Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 103 . mál.


Nd.

633. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Annar minni hl. telur að þetta frumvarp byggi á vanáætlunum og röngum forsendum og getur því ekki staðið að afgreiðslu þess með þeim hætti sem meiri hl. leggur til. Rökin eru eftirfarandi:
    Kjarasamningar eru nú fram undan hjá þorra launafólks sem hefur mátt búa við langvarandi samningsbann, launafrystingu og hrapandi kaupmátt. Ríkisstjórnin á stærstan þátt í því hvernig kaupmáttur hefur þróast með skattahækkunum og verðhækkunum, þrátt fyrir lögboðna verðstöðvun. Um leið og þeirri verðstöðvun var aflétt dundu svo yfir frekari gjaldskrárhækkanir og verðhækkanir sem ríkisvaldið stóð að. Það sýnir því hvorki sanngirni né raunsæi að gera ráð fyrir því að launafólk sætti sig við samninga sem fela í sér svipaðan kaupmátt og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs eins og ríkisvaldið stefnir að. En m.a. á því er sú verðbólguspá byggð sem er forsenda þessa frumvarps, þ.e. að verðbólgan verði aðeins 13,5% frá upphafi til loka ársins. Með tilliti til þess að á síðasta ári stefndi ríkisvaldið að 10% verðbólgu innan ársins, en uppskar 19,4%, þrátt fyrir launastöðvun og verðstöðvun í orði, virðist raunsæi víðs fjarri öllum áætlunum.
    Þá virðist ríkisvaldið gjörsamlega ætla að loka augunum fyrir vaxandi atvinnuleysi sem auk annarra alvarlegra afleiðinga gæti leitt til þurrðar í Atvinnuleysistryggingasjóði. Í byrjun mars var greiðslustaða sjóðsins þannig að um 395 millj. kr. voru enn til ráðstöfunar til að mæta föstum útgjöldum og greiðslum atvinnuleysisbóta. Föst útgjöld eru um 35–36 millj. kr. á mánuði, þ.e. rekstrarkostnaður, eftirlaunagreiðslur og greiðslur vegna rekstrar kjararannsóknarnefndar. Atvinnuleysisbætur námu um 100 millj. kr. í janúar og svipaðri upphæð í febrúar, en búist er við heldur lægri upphæð í mars. Mikla bjartsýni þarf til að gera ráð fyrir snöggum umskiptum í þessum efnum. Það er því augljóst að verulega kreppir að sjóðnum eins og vænta mátti þegar ríkisstjórnin, með stuðningi nokkurra þingmanna utan stjórnar, ákvað að ráðstafa lögboðnu framlagi ríkissjóðs til annarra nota.
    Með tilliti til gífurlegs viðskiptahalla og erfiðrar stöðu útflutnings- og samkeppnisgreinanna er óhugsandi annað en að grípa verði enn einu sinni til efnahagsráðstafana til að rétta þá stöðu og það fyrr en síðar. Þess sér þó ekki stað í þessu frumvarpi. Þvert á móti er gert ráð fyrir óbreyttu gengi og miklu minni lántökum en reyndin varð á síðasta ári þegar erlendar lántökur urðu um 80% umfram áætlun. Ekkert bendir til þess að aðhald verði virkara á þessu ári, enda æpandi þörf fyrir stóraukið fjármagn til atvinnuveganna. Þá er heldur ólíklegt að gæslumönnum ríkissjóðs takist eitthvað betur en á síðasta ári þegar stór hluti aukinnar lántöku var einmitt vegna hallareksturs ríkissjóðs.
    Mjög erfitt er að gera sér grein fyrir réttmæti áætlana um innlenda lánsfjáröflun. Sem stendur eru hagstæð skilyrði á innlendum fjármagnsmarkaði og minni spenna en verið hefur um langt skeið. Forsenda þess að svo verði áfram er sú að ekki verði gripið inn í þróunina með stórfelldum breytingum á helstu þáttum efnahagsmála og kynt undir eftirspurn eftir fjármagni, en eins og áður er sagt er þó næsta víst að það verður gert.
    Stærsti óvissuþátturinn er til kominn vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að breyta grundvelli lánskjaravísitölunnar í janúar síðastliðnum í algjörri andstöðu við t.d. aðstandendur lífeyrissjóðanna sem voru nýbúnir að gera samninga við ríkisstjórnina um kaup skuldabréfa þegar breytingin var tilkynnt. Þeir hafa nú ákveðið að höfða mál á hendur ríkisvaldinu vegna þessa og halda að sér höndum, og er það meginskýringin á slakanum á fjármagnsmarkaðnum. Þrátt fyrir allt þetta er gert ráð fyrir miklum kaupum lífeyrissjóðanna á skuldabréfum ríkissjóðs.
    Sala spariskírteina er einnig mikilli óvissu háð. Reynsla fyrstu vikna þessa árs gefur ekki tilefni til bjartsýni þar sem innlausn spariskírteina hefur numið u.þ.b. þrefaldri sölu þeirra og kennir þar vafalaust áhrifa frá hvoru tveggja minnkandi kaupmætti og þróun vaxtakjara. Þannig rekur sig hvað á annars horn.
    Annar minni hl. flytur breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að fella brott II. kafla þess, en þar eru í 19 greinum ómerktar fyrri ákvarðanir löggjafarvaldsins um framlög til einstakra málaflokka svo að munar a.m.k. 2 milljörðum kr. Þessi háttur hefur verið látinn viðgangast árum saman, og nokkur dæmi eru þess að aldrei hafi verið staðið við lögboðið framlag eins og t.d. til ferðamála. Þessi þróun er afleit og grefur undan trausti almennings til Alþingis og veikir ábyrgð þess á lagasetningu. Annar minni hl. er þeirrar skoðunar að endurskoða beri þau lög sem Alþingi treystir sér ekki til að
standa við í stað þess að líða vinnubrögð af þessu tagi árum saman.

Alþingi, 14. mars 1989.


Kristín Halldórsdóttir.