     22. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978 (staðfesting fjárræðis þeirra sem gefa út skjöl til þinglýsingar).
    Staðfesting á hvernig athöfn hefur farið fram og eftir atvikum einnig framkvæmd hennar.
1.     12. gr. laga nr. 1/1900, um stofnun veðdeildar í Landsbankanum í Reykjavík (útdráttur skuldabréfa).
2.     16. gr. laga nr. 60/1928, um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka (seríur) bankavaxtabréfa (útdráttur skuldabréfa).
3.     44. gr. og 15. kapítuli víxillaga, nr. 93/1933 (víxilafsagnir).
4.     40. gr. og 13. kapítuli tékkalaga, nr. 94/1933 (tékkaafsagnir).
5.     89. gr. laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði (stefnubirtingar).
6.     3. gr. laga nr. 67/1947, um eignakönnun (útdráttur ríkisskuldabréfa).
7.     15. gr. laga nr. 73/1965, um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa (útdráttur skuldabréfa).
8.     11. gr. laga nr. 34/1979, um veðdeild Búnaðarbanka Íslands (útdráttur vaxtamiða).
    Um langan tíma hefur einnig tíðkast að nýta lögbókandagerðir til annarra þarfa en framangreindar reglur gefa til kynna. Hefur meðal annars gætt áhrifa af þeirri framkvæmd í reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í 15. gr. laga nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, en í 7. gr. núgildandi reglugerðar um þetta efni, nr. 585/1987, er að finna fyrirmæli um gjaldtöku fyrir lögbókandagerðir sem þar eru taldar eftirfarandi:
1.     Afsagnargerðir, stefnubirtingar og aðrar slíkar gerðir.
2.     Notarialvottorð á erfðaskrám.
3.     Notarialvottorð á samninga, umboðsskjöl eða aðra slíka gerninga.
4.     Dráttur í happdrættum.
5.     Útdráttur skuldabréfa.
    Um þær gerðir, sem 3. og 4. liður hér að ofan taka til, er ekki að finna sérstök lagafyrirmæli að öðru leyti. Hér er þó um algengar gerðir lögbókanda
að ræða, einkum við vottun samninga og annarra löggerninga varðandi viðskipti Íslendinga við erlenda menn eða fyrirtæki, enda munu lögbókandagerðir vera almennari í þessu sambandi erlendis en hér á landi. Af þessari ástæðu gerist iðulega að ekki sé aðeins óskað eftir að lögbókandi staðfesti undirskrift manns undir skjal, sem nýta á erlendis, heldur einnig að viðkomandi maður sé bær um að ráðstafa viðkomandi hagsmunum. Svo víðtæk staðfesting af hendi lögbókanda þekkist hins vegar almennt ekki vegna þarfa hér á landi.
    Með frumvarpi þessu er ekki lagt til að breyta með neinum hætti framangreindum lagareglum eða framkvæmdavenjum um það við hverjar aðstæður lögbókandagerðum verður beitt eða til hvers þær taki. Hér er einungis leitast við að setja almennar reglur um hvernig standa beri að þeim gerðum og hverja þýðingu þær teljast hafa. Fyrrgreind lagafyrirmæli og venjur hafa hins vegar umtalsverð áhrif á efni frumvarpsins þar sem gengið er út frá að lögbókandagerða sé almennt ekki þörf við aðrar aðstæður en áður er getið.
    Efnisskipan þessa frumvarps er í stuttu máli með þeim hætti að í 1. gr. er tiltekið hverjir fari með lögbókandagerðir og hverjum sérstökum hæfisskilyrðum viðkomandi verður að fullnægja. Í 2. gr. eru almenn fyrirmæli um þýðingu lögbókandagerða. Í 3. eru reglur um hvar lögbókandagerðir fari fram og um gerðabækur lögbókanda. Í 4. til 9. gr. eru reglur um vottun lögbókanda á undirskrift undir skjöl og fleiri atriði sem því tengjast. Í 10. gr. eru fyrirmæli um vottun atburðar eða athafnar. Í 11. til 13. gr. eru reglur um varðveislu lögbókanda á gögnum, þagnarskyldu hans og heimildir til að afhenda samrit gagna. Loks er í 14. gr. kveðið á um úrræði lögbókanda ef hann telur orka tvímælis að gerð geti náð fram að ganga.
    Verður nú gerð nánari grein fyrir efni frumvarpsins með athugasemdum um einstök ákvæði þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í upphafi 1. mgr. 1. gr. er tekið fram að lögbókandagerðir séu valdsmannsathafnir. Þetta er gert til að taka af tvímæli um að hér sé ekki um dómsathöfn að ræða. Eins og vikið er að í almennum athugasemdum um frumvarpið hér á undan felst ekki breyting í þessu frá því sem þótt hefur gilda hér á landi í kenningum fræðimanna og dómaframkvæmd. Í þessu sambandi er rétt að benda á að heimilt hefur verið talið að reyna á gildi lögbókandagerða í dómsmálum sem rekin hafa verið í héraði, bæði hvað varðar form þeirra og efnislegt réttmæti. Samkvæmt grundvallarreglum réttarfars gæti þetta ekki staðist ef lögbókandagerð teldist dómsathöfn því að þær reglur fela meðal
annars í sér það lögmál að héraðsdómur geti ekki metið aðgerðir annars og hliðsetts héraðsdómstóls, heldur sé það aðeins á færi Hæstaréttar. Á það hefur enn fremur reynt beinlínis í dómsúrlausn hvort lögbókandagerð teljist dómsathöfn, en því var hafnað í dómi Hæstaréttar sem birtur er í dómasafni 1976/563 (víxilafsögn). Telst það samkvæmt þessu ekki fara í bága við grundvallarreglur um verkaskipti milli dómstóla og framkvæmdarvaldshafa að hér sé lagt til að þeir embættismenn, sem fara með stjórnsýslustörf ríkisins í héraði, fari með lögbókandagerðir.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að sýslumenn fari með lögbókandagerðir og er þetta gert í samræmi við framangreint og til samræmis við skipan mála samkvæmt frumvarpi til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Þótt hér sé tekið þannig til orða að sýslumenn fari með gerðir þessar er að sjálfsögðu gengið út frá að þeir geti falið starfsmönnum sínum (fulltrúum) að hafa þessi verkefni með höndum. Er óþarft að taka slíkt sérstaklega fram hér, enda leiðir það af fyrirmælum annarra laga sem kveða á um heimildir fulltrúa sýslumanns til að vinna í nafni hans að einstökum verkum.
    Tekið er svo til orða í 1. mgr. 1. gr. að sýslumenn fari með lögbókandagerðir „hver í sínu umdæmi“. Með þessu er vísað til almennra reglna um að embættismenn sem þessir hafi einungis staðbundið vald og geti því almennt ekki neytt þess utan umdæmis síns. Lögbókandi í Reykjavík gæti því ekki framkvæmt gerð í umdæmi sýslumanns í Kópavogi, heldur einungis innan marka eigin umdæmis. Á hinn bóginn útilokar þetta orðalag það ekki að menn, sem heimilisfastir eru í einu umdæmi, leiti til lögbókanda í öðru umdæmi til að framkvæma gerð að því gættu að gerðin sem slík þarf þá að eiga sér stað innan umdæmis þess lögbókanda sem leitað er til.
    Loks ber að geta þess um 1. mgr. ákvæðisins að tiltekið er innan sviga að hugtakið lögbókandagerð merki hið sama og „notarialgerð og að nafngiftin lögbókandi samsvari heitinu „notarius publicus“. Er þetta gert í ljósi þess að nokkur fjöldi ákvæða annarra laga notar umrædd latnesk heiti eða samsetningar á grunni þeirra, en hér er sem áður segir gengið út frá að almennar reglur þessa frumvarps taki til allra tilvika þar sem mælt er fyrir um beitingu lögbókandagerða eða aðgerðir lögbókanda í öðrum lögum þótt þessar gerðir eða viðkomandi embættismaður beri þar annað heiti.
    Í 2. mgr. 1. gr. er tekin upp með lítið breyttu orðalagi regla sem nú kemur fram í 15. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands. Rétt þykir að umrædd fyrirmæli komi fram í almennri löggjöf um lögbókandagerðir, enda er reglum frumvarpsins ætlað að taka jafnt til lögbókandagerða sendiherra og ræðismanna erlendis sem sýslumanna hér á landi. Ólíklegt er að mjög reyni á
heimildir sendiherra og ræðismanna Íslands erlendis til að framkvæma lögbókandagerðir. Vegna tilvistar reglu 15. gr. laga nr. 39/1971 þykir þó ekki rétt að afnema þessa heimild, enda munu réttarreglur annarra ríkja, sem hafa sendiherra eða ræðismenn hér á landi, jafnan ráðgera samsvarandi heimild hvað þá varðar.
    Um skýringu á embættis eða starfsheitum í 2. mgr. 1. gr. má vísa alfarið til fyrirmæla laga nr. 39/1971. Hér ber að árétta að tekið er fram í ákvæðinu að sendiherrar og ræðismenn fari með lögbókandagerðir „hver í sínu umdæmi og gilda því sömu reglur um heimildir þeirra í þessum efnum og áður er lýst varðandi sýslumenn.
    Það er tekið fram í 2. mgr. 1. gr., að sendiherrar og ræðismenn Íslands erlendis geti aðeins framkvæmt lögbókandagerðir varðandi athafnir og löggerninga sem íslenskir ríkisborgarar standa að einhverju eða öllu leyti að. Með þessu er afmarkað að umræddir fulltrúar íslenska ríkisins geti ekki í skjóli valds síns samkvæmt íslenskum lögum framkvæmt þessar gerðir svo gilt sé, nema því sé fullnægt að íslenskur ríkisborgari standi einn eða meðal annarra að viðkomandi ráðstöfun eða athöfn. Að þessu fullnægðu hefur lögbókandagerð við þessar aðstæður hins vegar gildi, einnig hvað varðar hlutdeild erlendra ríkisborgara að viðkomandi aðgerð.
    Í 3. mgr. 1. gr. er kveðið á um sérstök hæfisskilyrði til að lögbókandi megi standa að gerð hverju sinni. Er í þessum efnum vísað til almennra reglna um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði. Reglur um það hæfi koma nú fram í 36. gr. laga nr. 85/1936. Við þær verður þó eðli málsins samkvæmt ekki stuðst fullum fetum undir þessum kringumstæðum, enda er tekið fram í 3. mgr. 1. gr. að hér verði umræddum hæfisreglum aðeins beitt að því leyti sem þær geti átt við. Af þeim sökum eiga eftirfarandi viðhorf einkum við um hæfi lögbókanda:
1.     Lögbókandi má ekki standa að gerð ef hann á sjálfur aðild að málefninu. Þannig gæti lögbókandi til dæmis ekki staðfest erfðaskrá sem hann ætti að taka arf eftir eða sem hefði í för með sér missi erfðaréttar hans sem hann nyti ella samkvæmt lögerfðareglum. Eðlilega væri lögbókandi einnig óhæfur til að staðfesta eigin erfðaskrá. Eins yrði að telja hann vanhæfan til að standa að afsögn víxils sem hann væri sjálfur útgefandi að. Með sama hætti teldist lögbókandi vanhæfur ef félag, sem hann er í fyrirsvari fyrir, ætti samsvarandi hlut að máli.
2.     Lögbókandi má ekki vera skyldur eða mægður mönnum sem eiga sams konar hagsmuna að gæta og nefndir eru í 1. lið hér að ofan. Um mörk skyldleika og mægða í þessu sambandi koma fram sérstök fyrirmæli í 2. tölul. 36. gr. laga nr. 85/1936.

3.     Samkvæmt 5. tölul. 36. gr. laga nr. 85/1936 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef hann hefur flutt það eða leiðbeint aðila málsins um málefnið. Hér koma einungis til álita atriði sem varða leiðbeiningar af hendi lögbókanda. Þessi fyrirmæli verður að skoða í ljósi þess að í 114. gr. laga nr. 85/1936 er mælt fyrir um skyldu dómara til að leiðbeina ólöglærðum manni sem flytur mál sitt sjálfur. Slík leiðbeiningarskylda, sem getur tekið til verulegra atriða, veldur ekki vanhæfi samkvæmt ívitnuðum lið 36. gr. laganna. Það veldur heldur ekki vanhæfi dómara í einkamáli þótt hann semji stefnu í máli fyrir ólöglærðan mann samkvæmt fyrirmælum 87. gr. umræddra laga. Með beitingu reglu 5. tölul. 36. gr. laga nr. 85/1936 kemur ekki til álita að telja lögbókanda vanhæfan til að annast gerð, nema hann hafi veitt viðkomandi manni verulega ráðgjöf um ráðstöfun hans. Af þeim sökum væri lögbókanda vítalaust að veita talsverðar almennar leiðbeiningar um réttarreglur varðandi ráðstöfun, og ef með þarf, að semja texta hennar samkvæmt óskum þess sem til hans leitar. Lögbókanda væri hins vegar óskylt að veita slíkar leiðbeiningar eða aðstoð.
4.     Lögbókandi yrði loks talinn vanhæfur ef hann er óvinveittur þeim sem um gerð biður eða ef hann sjálfur eða venslamenn hans geta talist hafa verulegra fjárhagslegra eða siðferðislegra hagsmuna að gæta af ráðstöfuninni. Eins getur það leitt til vanhæfis ef annars er hætta á að lögbókandi geti ekki litið hlutdrægnislaust á málefnið. Eðli málsins samkvæmt eiga þessi viðhorf sjaldan við um lögbókandagerðir, en á þetta gæti þó reynt til dæmis við staðfestingu erfðagerninga. Forsendur vanhæfis við þessar aðstæður eru þær að til þess gæti komið á síðari stigum að lögbókandi yrði krafinn vitnisburðar um staðfestingu sína í dómsmáli. Er annað ófært en að leitast sé við að tryggja að slíkur vitnisburður yrði með öllu hafinn yfir tvímæli.
    Þótt þess sé ekki sérstaklega getið hefði vanhæfi sýslumanns það sjálfkrafa í för með sér að starfsmenn hans teldust einnig vanhæfir til lögbókandagerðar, enda sækja þeir valdheimild sína til hans persónulega. Felst þessi skilmáli í tilvísun 3. mgr. 1. gr. til almennra hæfisreglna um dómara í einkamálum, en um fulltrúa þeirra gildir umrædd regla skv. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 85/1936.
    Í 4. mgr. 1. gr. er tekið fram að ekki sé þörf votta við lögbókandagerðir, nema þar sem slíks er sérstaklega krafist í lögum. Í reglu 8. gr. opins bréfs frá 8. janúar 1823, sem fram kemur hér á undan, er mælt
fyrir um hið gagnstæða þar sem lögbókanda er gert skylt „tvö vitni til staðfestingar að brúka“. Sú regla er í samræmi við þá formfestu sem ríkti við setningu hennar, en í seinni tíð hefur hún þótt stinga mjög í stúf við hlutverk lögbókanda sem við ýmsar aðstæður vottar löggerninga með jafngildum hætti og tveir menn annars. Sem dæmi af slíku má benda á að í 22. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 er kveðið á um að jafngilt sé að tveir menn votti skjal, ef lögbókandi, lögmaður eða löggiltur fasteignasali gerir slíkt. Er í hæsta máta óeðlilegt að lögbókandi þurfi að auki að hafa tvo votta við staðfestingu sína við þessar aðstæður meðan slíks er ekki krafist varðandi aðra umrædda. Hefur þessi aðstaða m.a. orðið til að vanrækt hefur verið í framkvæmd að fylgja reglu 8. gr. fyrrnefnds opins bréfs sem skyldi, bæði við þessar aðstæður og aðrar lögbókandagerðir, og verulegur vafi hefur einnig þótt leika á því hverjum tilgangi svonefndir „notarialvottar“ eiga almennt að þjóna. Í ljósi löggjafarþróunar, sem meðal annars sést af ívitnuðu ákvæði þinglýsingalaga og hefur beinst að því að létta formkröfur um vottun löggerninga, verður að teljast eðlilegt að valdsmaður geti einn vottað það sem ella þyrfti tvo menn til.
    Þótt lagt sé til samkvæmt framansögðu að afnema þá almennu reglu að lögbókandi þurfi tvo votta við gerðir sínar er allt að einu gerður fyrirvari í niðurlagi 4. mgr. 1. gr. þess efnis að sérstakur áskilnaður annarra laga um viðveru votta við lögbókandagerðir haldist. Slíkur áskilnaður finnst óvíða. Annars vegar er tekið fram í lagafyrirmælum um útdrátt bankaskuldabréfa (lög nr. 1/1900, 60/1928, 73/1965 og 34/1979) að tveir menn skuli vera staddir við þær lögbókandagerðir, en sérstakar reglur gilda um tilnefningu þeirra. Hér getur orkað tvímælis hvort í reynd sé um vottun að ræða í þeim skilningi sem hér er að öðru leyti fjallað um. Frumvarp þetta, ef að lögum verður, raskar þó ekki gildi þessara reglna, bæði vegna umrædds fyrirvara í 4. mgr. 1. gr. og almennrar reglu í 2. mgr. 2. gr. sem vikið er að hér á eftir. Hins vegar kemur fram ráðagerð í reglum 4. liðar VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962, um að tveir „notarialvottar“ eigi að vera staddir við staðfestingu lögbókanda á erfðaskrá. Fyrirmæli um þessa skyldu eiga að falla niður skv. 3. tölul. 16. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.


    Í fyrri málsgrein þessa ákvæðis er að finna almenna skilgreiningu á því hvað felst í lögbókandagerð. Er þessu lýst með þeim hætti að hún teljist opinber staðfesting á því sem efni hennar kveður á um. Með opinberri staðfestingu er hér átt við að handhafi ríkisvalds, lögbókandi, hafi lýst yfir
réttmæti ákveðins atriðis með vottorði sínu á skjali eða færslu í gerðabók, og mega því þeir, sem hagsmuni hafa af viðkomandi efni, treysta réttmæti þessarar yfirlýsingar að viðlagðri ábyrgð ríkissjóðs.
    Því er sérstaklega bætt við í seinni málslið fyrri málsgreinar að vottun lögbókanda jafngildi að lögum vottun tveggja manna þar sem slíks er þörf. Með þessu er því slegið föstu að ef áskilið er í lögum að tveir menn votti tiltekin atvik jafngildi það því ef lögbókandi vottar slíkt einn.
    Í seinni málsgrein 2. gr. er mælt fyrir um að sérreglur annarra laga haldist um tilvik þar sem lögbókandagerðir geta átt sér stað þrátt fyrir reglur frumvarpsins og á hið sama við um slíkar sérreglur um verklag við framkvæmd einstakra lögbókandagerða. Um fyrrnefnda atriðið hefur þegar verið fjallað í almennum athugasemdum um frumvarpið, en þar er að finna talningu núgildandi lagaheimilda um notkun lögbókandagerða. Síðarnefnda atriðið, að sérreglur annarra laga um framkvæmd lögbókandagerða haldist, á ekki við um marga málaflokka. Hér eru hafðar í huga reglur sem mæla fyrir um sérstakt verklag við tiltekin afbrigði lögbókandagerða. Þær lagareglur eru eftirfarandi:
1.     Reglur 15. kapítula víxillaga, nr. 93/1933, um framkvæmd víxilafsagnar.
2.     Reglur 13. kapítula tékkalaga, nr. 94/1933, um framkvæmd tékkaafsagnar.
3.     Reglur VIII. kafla laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, þar sem fram kemur með hverjum hætti lögbókandi jafnt sem stefnuvottar þurfa að bera sig að við birtingu stefnu.
4.     Reglur 4. liðar VI. kafla erfðalaga, nr. 8/1962, um staðfestingu lögbókanda á erfðaskrám.
    Í ofangreindum lagaákvæðum er að finna ýmsar verklagsreglur sem leiða af séreðli viðkomandi gerða. Er óþarft að leitast við að móta reglur í þessu frumvarpi sem geta í heild tekið til þessara gerða. Að því leyti hins vegar, sem reglur frumvarpsins eru ítarlegri en framangreind lagaákvæði, kemur fram í niðurlagi 2. mgr. 2. gr. að reglum þess skuli beitt að auki. Á þetta t.d. við um skyldu lögbókanda til að varðveita samrit skjala, sbr. 11. gr. frumvarpsins, um heimildir hans til að láta af hendi ljósrit skjala og um þagnarskyldu, sbr. 13. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. 3. gr. kemur fram sú almenna regla að gerðir lögbókanda fari fram á starfsstöð hans. Þessi regla á eðlilega við ef óskað er til dæmis staðfestingar lögbókanda á skjali. Heimilað er þó að víkja frá þessari meginreglu í tveimur tilvikum. Annars vegar segir að það megi ef það telst nauðsynlegt vegna aðstæðna. Hér er til dæmis haft í huga að óskað kunni að
vera að lögbókandi staðfesti erfðagerning manns sem ófær er um að koma á fund hans af heilsufarsástæðum. Hins vegar má víkja frá meginreglu ákvæðisins ef það telst nauðsynlegt vegna eðlis málefnisins. Með þessu er til dæmis átt við útdrátt skuldabréfa sem óeðlilegt yrði að hafa fyrir að færa á skrifstofu lögbókanda. Á hið sama við ef óskað er vottunar lögbókanda á athöfn sem eftir eðli sínu getur ekki farið fram á skrifstofu hans, t.d. víxilafsagnir sem ákveðið er með öðrum lögum hvar megi eiga sér stað.
    Í 2. mgr. 3. gr. er mælt fyrir um að ríkið skuli sjá lögbókanda fyrir gerðabókum til afnota í störfum sínum. Er mælt fyrir um að þær bækur verði úr garði gerðar eins og dómsmálabækur, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 85/1936, en eðlilegt er að gera sömu kröfur í þessum efnum, enda gert ráð fyrir að lögbókandi færi ýmsar mikilsverðar ráðstafanir í gerðabók. Sérstaklega er tekið fram í niðurlagi ákvæðisins að það ráðuneyti, sem viðkomandi lögbókandi heyrir undir, eigi að löggilda gerðabækur hans. Er hér tekið tillit til að sýslumenn heyri undir dómsmálaráðuneytið, en þeir menn sem heimilað er að framkvæma lögbókandagerðir í 2. mgr. 1. gr. undir utanríkisráðuneytið.

Um 4. gr.


    Fyrri málsgrein ákvæðisins geymir almenna reglu um þær lögbókandagerðir sem einna algengastar eru í framkvæmd, en þar er um að ræða staðfestingu undirskriftar manns á skjali. Þetta ákvæði tekur einungis til þeirra tilvika þar sem undirskriftin er ein vottuð, en önnur atriði ekki, enda varða reglur 6. og eftir atvikum 9. gr. víðtækari staðfestingu. Í 1. mgr. 4. gr. er mælt fyrir um að sá sem biður um staðfestingu undirskriftar sinnar þurfi að sanna á sér deili fyrir lögbókanda og annað hvort að rita nafn sitt á skjalið að honum viðstöddum eða kannast þar við undirskrift sína sem áður hefur verið rituð á það. Það orðalag, að viðkomandi kannist við undirskrift sína, er notað í sama skilningi í reglum 40. og 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962 um staðfestingu erfðaskráa og orkar merking þess ekki tvímælis.
    Í 2. mgr. 4. gr. er að finna reglu sem tekur til óvenjulegra aðstæðna. Þess eru dæmi úr framkvæmd að ýmis stór atvinnufyrirtæki eða stofnanir þurfi oft á ári að leita lögbókandagerða vegna erlendra viðskipta. Eins og minnst er á í almennum athugasemdum hér að framan er lögbókandagerðum beitt talsvert meira erlendis en hér á landi til staðfestingar á undirskriftum manna undir viðskiptaskjöl. Í viðskiptum við erlenda aðila t.d. um lántökur eða kaup, sölu eða veðsetningu eigna, virðist jafnan ætlast til íslenskir viðsemjendur hlíti erlendum venjum um að skjöl af slíku tilefni verði staðfest
af lögbókanda. Þau fyrirtæki eða stofnanir, sem þetta snýr helst að hér á landi, hafa jafnan fjölmennar stjórnir sem þurfa að undirrita löggerninga sem þessa. Er augljóst óhagræði, bæði fyrir lögbókanda og viðkomandi menn, að hver og einn þurfi að vitja lögbókanda í þessu skyni. Er því lagt hér til að tekin verði upp að erlendri fyrirmynd heimild til að lögbókandi taki við rithandarsýnishornum frá mönnum sem telja ljóst að þeir eigi í vændum að þurfa margsinnis að leita staðfestingar hans í framtíðinni. Það skilyrði er þó sett fyrir beitingu þessarar heimildar að viðkomandi maður fari á fund lögbókanda, sanni á sér deili og undirriti yfirlýsingu í gerðabók lögbókanda um að hann óski eftir að undirskrift hans undir skjöl verði framvegis staðfest samkvæmt bréflegri beiðni þótt lögbókandi sé ekki viðstaddur undirritun þeirra. Undirritun undir yfirlýsingu sem þessa getur talist nægilegt rithandarsýnishorn í skilningi ákvæðisins. Að fullnægðum þessum skilyrðum yrði t.d. nægilegt að atvinnufyrirtæki eða stofnanir, sem hér eru einkum höfð í huga, sendi skjöl til lögbókanda til staðfestingar, ásamt bréflegri beiðni hér um, sem undirrituð yrði af öllum hlutaðeigandi. Er þá að sjálfsögðu áskilið að þeir hafi allir áður gefið umrædda yfirlýsingu fyrir lögbókanda. Lögbókanda væri þá nægilegt að bera undirskriftir saman við fyrirliggjandi rithandarsýnishorn í fórum sínum og staðfesta síðan undirskriftirnar ef hann telur þær samrýmast sýnishornunum. Lögbókandi yrði sérstaklega að geta þess í vottorði sínu á skjali að réttmæti undirskriftar hafi verið sannreynt með þessum hætti, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Í þessu sambandi ber að benda á að sá sem biður um að fá að neyta þessarar heimildar verður sjálfur að bera áhættu af henni. Þannig verður ekki ætlast til að lögbókandi búi yfir sérþekkingu til samanburðar undirskriftar við fyrirliggjandi rithandarsýnishorn.

Um 5. gr.


    Lögfest úrræði hafa almennt ekki verið fyrir hendi um þær aðstæður að maður geti ekki undirritað skjal vegna líkamlegrar vanheilsu sinnar. Við aðstöðu sem þessari hefur þó almennt verið brugðist í framkvæmd á þann hátt að viðkomandi maður handsali öðrum undirskrift sína í viðurvist votta, en sá ritar síðan nafn hins undir skjal. Þessi leið hefur þótt fremur þung í vöfum, en einkum hefur orðið til vandkvæða að engar fastar reglur hafa verið fyrir hendi um beitingu hennar. Auk þessa úrræðis hafa reglur erfðalaga nr. 8/1962 um undirritun og staðfestingu erfðaskráa verið skýrðar með þeim hætti að nægilegt sé að arfleiðandi, sem ekki getur undirritað erfðaskrá, lýsi því yfir í viðurvist lögbókanda eða tveggja arfleiðsluvotta að efni hennar samrýmist vilja hans. Fyrir þessu er þó ekki bein lagaheimild.
    Af framangreindum ástæðum er lagt til í 5. gr. frumvarpsins að lögfest verði sérstök regla sem tekur til þessara aðstæðna. Samkvæmt henni er nægilegt að maður, sem ekki getur ritað sjálfur undir skjal, lýsi því yfir við lögbókanda að það stafi af líkamlegri vanheilsu sinni og að efni skjalsins samrýmist ætlun hans, en lögbókandi ritar síðan vottorð um þetta á skjalið sem telst hafa sömu þýðingu skv. 3. málsl. ákvæðisins og undirskrift viðkomandi manns og vottun lögbókanda í senn.
    Í þessu ákvæði er ekki gert ráð fyrir að það þurfi að sanna með ótvíræðum hætti að viðkomandi geti ekki ritað nafn sitt á skjal vegna vanheilsu, en allt að einu er hér ætlast til að þessarar heimildar verði aðeins neytt þegar sérstaka nauðsyn ber til. Lögbókandi yrði við þessar aðstæður að ganga ótvírætt úr skugga um að efni skjals sé í samræmi við ætlun viðkomandi manns. Í vafatilvikum yrði eðlilegt að leita álits læknis eða annars sérfræðings um hvort óhætt sé að fullyrða að þessum skilmála sé fullnægt.
    Þessu ákvæði er ekki ætlað að hrófla á neinn hátt við lögmæti áðurgreindra úrræða við þessar aðstæður, t.d. undirritunar í skjóli handsalsyfirlýsingar.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. er að finna sérstakar reglur sem taka til staðfestingar lögbókanda á fleiri atriðum en undirskrift útgefanda skjals. Er hér gert ráð fyrir að slík staðfesting geti tekið annaðhvort til hæfis manns til að standa að efni skjals eða heimildar hans til ráðstöfunar á þeim hagsmunum sem efni skjalsins varðar. Staðfesta mætti bæði þessi atriði í senn, auk undirskriftar viðkomandi manns.
    Með hæfi í framangreindum skilningi er nánar tiltekið átt við persónulega eiginleika sem maður þarf að vera búinn til að geta staðið með lögmætum hætti að löggerningi. Þeir eiginleikar geta fyrst og fremst varðað fjárræði viðkomandi manns, en einnig fleira, t.d. andlegt heilsufar.
    Með heimild hér að framan er einkum átt við þau yfirráð sem viðkomandi þarf að hafa yfir viðkomandi hagsmunum. Staðfesting lögbókanda á heimild manns í þessum skilningi gæti þannig tekið til þess að fyrir liggi að sá hafi umboð frá öðrum til viðkomandi ráðstöfunar eða hann sé eigandi þeirrar eignar sem um ræðir. Eins á það hér undir að lögbókandi staðfesti að tiltekinn maður sé réttur fyrirsvarsmaður félags og hafi heimild til að ráðstafa hagsmunum þess.
    Framangreind atriði eru eðli málsins samkvæmt því marki brennd að ekki verður ætlast til að lögbókandi búi án frekari aðgerða yfir vissu um hæfi manns eða heimild til ráðstöfunar. Er því tekið fram í 6. gr. að hlutaðeigandi
verði að leggja þau sönnunargögn um þessi atriði fyrir lögbókanda sem hann telur þörf á til að geta orðið við beiðni um slíka staðfestingu. Sem dæmi af þessu má nefna að maður sanni eignarrétt sinn að fasteign með framvísun veðbókarvottorðs eða sanni fjárræði sitt með skilríkjum um aldur sinn og eftir atvikum nauðsynlegum gögnum til að sannreyna megi að hann hafi ekki verið sviptur fjárræði. Það er lagt á vald lögbókanda að meta hverra gagna þurfi að afla hverju sinni til að hann geti talið sannað að hæfi mannsins eða heimild nægi til viðkomandi ráðstöfunar. Telji hann framkomna sönnun ónóga er honum heimilt að neyta þeirra úrræða sem kveðið er á um í 14. gr. Lögbókanda ber að varðveita sönnunargögn sem honum eru færð við þessar aðstæður, sbr. 2. mgr. 11. gr.
    Sérstaklega er tekið fram í seinni málslið ákvæðisins að þess verði ekki krafist af lögbókanda að hann afli sjálfur sönnunargagna um heimild manns til ráðstöfunar eða leggi mat á hæfi manns til að standa að löggerningi, t.d. með því að kveða á um andlegt heilsufar hans.
    Fremur sjaldgæft er að lögbókandi þurfi að votta hæfi manna eða heimild með þeim hætti sem að framan er lýst. Reynir einkum á þetta í tengslum við skjöl sem ætluð eru til afnota erlendis þar sem staðfesting sem þessi er öllu algengari. Þó má benda á að í áðurnefndri reglu 22. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 er ráðgert að lögbókandi votti ekki eingöngu undirskrift manns undir skjal sem ætlað er til þinglýsingar, heldur einnig að viðkomandi sé fjárráða. Gagna um síðargreinda atriðið yrði að afla eftir reglum 6. gr. ef á reyndi.
    Sérstakar reglur um vottun lögbókanda á hæfi manna koma fram í 43. gr. erfðalaga nr. 8/1962, því meðal þeirra atriða, sem hann þarf að staðreyna við staðfestingu erfðaskrár, er að arfleiðandi fullnægi áskilnaði 34. gr. laganna um nægilegt andlegt heilbrigði til arfleiðslu. Samkvæmt þessum reglum kemur það í hlut lögbókandans sjálfs að meta hæfi arfleiðandans þótt hann geti leitað álits sérfræðinga í vafatilvikum. Vottun sem þessi er sérstaks eðlis og getur ekki komið til álita að gera þessa starfsskyldu lögbókanda almenna þannig að ætlast verði til af honum að hann meti hæfi manna við aðrar gerðir sínar. Regla 6. gr. frumvarpsins raskar hins vegar ekki umræddum reglum erfðalaga því tekið er fram í niðurlagi ákvæðisins að sérfyrirmæli annarra laga um skyldur lögbókanda í þessu sambandi haldist. Umræddar reglur erfðalaga munu þó vera eina dæmið af slíku.

Um 7. gr.


    Í 1. og 2. málsl. þessa ákvæðis er mælt fyrir um að lögbókandi eigi að rita vottorð um staðfestingu sína á skjöl og að þar skuli nákvæmlega tiltekið til hverra atriða staðfesting hans tekur. Með síðastgreindu atriði er átt við að lögbókandi eigi að tiltaka skýrlega í hverju staðfesting felst, en þar gæti einkum verið um eftirfarandi atriði að ræða:
1.     að staðfest sé undirritun manns undir skjal sem átt hefur sér stað að lögbókanda viðstöddum,
2.     að útgefandi skjals hafi kannast við undirskrift sína fyrir lögbókanda, en skjalið hafi áður verið undirritað,
3.     að undirritun á skjali sé staðfest samkvæmt sérstakri heimild í 2. mgr. 4. gr.,
4.     að sá sem skjal stafar frá hafi verið ófær um að undirrita það, en staðfesting hafi átt sér stað samkvæmt heimild í 5. gr.,
5.     að staðfesting taki til, auk undirritunar, heimildar og/eða hæfis þess sem stendur að skjali,
6.     að útgefandi skjals hafi unnið eið eða heit að sannleiksgildi efnis skjals, sbr. 9. gr.
    Sérstaklega er heimilað í 3. málsl. ákvæðisins að lögbókandi taki fram í staðfestingarvottorði sínu með hverjum hætti einstök atriði hafi verið sönnuð fyrir honum. Er hér haft í huga að lögbókandi geti t.d. tekið fram að útgefandi skjals hafi framvísað tilteknu sönnunargagni um heimild sína til að standa að ráðstöfun. Þessi fyrirmæli leggja ekki skyldu á lögbókanda í þessum efnum, heldur veita þau honum heimild sem honum er frjálst að nota ef hann telur það rétt fyrir varfærnis sakir. Lögbókanda ber skv. 6. gr. að meta gildi sönnunargagna, sem lögð eru fyrir hann í tengslum við staðfestingu, en ef annað yrði ekki tekið fram í vottorði hans mætti skilja það svo að hann hafi metið sönnunargildi gagnanna á þann veg að enginn vafi sé um viðkomandi atriði. Þótt aðstæðum yrði oftar en ekki háttað á síðastgreindan veg gæti allt að einu komið til þess að lögbókandi telji sér ekki fært að fullyrða án nokkurs fyrirvara um viðkomandi efni og væri þá varlegra að tiltaka í vottorði hver gögn hafi verið lögð fyrir hann sem hann byggir staðfestingu sína á.
    Í 4. málsl. 7. gr. er kveðið á um að lögbókanda beri að geta atriða í vottorði sínu sem hann telur að geti haft þýðingu síðar, ef meta þarf hvort útgefandi skjals hafi verið hæfur til að standa að því eða ef einhver sérstök atvik virðast blasa við sem síðar gætu orðið tilefni ágreinings um gildi ráðstöfunar. Samsvarandi regla kemur fram í 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962 þar
sem lýst er atriðum sem koma eiga fram í vottorði lögbókanda um staðfestingu erfðaskrár. Þau atriði, sem komið geta til álita í þessu sambandi, varða aðallega álitaefni um hæfi þess sem stendur að skjali, en hér er þó einnig ráðgert að fleiri álitaefni geti fengið umfjöllun í vottorði lögbókanda, eftir því sem aðstæður krefjast.
    Loks er tiltekið í niðurlagi 7. gr. að lögbókanda beri að tiltaka nákvæmlega hvar og hvenær staðfesting hans hefur átt sér stað. Með þessu er áréttað að ekki nægi að tiltaka að athöfn þessi hafi átt sér stað í ákveðnu sveitarfélagi á ákveðnum degi, heldur verður að greina nánar hvar þetta gerist og á hvaða tíma dags. Þessi nákvæmni er sjálfsögð, enda getur hún haft afgerandi þýðingu við síðari úrlausn um réttindi manna t.d. ef gagnstæð ráðstöfun hefur verið gerð á sama degi og máli skiptir að staðreyna hvor sé eldri. Það er tiltekið í lokamálslið ákvæðisins að stað- og tímasetningar skuli getið við undirskrift lögbókanda, en honum er auðvitað frjálst að tiltaka þessi atriði í upphafi vottorðs síns ef hann kýs það fremur. Ekki er ástæða til að lögbinda þann sjálfsagða áskilnað að lögbókandi riti nafn sitt undir vottorð.

Um 8. gr.


    Eins og nefnt hefur verið hér áður reynir nokkuð á staðfestingu lögbókanda á skjölum sem ætluð eru til afnota erlendis. Af því leiðir að lögbókanda eru færð skjöl í þessu skyni á erlendum tungumálum. Er algengt að ætlast sé til að lögbókandi staðfesti ekki eingöngu undirskrift undir slík skjöl heldur einnig fleiri atriði. Fráleitt verður ætlast til að lögbókandi standi að slíkri athöfn, nema honum sé fyllilega ljóst hvað felst í skjalinu. Af þeim sökum eru sett fyrirmæli í 8. gr. um að lögbókanda sé heimilt við þessar aðstæður að krefjast þýðingar löggilts skjalaþýðanda á skjalinu áður en til staðfestingar kemur. Slíkt væri þó óþarft ef lögbókandi teldi sig hafa nægilegt vald á viðkomandi tungumáli til að skilja efni skjalsins. Að sama skapi er kveðið á um það í 8. gr. að ef sá sem biður um staðfestingu lögbókanda á skjali ætlast til að vottorð hans verði á erlendu tungumáli, þá getur lögbókandi krafist þess að sá útvegi þýðingu á texta vottorðsins. Er hér miðað við að lögbókandi gefi viðkomandi upp þann texta vottorðs sem hann telur eiga við, en síðan yrði þýðing þess texta fengin áður en til staðfestingar kemur.

Um 9. gr.


    Í rétti annarra ríkja er víða gengið út frá því að staðfesting lögbókanda fari fram með þeim hætti að hann eiðfesti þann, sem að ráðstöfun stendur, um sannleiksgildi eða réttmæti þess sem fram kemur í efni skjals. Slíkar eiðfestar yfirlýsingar („sworn statements“) geta þjónað margvíslegum tilgangi. Getur bæði verið um að ræða skjallegar ráðstafanir, sem slíkur íburður er ekki hafður við hér á landi, t.d. veiting umboðs, en einnig geta komið hér til álita yfirlýsingar sem nota á í öðrum tilgangi, t.d. kröfulýsingar í þrotabú þar sem taka þarf eið af kröfuhafa um réttmæti upplýsinga hans. Er víða erlendis, einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum, lögð rík áhersla á að yfirlýsingar sem þessar séu eiðfestar þótt það fari fjarri að slík athöfn hafi nokkra þýðingu hér á landi. Í núgildandi lögum er hvergi að finna heimild fyrir að menn verði eiðfestir í þessu skyni, en vöntun þess getur hæglega leitt til réttarspjalla erlendis.
    Vegna þess sem að framan greinir er lagt til í 9. gr. að lögbókanda verði heimilt að láta útgefanda skjals vinna eið eða drengskaparheit að efni þess ef nauðsyn krefur vegna erlendra réttarreglna. Hér er ekki ætlast til að eiðfesting geti farið fram til annarra þarfa. Hliðstæða heimild er að finna í norskri löggjöf sem sett var af sömu ástæðum og hér greinir á undan.
    Um framkvæmd eiðvinningar koma fram nánari reglur í 9. gr., en samkvæmt þeim á lögbókandi að bóka helstu upplýsingar um efni viðkomandi skjals, t.d. frá hverjum það stafi, hvert meginefni þess sé og að hverjum það beinist. Að því búnu yrði unnin eiður eða drengskaparheit að sannleiksgildi þess sem fram kemur í skjalinu. Um skilyrði, undirbúning og frekari framkvæmd eiðvinningar er í 2. mgr. 9. gr. vísað til réttarfarsreglna um eiðvinning vitnis í almennu einkamáli, en þær reglur, sem einkum hafa þýðingu samkvæmt þessu, eru 127., 133. og 134. gr. laga nr. 85/1936.
    Tiltekið yrði sérstaklega í vottorði lögbókanda á skjali ef eiður hefur verið unninn að efni þess samkvæmt framansögðu.

Um 10. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum í greinargerð þessari má í grófum dráttum telja viðfangsefni lögbókanda ýmist snúa að staðfestingu skjala, en um það efni fjalla reglur 4. til 9. gr. frumvarpsins eða að staðfestingu á hvernig atburður eða athöfn hafi farið fram. Um þetta síðargreinda hlutverk lögbókanda fjallar regla 10. gr. Þeir atburðir, sem hér um ræðir, snúa einkum að staðfestingu á framkvæmd útdráttar skuldabréfa eða vinningsmiða í happdrættum, en að auki falla hér undir tékka- og víxilafsagnir
og stefnubirtingar. Staðfesting á athöfn að hætti 10. gr. er þó engan veginn bundin því að um framangreind atriði sé að tefla. Umrædd atriði eiga það mörg sammerkt að í lagareglum eða samkvæmt framkvæmdarvenjum um þau er gengið út frá að lögbókandi votti ekki aðeins að atburður hafi farið fram með tilteknum hætti, heldur einnig að hann framkvæmi sjálfur viðkomandi athöfn, t.d. víxilafsögn. Slík framkvæmdarskylda lögbókanda er ekki ráðgerð í 10. gr. heldur eingöngu vottun hans á atburði. Samkvæmt því yrði ekki unnt að krefjast athafnar af hendi lögbókanda, nema samkvæmt sérstökum lagafyrirmælum sem áður hafa verið talin.
    Í 1. mgr. 10. gr. er tiltekið að kveðja skuli lögbókanda til að votta athöfn með hæfilegum fyrirvara. Þessi ummæli taka mið af því að vottun sem þessi getur vegna eðlis síns sjaldnast átt sér stað á starfsstöð lögbókanda og yrði því viðkomandi athöfn að fara fram á öðrum stað innan umdæmis hans, sbr. áðurgreindar athugasemdir við 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. Með þessari reglu er eingöngu verið að undirstrika að ekki megi ætlast til að lögbókandi fari án fyrirvara út fyrir starfsstöð sína til að staðfesta athöfn ef aðrar annir hans leyfa það ekki.
    Í 2. mgr. 10. gr. er kveðið á um að lögbókandi eigi að færa þau atriði í gerðabók sína sem máli skipta um viðkomandi athöfn. Yrði þannig t.d. fært til bókar hver skuldabréf hafi verið dregin út, hverjir vinningsmiðar hafi verið í happdrætti, hvaða víxill hafi verið afsagður o.s.frv. Felst í þessu að ef lögbókandagerð tekur til annars en staðfestingar skjals, sem rita má vottorð á, þá verður að færa meginatriði um gerðina til bókar. Um efni bókunar lögbókanda að öðru leyti er vísað í ákvæðinu til 7. gr. Með þessari tilvísun er skírskotað til þess að bóka þurfi þau atriði við þessar aðstæður sem að öðrum kosti hefðu komið fram í árituðu vottorði lögbókanda á skjali, en um þau má vísa til áðurgreindra athugasemda um 7. gr. frumvarpsins. Tiltekið er í niðurlagi 2. mgr. að sá sem biður um lögbókandagerðina skuli undirrita bókun í gerðabók ásamt lögbókanda.
    Í 3. mgr. 10. gr. er sett sérstök heimild til að lögbókandi geti fært löggerning í gerðabók sína samkvæmt fyrirsögn þess sem að honum stendur í stað þess að fá í hendur skjalfest eintak löggernings til staðfestingar eftir almennum reglum 4. til 9. gr. frumvarpsins. Staðfesting á gerningi við þessar aðstæður er eftir eðli sínu staðfesting atburðar sem efnislega á heima með öðrum reglum 10. gr. Þessi regla er sett til að mæta sérstökum og brýnum þörfum ef aðstæður leyfa ekki að löggerningur verði skjalfestur og staðfestur með öðrum hætti. Getur þessi heimild til dæmis átt við um skráningu arfleiðslu eftir fyrirsögn manns sem skammt á eftir ólifað. Hér er gengið út frá að ekki
verði gripið til aðgerðar sem þessarar, nema aðrar leiðir séu ófærar. Um frekari framkvæmd lögbókandagerðar sem þessarar er í ákvæðinu vísað til reglna 4. til 9. gr.

Um 11. gr.


    Í 1. mgr. 11. gr. er sett regla um að afhenda þurfi lögbókanda samrit allra skjala, sem honum er ætlað að staðfesta. Á slíkum samritum eiga samkvæmt ákvæðinu að koma fram undirskriftir þeirra, sem gefa viðkomandi skjöl út, auk þess að vottorð lögbókanda yrði fært á viðkomandi eintak og það undirritað af honum. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. á lögbókandi jafnframt að fá til varðveislu eintök af þeim gögnum, sem honum eru sýnd til sönnunar að hætti 6. gr., auk þýðinga á skjölum sem kann að hafa verið aflað skv. 8. gr.
    Með reglum 11. gr. er stefnt að því að lögbókandi varðveiti eintök allra skjala, sem hann staðfestir, ásamt þeim fylgigögnum sem við eiga hverju sinni. Tilgangur þessarar reglu er að tryggja í senn að þeir sem að gerningi hafa staðið geti leitað eintaks af skjali sem glatast úr vörslum þeirra, sbr. 12. gr., og einnig að fyrir liggi tryggilega hver skjöl lögbókandi hefur ljáð atbeina sinn til að staðfesta og eftir atvikum á hverjum grundvelli hann hafi tekið ákvörðun um það. Síðarnefnda atriðið getur haft umtalsvert sönnunargildi, ef síðar reynir á viðkomandi ráðstöfun, en jafnframt er hér um nauðsynlegt öryggisatriði að ræða fyrir lögbókanda ef vafi rís síðar um staðfestingu hans. Ljóst er að varðveisluskylda með þessum hætti getur orðið til óhagræðis við einfaldari lögbókandagerðir, en telja verður framangreind viðhorf réttlæta það. Í niðurlagi 2. mgr. er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um tilhögun varðveislu, en þar mætti meðal annars setja reglur um tímabundna varðveisluskyldu skjala sem hafa takmarkaða þýðingu.
    Í framkvæmd hefur til þessa ekki tíðkast að lögbókandi varðveiti önnur skjöl sem hann hefur vottað eða staðfest en erfðagerninga. Telja verður þá framkvæmd óæskilega, ekki síst ef hvorki hefur verið gætt að því að færa upplýsingar um staðfestingu til bókar né að varðveita eintök staðfestra skjala, enda vantar þá með öllu vitneskju um framkvæmd viðkomandi gerða.

Um 12. gr.


    Í fyrri málsgrein 12. gr. er kveðið á um að staðfest endurrit eða ljósrit skjals úr vörslum lögbókanda teljist hafa sömu þýðingu og frumrit þess. Frá þessu er þó gerð sú undantekning að reglan taki ekki til viðskiptabréfa (verðbréfa), enda gæti hún ekki staðist varðandi slík skjöl þar sem sérreglur gilda um lagalega þýðingu frumrita þeirra. Í síðari málsgrein 12. gr. er sett
regla um að endurrit bókunar í gerðabók lögbókanda, sem felur í sér löggerning manns, teljist jafngilt skjalfestu eintaki af viðkomandi ráðstöfun. Þessi sjálfsagða regla tekur einkum mið af lögbókandagerðum sem fara fram með stoð í 3. mgr. 10. gr.

Um 13. gr.


    Þótt kveðið sé svo á í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins að lögbókandagerð teljist opinber staðfesting leiðir ekki af þeirri reglu að viðkomandi ráðstöfun teljist opinber í þeirri merkingu að hver sem vill geti fengið vitneskju um hana eða eintak af henni. Lögbókandagerðir varða jafnan persónulegar ráðstafanir eða einkahagi manna sem þeir eiga réttmætt tilkall til að gætt verði leyndar um. Í 13. gr. eru settar reglur til að tryggja hagsmuni þeirra sem leitað hafa atbeina lögbókanda til staðfestingar á ráðstöfun. Engar settar reglur gilda nú um þessi efni aðrar en þær sem leiddar verða af almennri þagnarskyldu starfsmanna ríkisins. Hér er leitast við að bæta úr brýnni þörf ákveðinna reglna í þessu sambandi, en hliðsjón er höfð af venjum sem myndast hafa í framkvæmd.
    Í 1. mgr. er lagt bann við að lögbókandi láti af hendi eintak af skjali, sem hann varðveitir, nema með samþykki þess sem beðið hefur um viðkomandi gerð hans. Frá þessu er þó vikið í síðari málslið 1. mgr. þar sem heimilað er að láta eintak skjals af hendi að viðkomandi manni látnum, ef sá, sem um slíkt biður, getur sýnt fram á að efni skjalsins kunni að hafa þýðingu fyrir réttindi hans. Þessi undantekning tekur einkum mið af réttarstöðu manna gagnvart dánarráðstöfunum sem lögbókandi hefur staðfest. Að öðru leyti leiðir af þessari reglu að lögbókanda ber skilyrðislaust að neita að láta af hendi til utanaðkomandi manna eintök skjala, sem hann varðveitir, auk þess að ákvæði 3. mgr. girða fyrir að hann megi upplýsa hvort hann varðveiti eintak skjals, eins og nánar er lýst hér á eftir.
    Lögbókandagerð getur við vissar aðstæður farið fram til að tryggja að ekki verði dregið í efa að atburður eða athöfn hafi gerst með ákveðnum hætti. Þetta á til dæmis við ef gerðin snýr að útdrætti skuldabréfa eða happdrættismiða. Þegar svo stendur á væri fullkomin þagnarskylda lögbókanda í andstöðu við tilgang gerðarinnar, enda beinist hún að því að taka af tvímæli um réttindi annarra en þess sem um gerðina hefur beðið. Af þessum ástæðum er sett sérregla um heimild til veitingar upplýsinga í 2. mgr. 13. gr. sem tekur til þessara aðstæðna. Samkvæmt henni má lögbókandi afhenda hverjum sem telur sig hafa hagsmuna að gæta, endurrit úr gerðabók eða eftir atvikum samrit skjals sem varðar viðkomandi athöfn. Lögbókanda er hér falið að meta hvort skilyrðum
sé fullnægt til upplýsingagjafar. Ætla verður að þegar komið er út fyrir vettvang þeirra dæma, sem hér að framan voru nefnd, verði tilhneiging til að skýra þessa undantekningarheimild þröngt í framkvæmd.
    Í 3. mgr. kemur fram árétting á þagnarskyldu lögbókanda sem þó verður nú þegar leidd af almennri reglu um þagnarskyldu ríkisstarfsmanna í 32. gr. laga nr. 38/1954. Er rétt að taka þessa reglu sérstaklega upp hér, enda koma fram undantekningar frá þagnarskyldu lögbókanda sem snúa beinlínis að sérreglum 1. og 2. mgr. 13. gr. um heimildir hans til upplýsingagjafar. Umræddar undantekningar miðast við, eins og orðalag ákvæðisins ber með sér, að lögbókanda sé rétt að veita munnlegar upplýsingar við sömu aðstæður og honum teldist heimilt að láta af hendi samrit skjals eða endurrit gerðar samkvæmt reglum fyrri málsgreina 13. gr.

Um 14. gr.


    Í 14. gr. er að finna reglur um viðbrögð lögbókanda ef hann telur tormerki á að standa að umbeðinni gerð. Þeim atvikum, sem gætu staðið í vegi fyrir lögbókandagerð er lýst með þeim hætti í ákvæðinu að um það geti verið að ræða að lögbókandi telji gerðina ekki munu þjóna tilgangi eða að skilyrðum laga fyrir henni sé ekki fullnægt. Fyrra atriðið, að gerð þjóni ekki tilgangi, getur tekið til margvíslegra aðstæðna. Má sem dæmi þess nefna að beðist sé lögbókandagerðar til að votta skjöl sem engar lagareglur eða eðli málsins krefjast að séu vottuð, til að votta löggerning sem bersýnilega yrði metinn marklaus eða til að afsegja víxil sem með gildum hætti hefur verið áritaður um að afsögn sé óþörf. Síðara atriðið, að skilyrðum laga fyrir gerð sé ófullnægt, gæti t.d. tekið til þess þegar nægileg sönnunargögn liggja ekki fyrir til staðfestingar skv. 6. gr., synjað er að afla þýðinga skv. 8. gr. eða skilyrði víxillaga til afsagnar víxils eru ekki fyrir hendi.
    Þegar svo stendur á, sem að framan greinir, á lögbókandi tveggja kosta völ samkvæmt reglum 14. gr. Hann getur annars vegar farið þá leið sem mælt er fyrir um í fyrri málsgrein ákvæðisins og synjað um gerðina. Ef sú leið er farin á sá sem um gerðina biður rétt til að krefjast skriflegs rökstuðnings lögbókanda fyrir þeirri ákvörðun. Hins vegar getur lögbókandi ákveðið að gerðin fari fram þrátt fyrir fyrirliggjandi annmarka, en í því tilviki verður að gæta þess sérstaklega að fram komi rækileg frásögn af viðkomandi annmörkum í vottorði lögbókanda, eins og fram kemur í niðurlagi seinni málsgreinar 14. gr., sbr. einnig heimild til athugasemda í vottorði skv. 4. málsl. 7. gr.

Um 15. gr.


    Í fyrri málsgrein 15. gr. er kveðið á um að lögin öðlist þegar gildi ef frumvarp þetta nær fram að ganga. Ástæða er til að benda á að reglur frumvarpsins tækju upp frá því til þeirra atriða sem snúa að þegar framkvæmdum lögbókandagerðum og reynt gæti á. Þetta á einkum við um reglur 13. gr. um leyndar og þagnarskyldu.
    Í 2. mgr. 15. gr. er tekið fram að þótt lögin öðlist þegar gildi standi eftir sem áður óhaggaðar reglur laga nr. 74/1972 um það hverjir fari með lögbókandagerðir og er þar gengið út frá að svo verði, þar til þau lög falla úr gildi af öðrum sökum. Það er tekið fram að sýslumenn og sendimenn ríkisins erlendis fari þó með þessar gerðir auk þeirra sem heimild hafa til slíks samkvæmt reglum framangreindra laga. Varðandi sýslumenn hafa þessi fyrirmæli ekki sjálfstæða þýðingu, enda eru þeir meðal núverandi lögbókenda samkvæmt lögum nr. 74/1972. Heimild sendimanna ríkisins erlendis til lögbókandagerða, sem nú er að finna í 15. gr. laga nr. 39/1971, á að falla niður skv. 4. lið 16. gr. frumvarpsins, þannig að regla 2. mgr. 1. gr. yrði frá þeim tíma heimild þeirra manna til lögbókandagerða.

Um 16. gr.


    Í þessu ákvæði frumvarpsins er kveðið á um lagafyrirmæli sem falla niður ef það verður að lögum.
    Er þannig í 1. lið mælt fyrir um brottfall opins bréfs 8. janúar 1823, en einu fyrirmælin, sem nú standa eftir af upphaflegu efni þess, snúa að lögbókandagerðum og samþýðast ekki reglum þessa frumvarps.
    Í 2. lið 16. gr. er mælt fyrir um brottfall fyrirmæla í 2. mgr. 33. gr. laga nr. 85/1936, en þetta er nauðsynlegt vegna þeirrar frambúðarskipunar lögbókandagerða sem ráðgerð er í fyrirmælum 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í 3. lið 16. gr. er mælt fyrir um brottfall tveggja ákvæða í þeim reglum erfðalaga nr. 8/1962 sem taka til staðfestingar erfðaskráa með lögbókandagerðum. Fyrra ákvæðið, sem falla á brott, er regla 3. mgr. 41. gr. um hæfi lögbókanda til að framkvæma gerð, en það ákvæði er óþarft vegna reglu 3. mgr. 1. gr. þessa frumvarps. Að öðru leyti varðar ákvæðið hæfi „notarialvotta“, sem eftirleiðis verða óþarfir við lögbókandagerðir, sbr. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Seinna ákvæði erfðalaga, sem falla á brott, 2. mgr. 43. gr., varðar gildi samrits erfðaskrár sem lögbókandi hefur staðfest og varðveitir, en sú regla er framvegis óþörf vegna ákvæða 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti er rétt að geta þess að ástæðulaust þykir að fella niður reglu 3. mgr. 43. gr. erfðalaga þar sem mælt er fyrir um heimild
dómsmálaráðherra til að setja reglugerð um umsýslu lögbókanda við staðfestingu erfðaskráa. Slík reglugerð hefur að vísu aldrei verið sett þótt nú séu liðin meira en 25 ár frá gildistöku erfðalaga og reglur þessa frumvarps taka til margra atriða sem hugsanlega ættu að koma fram í slíkum fyrirmælum. Hins vegar eru viss atriði, sem eru sérstaks eðlis við staðfestingu lögbókanda á erfðaskrá, og er því rétt að heimild þessi haldist.
    Í 4. tölul. 16. gr. er kveðið á um brottfall 15. gr. laga nr. 39/1971, en vísa má til athugasemda um 2. mgr. 1. gr. og 15. gr. frumvarpsins um þetta efni.