Ferill 281. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 281 . mál.


Nd.

499. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 30/1987, um orlof.

Flm.: Björn Grétar Sveinsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.



1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Launþegi á rétt til orlofslauna í samræmi við áunninn orlofsrétt á síðasta orlofsári.
    Orlofslaun reiknast við hverja launagreiðslu þannig að af heildarlaunum reiknast orlofslaunahlutfall viðkomandi starfsmanns að lágmarki 10,17% miðað við lágmarksorlof skv. 3. gr.
    Stéttarfélög og atvinnurekendur skulu semja við banka eða sparisjóði um varðveislu orlofslaunanna. Orlofslaunin skulu geymd á sérstökum reikningum launþega. Í slíkum samningum sé tryggt að sá aðili, sem tekur að sér varðveislu orlofslaunanna, geri upp áunnin orlofslaun, þ.e. höfuðstól og vexti, til launþega við upphaf orlofstöku. Skylt er að afhenda félagsmálaráðuneytinu þegar í stað eintak slíkra samninga svo og að tilkynna því slit þeirra.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er heimilt að greiða mánaðarkaupsmönnum orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur fara fram, enda sé meiri hluti launþega á vinnustað því samþykkur.
    Ef um það er samkomulag milli atvinnurekanda, stéttarfélags og launþega er atvinnurekandanum heimilt að varðveita orlofslaunin og skulu þau þá kauptryggð
með eftirfarandi hætti:
a.     Reiknuð orlofslaun fyrir hvert launatímabil skulu kauptryggð þannig að deilt skal í fjárhæð áunninna orlofslauna með dagvinnukaupi starfsmannsins. Orlofslaun fyrir hvert launatímabil reiknast samkvæmt þessu í dagvinnutímum og skulu þau skráð sérstaklega á launaseðil við hverja launagreiðslu, bæði samtala áunninna orlofstíma frá upphafi orlofsárs og orlofstímar vegna þess launatímabils.
b.     Launþega skulu greidd áunnin orlofslaun samkvæmt a-lið næsta virkan dag fyrir töku orlofs og verða orlofslaunin þá áunnir orlofstímar síðasta orlofsárs margfaldaðir með dagvinnutímakaupi starfsmannsins fyrsta dag orlofsins.
    Orlofslaun reiknast ekki af orlofslaunum.

2. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Ljúki ráðningartímabili launþega hjá atvinnurekanda á öðrum tíma en við lok orlofsárs skal atvinnurekandi, ef hann annast vörslu orlofslaunanna, greiða launþeganum áunnin orlofslaun hans samkvæmt reglum í a- og b-lið 5. mgr. 7. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þegar núgildandi orlofslög voru sett árið 1987 var gerð sú meginbreyting frá því sem áður hafði gilt að í stað þess að Póstgíróstofan annaðist innheimtu og vörslu orlofsfjár var gert ráð fyrir því sem aðalreglu að atvinnurekendur (launagreiðendur) varðveittu orlofslaunin sjálfir og greiddu þau kauptryggð eftir sérstökum reglum þegar launþegi færi í orlof. Í lögunum er hins vegar aðeins gert ráð fyrir því sem heimild að samið verði við banka og sparisjóði um vörslu þessa fjár. Sú hefur hins vegar orðið raunin að mjög mörg félög hafa gert slíka samninga. Samningar þessa eðlis voru til áður en núgildandi orlofslög voru sett og gáfu bæði að mati stéttarfélaga og atvinnurekenda góða raun.
    Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að varsla orlofslaunanna í banka eða sparisjóði sé meginregla og skylda, en því aðeins skuli orlofslaunin varðveitt hjá launagreiðanda að um það sé fullt samkomulag milli stéttarfélags, atvinnurekanda og starfsmanna þeirra sem hlut eiga að máli. Ástæðurnar fyrir
þessari breytingu eru fyrst og fremst þær að þannig eru orlofslaunin varðveitt með tryggum hætti og eru ávallt til reiðu þegar launþegi tekur orlof.
    Þá er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir að stéttarfélögin verði ávallt beinn aðili að ákvörðunum um varðveislu orlofslauna en á þann rétt skortir verulega í núgildandi lögum.
    Þá er enn fremur gerð sú breyting að því aðeins sé launþega greidd áunnin orlofslaun við ráðningarslit að samið hafi verið um að varsla þeirra sé hjá launagreiðanda.