Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 310 . mál.


Nd.

571. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Hreggviður Jónsson, Ingi Björn Albertsson.



1. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 85. gr. og orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 83. gr. og 84. gr. skal íbúðarhúsnæði til eigin nota vera undanþegið álagningu eignarskatta.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda um álagningu eignarskatts á árinu 1989 á eignir í árslok 1988.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. gr. laga nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, með síðari breytingum, skal sérstakur eignarskattur við álagningu á árinu 1989 ekki taka til íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Greinargerð.


    Allir viðurkenna þörfina á að eignast þak yfir höfuðið. Hér á Íslandi er þörfin brýnni en víða annars staðar. Húsnæði hér er oft haft rýmra en í löndum þar sem hægt er að vera úti við stóran hluta ársins. Þá hafa aukinn frítími og fleiri tómstundir almennings kallað í æ ríkari mæli á stærra húsnæði til að sinna þessum þörfum. Sú breytta húsagerð, sem við stöndum frammi fyrir og er orðin staðreynd, er afleiðing víðtækra þjóðfélagsbreytinga sem eru einn þeirra þátta sem gera nútímafólki kleift að búa hér á landi. Sú stefna að háskatta íbúðarhúsnæði er stórt skref aftur á bak. Fólk sem byggir sér hús leggur allt sitt undir og er oft í áratugi að basla við þessa erfiðu fjárfestingu. Hér er ekki um eignir að ræða sem gefa ávöxtun, eins og t.d. ríkisskuldbréf sem þó
eru skattlaus. Íbúðarskatturinn er því fyrst og fremst árás á venjulegt fólk sem hefur með ráðdeild borgað skuldir sínar með skilum og hefur hug á að búa vel eftir að hafa lagt á sig ómælt erfiði við að eignast eigið húsnæði. Sú stefnubreyting að háskatta íbúðarhúsnæði með sérstökum íbúðarskatti er óréttlætanleg og því er lagt til í þessu frumvarpi að hann verði aflagður.
    Með núverandi íbúðarskatti er höggvið til rótar að sjálfseignarstefnunni á íbúðarhúsnæði á Íslandi. Það hefur verið aðaleinkenni varðandi íbúðarhúsnæði hér að fólk eigi húsnæðið sjálft. Nú er horfið frá þessari stefnu og eignaupptaka hafin með sérstökum íbúðarskatti sem er einstakur fyrir vestrænt ríki. Hvergi í vesturheimi er lagður á sérstakur háskattur á íbúðarhúsnæði eins og hér er gert. Á hitt má og minna að þetta er sama aðferð og kommúnistar notuðu, m.a. í Tékkóslóvakíu og Búlgaríu, til að leggja eignir fólks undir ríkið.
    Með samþykkt á lögum um tekjuskatt og eignarskatt frá Alþingi rétt fyrir jólin var grímunni kastað af núverandi ríkisstjórn. Hér er gamalt baráttumál vinstri manna komið í höfn. (Þetta var einnig sérstakur sigur fyrir þingmenn landsbyggðarinnar þar sem vægi atkvæða er miklu meira en hér á suðvesturhorninu.) Nú er valdið sýnt í verki með sérstökum skatti á íbúðarhúsnæði. Áður höfðu fyrirtæki verið verðlaunuð með sama hætti, þ.e. með sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þetta er gert á sama tíma og lönd eins og Svíþjóð eru að snúa blaðinu við með tilliti til samkeppninnar við EB-löndin í náinni framtíð. Sú „skattaparadís“ sem nú er að renna upp á þessu landi er ógnvekjandi.
    Í öllum umræðum og atkvæðagreiðslum sem við höfum tekið þátt í á Alþingi höfum við verið trúir þeirri stefnu að ekki eigi að auka skatta ríkisins meira en þeir þegar eru. Það eigi heldur að rifa seglin og draga úr þenslu ríkisins. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar ákvað að auka skatta, eða eins og margir segja, tekjuöflun ríkissjóðs átti að vaxa um 22% umfram verðbólgu milli ára. Sú óskhyggja stóðst einfaldlega ekki vegna þess að eyðsla almennings og fyrirtækja dróst saman þrátt fyrir hærri álögur á flestum sviðum. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur ákveðið að leggja frekari skatta á almenning. Það er gert til þess að reka ríkissjóð án halla, eins og er svo lifandi skelfing fínt að orða það. Báðar þessar ríkisstjórnir fara villu vegar, það er ekki hægt að velta vanda ríkissjóðs yfir á heimilin í landinu. Fjármálaráðherra ætti að segja: Við eigum að draga útgjöldin saman og veita þó sömu þjónustu. Við eigum að endurskipuleggja og stokka upp heimilisbókhaldið hjá ríkinu.
    Við atkvæðagreiðslu um lög um tekjuskatt og eignarskatt gerði 1. flm. einn þingmanna í neðri deild grein fyrir atkvæði sínu, svo hljóðandi:
    „Hæstv. forseti. Með samþykkt hækkunar eignarskatta er gengið í berhögg við allt velsæmi og langt út fyrir eðlileg mörk í skattaáþján almennra borgara. Þetta bitnar harðast á einstaklingum sem búa í eigin íbúðarhúsnæði. Þeir hafa lagt metnað sinn í að spara, fara vel með þau laun, sem þeir hafa unnið til og greitt fulla skatta, bæði af launum vinnu sinnar og byggingarefni því sem í þessi hús hefur farið. Hér er verið að hegna þeim sem hafa sýnt ráðdeild, hafa borgað skuldir sínar með skilum og eiga nú skuldlitlar eða skuldlausar eignir. Þessi skattur hefur af sumum verið kallaður ekknaskattur, vegna þess að hann leggst afar þungt á einstaklinga. Af eign sem hjón greiða 108 þús. kr. af greiðir einstaklingur 231 þús. kr. af og var á síðasta ári 72 þús. kr. eða hækkar um 320%. Mismunurinn á því sem einstaklingur greiðir og hjón greiða er 123 þús. kr. í ár. Ofan á þetta verður ein fyrirvinna að greiða miklu hærri skatta af launum. Þetta er ósvífni. Þá er einnig ráðist á íbúa hér í Reykjavík og á Reykjanesi á lúalegan hátt. Sama stærð af eign er nánast skattlaus víða úti á landi launatekjur hér á Reykjanesi og Reykjavík eru þó þær sömu. Þetta er eignaupptaka og árás á borgarastétt í landinu. Ég segi nei.“
    Með þessari stuttu greinargerð var komið á framfæri fjórum meginsjónarmiðum. Í fyrsta lagi mismunun á sköttum á íbúðarhúsnæði eftir landshlutum, í öðru lagi stöðu einhleypinga og gífurlega skatta á þeim, í þriðja lagi að launatekjur hækka ekkert þótt skattar af íbúðarhúsnæði hækki og í fjórða lagi að hér er verið að refsa fyrir sparsemi og ráðdeild (þó ekki ef keypt eru ríkisskuldabréf, sem er hrein skuldasöfnun ríkissjóðs!).
    Í því sem hér er talið að framan er ekki meðtalinn aukaeignarskatturinn sem Sjálfstæðisflokkurinn barði í gegn til að gleðja fólkið í landinu og átti að renna til Þjóðarbókhlöðunnar. Með honum lítur dæmið að framan svona út: Hjón greiða 108.000 kr. auk 13.750 kr. eða 121.750 kr. og einhleypingurinn 231.000 kr. auk 24.380 kr. eða litlar 255.380 kr. Og séu fasteignagjöldin tekin með, en þau eru 70.000 kr. á eigninni, verður útkoman þessi: Hjónin greiða í allt af húsinu 191.750 kr. og einstaklingurinn 325.380 kr.
    Eins og sést af dæmi því sem tekið er hér að framan, sem er miðað við þau mörk áður en hærra stigið á eignarskattinum leggst á hjón eða 7+7 milljónir. Það leiðir í ljós hrikalega eignarskatta á einhleypinga og á hjón, en þó verður einstaklingurinn í þessu dæmi að greiða nær 110% hærri skatt. Ofan á þessa skattlagningu bætast síðan lægri tekjur einstaklings fyrir sömu vinnu ef
hjón vinna ekki bæði úti og ef hjón vinna bæði úti hafa þau tvöfaldar tekjur, en í mörgum tilfellum sambærilegt heimilishald. Vafalaust er það réttmætt að einhleypingur greiði hærri eignarskatt, en þegar álagning á eigið íbúðarhúsnæði er orðið í allt 3,45% á ári skekkist dæmið og verður hrollvekja. Það sem hér er að gerast er hrein og klár eignaupptaka, maður með venjuleg laun ræður ekki við þessa skatta nema með verulega hærri tekjum. Og það sama gildir fyrir hjón, jafnvel þótt bæði vinni úti.
    Úr þessu má bæta með einföldum hætti, sem er að lækka og samræma eignarskattinn af íbúðarhúsnæði um allt land. Mun vikið nánar að þessu hér á eftir. Gera má ráð fyrir að flestu fólki muni þykja sú niðurstaða sanngjörn. Ætla má að þær hugmyndir muni koma í veg fyrir ósættanleg sjónarmið milli fólks í þéttbýli og í strjálbýli um allt land, eins og nú er hætta á eftir þann gífurlega mun í skattlagningu sem blasir við.
    Þegar umrætt frumvarp um eignarskatt var til umræðu á Alþingi fluttu 1. flm. og Albert Guðmundsson breytingartillögu við frumvarpið sem gerði ráð fyrir sömu sköttum af sambærilegu íbúðarhúsnæði um allt land og að hærri skattleysismörk yrðu á íbúðarhúsnæði en á öðrum eignum. Tillöguflutningi þessum var í fyrsta lagi ætlað að vekja athygli á mismunum á svokölluðum eignarskatti á íbúðarhúsnæði eftir landshlutum. Í öðru lagi var ætlunin að undirstrika að eigið íbúðarhúsnæði ber ekki að skoða sem skattstofn með þeim hætti sem nú er gert. Ef við höldum okkur við sama dæmi og hér að framan eru eignarskattar og fasteignagjöld af sambærilegri íbúðareign á mismunandi stöðum um landið sem hér segir:
    Landinu verður skipt í átta svæði eftir fasteignamati og er hvert svæði reiknað út á meðaltali svæðisins og hæstu og lægstu tölur innan hvers svæðis gefnar upp í sviga. Allar tölur eru miðaðar við svæði 1, er hefur töluna 100% í fasteignamat á húsnæði. Hér verður miðað við mat á einbýlishúsi. Önnur svæði lækka í samræmi við fasteignamat. Svæði 1, 100%, Seltjarnarnes, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður. Svæði 2, 81,30% (85,9%–77,4%) Mosfellsbær, Bessastaðahreppur, Akureyri, Keflavík og Njarðvík. Svæði 3, 67,38% (74,0%–65,8%), Ísafjörður, Grindavík, Borgarnes, Húsavík, Sauðárkrókur, Vestmannaeyjar, Akranes, Ólafsfjörður, Dalvík, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður og Hafnarhreppur. Svæði 4, 58,29% (64,3%–56,4%), á þessu svæði eru kaupstaðir, kauptún og þéttbýlir hreppar. Svæði 5, 51,82% (55,5%–48,6%), á þessu svæði eru kaupstaðir, kauptún og þéttbýlir hreppar. Svæði 6, 45,52% (47,0%–40,0%) hreppar og minni kauptún. Svæði 7, 32,72%
(39,0%–30,5%), dreifbýli. Svæði 8, 25,52% (28,2%–21,8%), strjálbýli. Ekki er hér tæmandi talning og má vekja athygli á að í mörgum sveitarfélögum er tvenns konar mat eftir þéttbýli eða dreifbýli, þannig að eignir í sama sveitarfélagi geta hér verið taldar hver til síns svæðis. Sjá meðfylgjandi töflu.
    Við undirbúning að nýrri skipan á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga hafa sveitarstjórnarmenn utan svæðis 1, eins og það er skýrgreint hér, óskað eftir því að sama fasteignagjald sé af sambærilegri eign út um allt land. Sé þetta eðlilegt þar sem um sé að ræða þjónustugjald til sveitarfélags. Sömu rök gilda auðvitað um eignarskatt af íbúðarhúsnæði að hér sé um þjónustugjald af eigninni að ræða. Þar með eru þau vandamál úr sögunni að ekki sé hægt að leggja saman eignarskatt á sambærilegt íbúðarhúsnæði um allt land. Þá stendur hitt vandamálið eftir, þetta með einstaklingana, en eins og sést á meðfylgjandi útreikningum er eignarskatturinn fyrst og fremst skattur á þá. Slíka ofsköttun verður að lagfæra.
    Eftir að ljóst er að eignarskattarnir og fasteignagjöld eru fyrst og fremst skattar á Reyknesingum, að meðtöldum Reykvíkingum, og á íbúðarhúsnæði í stærri bæjum, hlýtur krafan að verða sömu skattar á sambærilegt íbúðarhúsnæði um allt land.
    Á sama tíma og skuldabréf ríkissjóðs eru tekju- og eignarskattsfrjáls er íbúðarhúsnæði haft að féþúfu til að halda áfram óráðsíunni í ríkisrekstri, jafnframt nýtur almennt sparifé sömu kjara. Í dag greiðir maður á Reykjanessvæðinu 325.380 kr. í eignarskatta af íbúðarhúsnæði með fasteignamat að upphæð 14.000.000 kr. Maðurinn sem á 140.000.000 kr. undir koddanum í ríkisskuldabréfum eða tíu sinnum meira greiðir ekkert! Maðurinn sem á fasteignina er launþegi og greiðir háa tekjuskatta, en maðurinn með 140 milljónirnar í ríkisskuldabréfum greiðir ekki heldur tekjuskatt. Sá maður er löngu hættur að vinna og lætur sér nægja tekjurnar af skuldabréfunum, sem verða ekki nema 9.800.000 kr. á næsta ári. Þessar tæpu tíu milljónir ætlar hann síðan að stórum hluta að nota til að auka skuldir ríkissjóðs, enda eina örugga leiðin til ábata hér á landi. Og svo er þar maðurinn, sem á aukalega íbúð sem er 5.000.000 kr. að fasteignamati á höfuðborgarsvæðinu, sem hann leigir út. Hann hefur reiknað að nú þurfi hann að leigja hana á aðeins 61.000 kr. á mánuði til að fá sömu ávöxtun og af ríkisskuldabréfum, enda greiðir hann bæði eignar- og tekjuskatt af þessari eign. Væri nú þessi eign háð sömu ákvæðum og ríkisskuldabréfin þyrfti leigan að vera um 29.000 kr. á mánuði, sem er aðeins 47% af núverandi tekjuöflunarþörf mannsins, eins og þeir orða það hjá ríkisstjórninni. Sömu sögu er að segja af manninum, sem á verðbréf hjá
einum af verðbréfasjóðunum. Hann segir að tekjuöflunarþörf sinni verði að mæta með verulega hærri vöxtum til að hann geti greitt skatta af bréfunum og fengið sömu fjárrentu og hjá ríkissjóði.
    Og svo geta menn spurt hvaða áhrif hefur þetta á efnahagslífið? Þýðir þetta hærri vexti og vaxandi verðbólgu? Og menn mega ekki gleyma því að þessir auknu skattar þýða að tekjuþörf heimilanna vex sem mun koma fram í hærri launakröfum (tekjuöflunarkröfum) á næstu dögum.



Repró. Tafla um eignarskatta og fasteignagjöld í Gutenberg komi aftast í skjali.