Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 103 . mál.


Ed.

485. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989.

Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar um nokkurt skeið og fékk til fundar við sig Halldór Árnason, skrifstofustjóra Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, Þórð Friðjónsson, formann stjórnar Framkvæmdasjóðs, Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, Gunnar Hilmarsson, formann stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, Bjarna Braga Jónsson, Yngva Örn Kristinsson og Jakob Gunnarsson frá Seðlabanka, Halldór Jónatansson, forstjóra Landsvirkjunar, Ingólf Aðalsteinsson og Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja, Húnboga Þorsteinsson, skrifstofustjóra félagsmálaráðuneytisins, Magnús E. Guðjónsson frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Snæbjörn Jónasson og Helga Hallgrímsson frá Vegagerð ríkisins, Jónas Bjarnason, Arinbjörn Kolbeinsson og Björn Pétursson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Leif Kr. Jóhannesson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Benedikt Jónsson og Gunnar Guðbjartsson frá Lífeyrissjóði bænda, Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, Hermann Guðjónsson vita- og hafnamálastjóra, Eyþór Elíasson frá Hafnabótasjóði, Gunnar H. Hálfdanarson og Kjartan Gunnarsson frá Féfangi, Kristján Óskarsson frá Glitni, Þórleif Jónsson frá Landssambandi dráttarbrauta og skipasmiðja, Björn Magnússon frá Félagsheimilasjóði, Guðbrand Gíslason frá Kvikmyndasjóði, Þorvald Alfonsson og Guðmund Tómasson frá Iðnþróunarsjóði, Braga Hannesson frá Iðnlánasjóði, Birgi Þorgilsson frá Ferðamálaráði, Hólmfríði Árnadóttur og Snorra Tómasson frá Ferðamálasjóði, Hrafn Magnússon og Þórarin V. Þórarinsson frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, Gunnlaug Sigmundsson og Jón A. Kristjánsson frá Þróunarfélagi Íslands, Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra og Hörð Vilhjálmsson, fjármálastjóra Ríkisútvarpsins, Ingu Jónu Þórðardóttur, formann útvarpsráðs, Má Elísson fiskimálastjóra, Pál Hersteinsson veiðistjóra, Guðmund Karlsson og Magnús Jónsson frá Herjólfi hf. Vestmannaeyjum, Sigurð Guðmundsson, Hilmar Þórisson og Percy Stefánsson frá
Húsnæðisstofnun ríkisins, Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, og Atla Frey Guðmundsson, deildarstjóra í viðskiptaráðuneytinu.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim breytingartillögum sem meiri hl. nefndarinnar hefur orðið sammála um að gera.
    Samkvæmt tillögunum hækka lántökuheimildir frumvarpsins um 7.940 millj. kr. Fjórar meginástæður liggja að baki þessari hækkun.
    Í fyrsta lagi er lagt til að lántökuheimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hækki um 5.735 millj. kr. og verði samtals 10.435 millj. kr. Í 35. gr. frumvarpsins var farið fram á heimild fyrir fjármálaráðherra að taka 3.400 millj. kr. lán á árinu 1988 til að fjármagna greiðsluhalla ríkissjóðs á árinu 1988 og gera upp skammtímaskuld við Seðlabanka Íslands vegna greiðsluhalla ríkissjóðs á árinu 1987. Síðar kom í ljós að yfirdráttur í Seðlabanka Íslands yrði mun meiri, einkum vegna verulega minna tekjuinnstreymis í ríkissjóð en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bráðabirgðauppgjör sýndi að yfirdráttarskuld við Seðlabankann stefndi í að verða um 8.300 millj. kr. í árslok 1988. Með lögum nr. 94 frá 23. desember 1988 var aflað heimildar til 6.500 millj. kr. lántöku í þessu skyni. Með því að fullnýta heimildir ríkissjóðs til ádráttar á veltilánum erlendis reyndist unnt að greiða niður skuld ríkissjóðs við Seðlabanka um 3.300 millj. kr. Eftir stendur skammtímaskuld við Seðlabankann að fjárhæð 5.000 millj. kr. sem þarf að gera upp fyrir lok marsmánaðar 1989. Þessu til viðbótar er lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs vegna ársins 1989 5.435 millj. kr. sem er 735 millj. kr. hækkun frá frumvarpinu. Stafar sú hækkun af minni tekjuafgangi en frumvarp til fjárlaga gerði ráð fyrir og áhrifum gengisbreytingar krónunnar á árinu 1989. Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu 1989 verður því 10.435 millj. kr. Ráðgert er að afla 5.135 millj. kr. af þeirri fjárhæð á erlendum lánamarkaði og 5.300 millj. kr. innan lands.
    Í öðru lagi er lagt til að í lánsfjárlög 1989 komi heimildarákvæði fyrir 1.750 m.kr. lántöku fjárfestingarlánasjóða sem skiptist þannig: Fiskveiðasjóður 1.200 millj. kr., Iðnþróunarsjóður 150 millj. kr., Iðnlánasjóður 350 millj. kr. og Útflutningslánasjóður 50 millj. kr.
    Í lánsfjárlögum 1988 var sú stefna mörkuð að afnema ríkisábyrgð af lántökum opinberra fjárfestingarlánasjóða að undanskildum Framkvæmdasjóði, Byggðastofnun og byggingarsjóðum ríkisins. Af þeirri ástæðu voru engar lántökuheimildir þeim til handa í lánsfjárlögum 1988. Ekkert varð þó úr lagasetningu um afnám ríkisábyrgða og sjóðirnir hafa áfram ríkisábyrgðir á lántökum. Þó að núverandi ríkisstjórn hafi ekki fallið frá þeirri stefnu að
afnema ríkisábyrgðir á lántökum verða þær ekki afnumdar að sinni. Því er talið nauðsynlegt að taka inn í lánsfjárlög heimildarákvæði fyrir erlendum lántökum opinberra fjárfestingarlánasjóða.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar að fjárhæð 105 millj. kr. vegna gengisfellingar krónunnar í janúar og febrúar 1989 og annarra breytinga á verðlagsforsendum. Af þeirri fjárhæð eru 60 millj. kr. til Landsvirkjunar, 15 millj. kr. til ýmissa hitaveitna og 25 millj. kr. til Flóabátsins Baldurs hf.
    Í fjórða lagi eru nokkur erindi sem nefndinni hafa borist og lagt er til að tekin verði inn í frumvarpið. Hitaveita Suðureyrar fær lántökuheimild að fjárhæð 60 millj. kr. til fjárhagslegrar endurskipulagningar og er hún í samræmi við samkomulag fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og hreppsnefndar Suðureyrarhrepps frá 30. desember 1988. Einnig er lagt til að Hríseyjarhreppi verði heimiluð 35 millj. kr. lántaka til að kaupa notaða ferju sem mundi annast fólks- og vöruflutninga milli Hríseyjar, Grímseyjar og lands. Þá er lagt til að Byggðastofnun verði veitt viðbótarheimild til erlendrar lántöku að fjárhæð 200 millj. kr. vegna lánveitinga til viðgerða og endurbóta á skipum. Hér er ekki um að ræða nettóaukningu á erlendum lántökum heldur er verið að veita þessum lánveitingum um annan farveg en áður var ætlað. Loks er lagt til að Framleiðnisjóði verði heimiluð 60 millj. kr. lántaka sem varið verði til sérstakrar endurskipulagningar á fjárhag og rekstri loðdýrabúa. Er þetta í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til stuðnings loðdýraræktinni á árinu 1989. Samtals nema þessar heimildir 335 millj. kr.
    Þá er fallist á beiðni Byggðastofnunar um að stofnunin fái 150 millj. kr. af 500 millj. kr. lántöku sem Framkvæmdasjóði var ætlað að taka og endurlána fyrirtækjum í fiskeldi. Er það gert með hliðsjón af því að Byggðastofnun lánaði á árinu 1988 þriðjung af þeim 300 millj. kr. sem þáverandi ríkisstjórn heimilaði til að endurlána fyrirtækjum í fiskeldi.
    Að gerðum þessum breytingum eru heildarlántökur innan lands og erlendis á árinu 1989 áætlaðar 36.570 millj. kr. Þar af eru innlendar lántökur 15.750 millj. kr. og erlendar lántökur 20.820 millj. kr.
    Breytingar á öðrum kafla eru í samræmi við breytingar á fjárlagafrumvarpi 1989 í meðförum fjárveitinganefndar og Alþingis. Þar má nefna að framlag í ríkissjóð af bensíngjaldi og þungaskatti hækkar úr 600 millj. kr. í 680 millj. kr. og framlag til Félagsheimilasjóðs hækkar úr 15 millj. kr. í 21 millj. kr.
    Breytingar á þriðja kafla eru þær að 35. gr. verði felld niður. Sú grein fól í sér heimild til fjármálaráðherra fyrir
hönd ríkissjóðs til lántöku á árinu 1988, en eins og nefnt var að framan var þeirrar heimildar aflað með lögum nr. 94 frá 23. desember 1988 um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku á árinu 1988 o.fl. Þá er í 36. gr. leiðrétt heimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til lántöku innan lands á árinu 1988 umfram heimild í lánsfjárlögum 1988 til samræmis við raunverulegar lántökur ríkissjóðs á árinu 1988 sem eru samtals um 5.150 millj. kr.

Alþingi, 14. febr. 1989.



Eiður Guðnason,

Valgerður Sverrisdóttir,

Jóhann Einvarðsson.


form., frsm.

fundaskr.



Margrét Frímannsdóttir.





Fylgiskjal I.


— Tafla í Gutenberg —





Fylgiskjal II.


— Tafla í Gutenberg —