Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 103 . mál.


Ed.

505. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp til lánsfjárlaga ber stefnu ríkisstjórnarinnar glöggt vitni. Stefnt er að auknum lántökum erlendis og vaxandi umsvifum opinberra aðila á innlendum lánamarkaði. Á hinn bóginn er ekki að sjá að í deiglunni séu neinar þær aðgerðir sem stöðvi hallarekstur fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Fyrirsjáanlegt er að lánsfjárþörfin er stórlega vanmetin í lánsfjáráætlun. Enginn vafi leikur á að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur sterka tilhneigingu til að ýta vöxtum upp á við.
    Frumvarp til lánsfjárlaga er seint á ferðinni að þessu sinni sem er afleiðing af þeirri óvissu er verið hefur í efnahagsmálum og farið vaxandi eftir að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist að völdum. Það er íhugunarefni nú við afgreiðslu þessa frumvarps hversu langt hefur verið farið fram úr lánsfjárlögum á síðastliðnum árum sem gefur vísbendingu um eðli þessarar umræðu.
    Á árinu 1986 var gert ráð fyrir erlendum lántökum að fjárhæð 7,5 milljarðar kr., en þær reyndust tæplega 12 milljarðar kr. eða 55–60% umfram áætlun. Árið 1987 voru sambærilegar tölur rúmlega 8 milljarðar kr., en lántökur reyndust ríflega 12 milljarðar kr. eða 50% umfram áætlun. Bráðabirgðatölur um erlendar lántökur til langs tíma á síðasta ári nema rúmlega 16 milljörðum kr., en gert var ráð fyrir rúmlega 9 milljörðum kr. við afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1988. Frávikið er um 80% umfram áætlun og skýrist að stórum hluta af erlendum lántökum til að fjármagna ríkissjóð. Þrátt fyrir þetta var vandi ríkissjóðs engan veginn leystur á síðastliðnu ári og hefði í reynd þurft að taka veruleg lán til viðbótar erlendis, en miðað við árslok nam yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabanka um 5 milljörðum kr. Sú skuld verður ekki fjármögnuð nema með erlendri lántöku sem beðið er um heimild fyrir í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Í reynd er því niðurstaða ársins 1988 sú að á síðastliðnu ári hefðu erlendar lántökur þurft að nema 21 milljarði kr. sem er ríflega 130% umfram það sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu lánsfjárlaga hér á Alþingi fyrir ári.
    Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að lánsfjárlög og lánsfjáráætlun
hafa engan veginn gefið rétta mynd af ástandinu á hverjum tíma. Það er því meira en vafasamt að ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú, um að erlendar lántökur muni nema 21 milljarði kr. á þessu ári, standist. Reynslan sýnir að þrjú síðastliðin ár hafa erlendar lántökur farið fram úr upphaflegum áætlunum sem nemur 50–130%. Engum ætti því að koma á óvart þótt í ljós komi að ári að erlendar lántökur á árinu 1989 nemi 30–40 milljörðum króna. Það er að vísu mikið frávik en engan veginn ólíklegt miðað við það ástand í efnahags- og atvinnumálum sem nú er í landinu. Þar kemur hvort tveggja til almenn tilhneiging ríkisstjórna til að fegra lánsfjáráætlun og þær sérstöku aðstæður nú þegar útflutningsatvinnuvegirnir eru látnir ganga fyrir erlendu lánsfé og gengið er á eigið fé fyrirtækjanna. Loks er vafalaust að ríkissjóður verður rekinn með verulegum halla þrátt fyrir nýju skattálögurnar og viðskiptahallann sem Seðlabankinn telur að verði 11 milljarðar króna. Þetta gerist á sama tíma og fyrirsjáanlegt er að lífskjör muni halda áfram að versna en atvinnuleysi hefur verið meira síðastliðna mánuði en um árabil eða jafnvel áratugi.
    Ríkisstjórnin hefur verið stórtæk í lántökum á erlendum markaði og ekki sýnilegt að þar verði neitt lát á. Rétt er að rifja upp að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 voru verulegar skattahækkanir samþykktar sem höfðu það m.a. að markmiði að raunvextir lækkuðu með því að dregið yrði úr lánsfjárþörf ríkissjóðs. En allt fór það á annan og verri veg. Fjármál ríkisins fóru úr böndunum í höndum tveggja fjármálaráðherra og niðurstaðan varð sú að ríkissjóður var rekinn með ríflega 7 milljarða króna halla sem fjármagnaður er með erlendum lántökum. Sé reiknað með 7% raunvöxtum verður vaxtakostnaðurinn um hálfur milljarður kr. á ári og er það lýsandi fyrir þá bagga sem nú er verið að binda þjóðinni – lýsandi fyrir afleiðingar þeirrar óstjórnar sem Íslendingar búa nú við og felst annars vegar í því að þjóðartekjurnar dragast saman vegna rangrar stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum. Hins vegar er reynt að fylla upp í ginnungagap ríkissjóðs með síaukinni skattheimtu sem ekki skilar sér í auknum tekjum af því að skattþyngingin magnar niðursveifluna í atvinnulífinu og rýrir þannig tekjustofna ríkissjóðs.
    Í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að 15,5 milljarðar króna verði teknir að láni innan lands af ríkissjóði og öðrum opinberum aðilum. Þar munar mest um skuldabréfakaup Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna sem samkvæmt lánsfjáráætlun munu nema ríflega 8,8 milljörðum króna. Um síðastliðin áramót voru 10 þús. lánsumsóknir hjá sjóðunum og gert ráð fyrir að afgreiða 3500–4000 umsóknir en sjóðunum berast árlega 3600 umsóknir. Gert er ráð fyrir sölu á
spariskírteinum ríkissjóðs fyrir allt að 5,3 milljörðum króna. Þessi lánsfjáröflun er háð mikilli óvissu. Aðeins hafa selst spariskírteini fyrir ríflega 300 millj. kr. frá áramótum á sama tíma og spariskírteini hafa verið innleyst fyrir 1200 millj. kr., sbr. frétt í Morgunblaðinu 16. þessa mánaðar. Þar kemur enn fremur fram að eftirspurn er dræm hjá verðbréfasölum eftir spariskírteinum ríkissjóðs en hins vegar seljist banka- og sjóðabréf vel. Markaðurinn virðist ekki taka við verðtryggðum bréfum með minna en 8% vöxtum, en spariskírteini ríkissjóðs, sem gefin hafa verið út á þessu ári, bera 6,8% og 7% vexti. Nú stendur upp á ríkisstjórnina að skýra fyrir almenningi hvenær og hvernig hún ætli að efna með raunhæfum hætti fyrirheitið um lækkun raunvaxta um 3% þannig að vextir af spariskírteinum ríkissjóðs, sem mynda grundvöll annarra vaxta, verði 5%.
    Ekki leynir sér að í frumvarpi til lánsfjárlaga og í lánsfjáráætlun er vanáætlað fyrir verulegum fjárhæðum svo skiptir milljörðum króna og taka verður að láni erlendis. Þar ber fyrst að nefna Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, en það fé, sem frystideildin hefur til ráðstöfunar, mun ganga til þurrðar í apríl eða maí og ekki er sýnilegt að ríkisstjórnin hafi neina tilburði til að bæta rekstrarstöðu sjávarútvegsins með almennum aðgerðum. Þegar kemur fram á árið mun það valda vaxandi erfiðleikum í öðrum útflutningsgreinum og hjá fyrirtækjum í samkeppnisiðnaði. Sjávarútvegsráðherra hefur skrifað Byggðastofnun bréf þar sem vakin er athygli á vanda smábátaútgerðar en talið er að það þurfi um 500 millj. kr. til að leysa vanda hennar sem ekki er gert ráð fyrir í lánsfjáráætlun. Síðast en ekki síst má nefna að forsætisráðherra hefur beint því til Byggðastofnunar að koma til aðstoðar í þeim byggðarlögum þar sem atvinnuleysi er skollið á eða vofir yfir af því að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina telur fyrirtækin ekki á vetur setjandi enda gengur ráðstöfunarfé hans mjög til þurrðar. Ekki þurfa menn að vera giska kunnugir með ströndinni til að vita að hér er ekki verið að tala um neinar smáupphæðir.
    Eins og hér hefur komið fram stefnir í mikla spennu á innlenda lánamarkaðnum sem fyrst og fremst er tilkomin af óseðjandi fjárþörf ríkissjóðs og annarra opinberra aðila. Samtímis hafa útflutningsatvinnuvegirnir verið reknir með verulegum halla sem auðvitað kallar á aukna lánsfjárþörf. Ekki bætir svo úr skák að grundvelli verðtryggingar hefur verið breytt, eignarskattar hafa verið hækkaðir og einstakir ráðherrar og ríkisstjórnin í heild hafa lýst yfir að vaxtatekjur almennings verði skattlagðar. Allt þetta hefur valdið umróti og óvissu og stuðlar þannig að hækkun vaxta.
    Minni hl. nefndarinnar leggur áherslu á mikilvægi þess að
rétta við útflutningsatvinnuvegina og ná jöfnuði í viðskiptunum við útlönd sem hvort tveggja er forsenda þess að stöðugleiki náist á ný í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Til þess að ná fram þessum sjálfsögðu markmiðum í efnahagsmálum er nauðsynlegt að raunvextir lækki, kippa verður til baka þeim breytingum sem gerðar voru á skattalögunum á jólaföstu og skrá gengi krónunnar í samræmi við raunveruleikann. Minni hl. minnir á að nú eru við völd sömu flokkar og lögfestu lánskjaravísitöluna á sínum tíma. Reynslan hefur sýnt að það hefði verið skynsamlegt í upphafi að ákveða að vextir skyldu vera óbreytanlegir á verðtryggðum lánum til langs tíma. Nú er hins vegar búið að raska grunni lánskjaravísitölunnar einu sinni sem virðist ætla að leiða til langvinnra málaferla. Ekki er við öðru að búast en að lánveitendur og kaupendur verðbréfa muni krefjast hærri vaxta í framhaldi af þessari aðgerð til að vega á móti þeirri óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað um grundvöll verðtryggingarinnar.
    Meiri hl. nefndarinnar flytur breytingartillögur um að lánsheimildir til Fiskveiðasjóðs, Iðnþróunarsjóðs, Iðnlánasjóðs og Útflutningslánasjóðs séu teknar inn í I. kaflann, en við afgreiðslu síðustu lánsfjárlaga markaði ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar þá stefnu að afnema bæri ríkisábyrgðir af skuldbindingum opinberra atvinnuvegasjóða. Markmiðið var að auka ábyrgð þeirra sem reka sjóðina og jafna samkeppnisstöðuna gagnvart öðrum lánastofnunum. Þannig átti m.a. að tryggja að sjóðirnir gættu aðhalds í útlánum og gerðu nægilegar arðsemiskröfur til þeirra framkvæmda sem lánað var til. Með því að meiri hl. leggur nú til að sjóðirnir verði aftur teknir inn í lánsfjárlögin vekur það spurninguna um hver sé afstaða ríkisstjórnarinnar til þess hvort ríkisábyrgð á fjárfestingarlánasjóðunum skuli haldast eða ekki.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skerða framlög til vegagerðar, sbr. ákvæði laga nr. 19/1986, um fjáröflun til vegagerðar, um 680 millj. kr. af tekjum af bensíngjaldi og þungaskatti og skal féð renna í ríkissjóð. Ef meiri hluti Alþingis nær þessu fram er stigið óheillaskref þar sem samkomulagið um álagningu bensíngjalds og þungaskatts var á sínum tíma bundið því skilyrði að það rynni heilt og óskipt til vegagerðar. Það var m.a. rökstutt með því gagnvart dreifbýlinu að öruggar og greiðar samgöngur milli héraða og landsfjórðunga væru forsenda heilbrigðrar byggðastefnu. Á höfuðborgarsvæðinu eru ýmsar fjárfrekar framkvæmdir orðnar mjög aðkallandi vegna slysahættu og vaxandi umferðar.
    Að öðru leyti verður fjallað um einstakar greinar frumvarpsins í framsögu með nefndaráliti þessu.


Alþingi, 17. febr. 1989.



Halldór Blöndal,

Júlíus Sólnes,

Sólveig Pétursdóttir.


frsm.

með fyrirvara.