Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 277 . mál.


Sþ.

494. Tillaga til þingsályktunar



um aðfaranám til ökuprófs.

Flm.: Jóhanna Þorsteinsdóttir, Birna K. Lárusdóttir, Guðrún Agnarsdóttir,


Kristín Halldórsdóttir, Sigrún Helgadóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að koma á aðfaranámi til ökuprófs í 9. bekk grunnskóla.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur fræðsla um slysavarnir í umferð verið af mjög skornum skammti á unglingastigi grunnskóla. Fyrir liggja samt drög að námsefni í umferðarfræðslu og brýnt er að tryggja að hún komist í framkvæmd sem fyrst. Því er best borgið með sérstöku aðfaranámi ökuprófs í 9. bekk grunnskóla.
    Niðurstaða af bráðabirgðaskýrslu um slys á árinu 1988, sem Umferðarráð gerði, sýnir að óhöpp í umferðinni eru tíðust hjá aldurshópnum 17–20 ára. Af rúmlega 5000 próftökum á ári hverju eru um 3500 þeirra 17 ára.
    Með hliðsjón af því að í nágrannalöndum okkar er námstími til ökuprófs tvisvar til þrisvar sinnum lengri en hér á landi vaknar óneitanlega sú spurning hvort námið hér sé of stutt og þar sé ef til vill að leita skýringa á tíðum umferðarslysum í aldurshópnum 17–20 ára. Okkur ber að leita orsaka og ekki síður úrræða. Þá verður fyrst fyrir að líta til þeirrar fræðslu sem á að fylgja ökuprófi til þess að tryggja þá umferðarmenningu sem við öll viljum hafa. Mikil slysatíðni hjá ungum ökumönnum bendir til þess að þeir þurfi að læra af dýrkeyptri reynslu, ef til vill vegna ónógrar þjálfunar í akstri við misjafnar aðstæður eins og mjög oft skapast hér á landi.
    Eins og nú er háttað ökukennslu er ábyrgð ökukennara mikil. Þeim er beinlínis ætlað að koma öllum þáttum umferðarfræðslunnar að á mjög stuttum tíma. Þar er um að ræða þjálfun í akstri ökutækis ásamt mannlegum og huglægum þætti umferðarkennslunnar.
    Umferðarfræðsla einskorðast ekki við ökutæki á vegum í þéttbýli og dreifbýli. Hún tekur ekki síður til umferðar og öryggis samborgaranna og umgengni við vinnuvélar og ýmis þau ökutæki sem notuð eru utan vega.
    Varla getur það verið að ungt fólk eigi að vera verri ökumenn en þeir sem eldri eru. Ástæður gætu hins vegar verið þær að ekki er nógu mikið lagt upp úr þeim þætti umferðarfræðslu sem varðar ábyrgðartilfinningu og siðferðisvitund og mál að linni þeim hugsunarhætti sem virðist ríkja í fari margra í umferðinni.
    Greiðastur aðgangur að öllum ungmennum er í gegnum grunnskólann og eðlilegast að hann sinni þessum mikilvæga uppeldisþætti. Í níunda bekk grunnskóla er möguleiki á að koma til allra verðandi ökumanna fræðslu sem, eins og þessi þingsályktunartillaga felur í sér, yrði aðfaranám til ökuprófs. Þar gæti byrjað það nám sem lýtur að breyttum áhersluþáttum og að skipulagningu fræðslunnar, sem hlekks í daglega lífinu, markmiðum sem leiddu til fækkunar umferðaróhappa hjá ungum ökumönnum. Fjölmargt mætti þar til nefna til að stuðla að bættri umferðarmenningu, svo sem skylduþátt, þ.e. umferðarkennslu sem lýkur með prófi og lágmarkseinkunn. Um fleiri mögulegar aðgerðir til úrbóta í umferðarmenningu okkar vísast til greinargerðar með tillögu til þingsályktunar á þskj. 134 sem þingkonur Kvennalistans flytja einnig.
    Við skulum einnig vera minnug þess sem foreldrar og forráðamenn barnanna að fyrsta innræting umferðarmenningar gæti farið fram í okkar eigin ökutæki með börnin spennt í beltum í aftursætinu.
    Fyrsti flutningsmaður hefur flutt fyrirspurn til dómsmálaráðherra um reglugerð um ökuferilsskrá sem felur í sér mat á fullnaðarskírteini ökumanna. Slík ökuferilsskrá er að öllum líkindum það aðhaldskerfi sem ásamt aukinni fræðslu getur leitt til fækkunar umferðaróhappa og tryggt okkur aukið umferðaröryggi.