Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 377 . mál.


Sþ.

712. Tillaga til þingsályktunar



um nýja atvinnumöguleika á landsbyggðinni.

Flm.: Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Kristín Halldórsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna með hvaða hætti unnt er að nota nútíma tölvu- og fjarskiptatækni til að flytja verkefni á vegum ríkisstofnana og annarra aðila frá höfuðborgarsvæðinu út á land.
    Sérstaklega verði kannaðir möguleikar á að nýta þessa tækni til að koma á laggirnar fjarvinnustofum í því skyni að fjölga störfum og auka fjölbreytni í atvinnulífi byggðarlaganna.

Greinargerð.


    Hinar öru breytingar, sem orðið hafa á íslenskum atvinnuháttum á síðustu árum, hafa valdið straumhvörfum í búsetu fólks í landinu. Aukin tæknivæðing í landbúnaði samfara framleiðslustýringu og samdrætti, svo og ný tækni, nýjar vinnsluaðferðir og aflatakmarkanir í sjávarútvegi, gjörbreyta forsendum byggðar í landinu. Um leið og þörf fyrir vinnuafl hefur minnkað í frumvinnslugreinunum hefur hún stöðugt farið vaxandi í úrvinnslu- og þjónustugreinum, einkum þó í hinum síðarnefndu. Vaxtarskilyrði þessara greina hafa hingað til verið best í þéttbýli og vegna fólksfjöldans á höfuðborgarsvæðinu hefur þjónusta af öllu tagi stöðugt aukist þar. Á fylgiskjali I, fyrri mynd, má sjá hlutfallslega skiptingu nýrra starfa, eftir landsvæðum 1981–1984. Á þeirri síðari sést fjöldi starfa eftir atvinnuvegum á sama tíma annars vegar á landsbyggðinni hins vegar á höfuðborgarsvæðinu.
    Talið er að þessi þróun haldi áfram og ný störf verði fyrst og fremst til í þjónustugreinum enn um sinn. Frekari þensla á þessum sviðum á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar að mati flutningsmanna ekki æskileg.
    Aukin verkaskipting og hin mikla hlutdeild höfuðborgarinnar í þjónustugreinunum veldur því að fábreytni í atvinnulífi á mörgum öðrum stöðum á landinu verður tilfinnanleg. Sú fábreytni hefur verið ein af ástæðunum fyrir hinum miklu fólksflutningum á Faxaflóasvæðið á undanförnum árum (sjá fylgiskjal II).
    Skortur á fjölbreytilegum störfum bitnar fyrst og fremst á konum á landsbyggðinni. Þær eiga oft ekki annarra kosta völ en að flytja til þéttbýlisstaða í leit að atvinnu. Stóraukin atvinnuþátttaka kvenna og breytt staða þeirra í fjölskyldunni skiptir miklu í þróun byggðamála og er tímabært að taka mið af þeirri staðreynd. Atvinnuleysi hefur færst í vöxt hér á undanförnum mánuðum, fyrst og fremst utan höfuðborgarsvæðisins. Í öllum landshlutum eru konur í meiri hluta atvinnulausra (sjá fylgiskjal III).
    Í flestum nágrannalöndum okkar hefur þróunin verið í svipaða átt og hér á landi, en um margt eru vandamál byggðarlaga hér meiri en hjá nágrönnum okkar. Víða erlendis hafa stjórnvöld reynt að sporna við neikvæðri byggðaþróun með því að jafna aðstöðu þéttbýlis og dreifbýlis og gripið hefur verið til tímabundinna aðgerða til að ýta undir og auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli. Í Skandinavíu hefur víða verið gert átak í uppbyggingu atvinnulífs og á síðustu árum hefur verið lögð mikil áhersla á að skapa nýja atvinnu fyrir konur í dreifbýli.
    Oft hefur verið rætt um þann möguleika að flytja ýmsar stofnanir ríkisins af höfuðborgarsvæðinu í því skyni að fjölga störfum utan þess og draga úr miðstýringu. Lítið hefur þó gerst í þeim málum enn sem komið er.
    Þær breytingar, sem tölvutækni og ný fjarskiptatækni hafa í för með sér, hafa þegar haft mikil áhrif á atvinnuhætti okkar og alla þætti mannlífsins. Nútímatækni á sviði tölvuvinnslu og fjarskipta hefur opnað nýjar víddir sem menn höfðu ekki hugboð um áður. Hún gefur allt að því óendanlega möguleika til að safna, geyma og flytja upplýsingar án tillits til dvalarstaðar þess sem verkið vinnur. Í mörgum nágrannalanda okkar hafa verið settar á laggirnar fjarvinnustofur þar sem ýmis upplýsinga- og þjónustuverkefni eru unnin á tölvur auk þess sem þar fer fram nám og kennsla á tölvur. Um síðustu áramót var fyrsta fjarvinnustofan stofnuð hér á landi í Vík í Mýrdal. Fyrirhugað er að starfsfólk hennar annist bókhald, ritvinnslu, gagnavinnslu o.fl.
    Starfsemi fjarvinnustofa hefur gefið góða raun á Norðurlöndum. Þar eru unnin ýmis verkefni sem áður voru inni í fyrirtækjum eða stofnunum, svo sem bókhald, upplýsingaöflun af ýmsu tagi og skýrslur. Í Dombas í Noregi stóð byggð mjög höllum fæti um 1980. Þar er nú unnið að ýmsum mikilvægum verkefnum í fjarvinnustofum, t.d. skráningu upplýsinga úr kirkjubókum, og fyrirhugað er að koma skjalasöfnum á tölvutækt form. Íbúar Dombas eru aðeins 3200, 15 þeirra hafa þegar vinnu í fjarvinnustofunni og takmarkið er að finna 15 ný störf á ári í sveitarfélaginu, og er sérstök áhersla lögð á atvinnu fyrir konur.
    Með því að færa hluta af þjónustu ríkisstofnana út á land má nýta tölvutæknina til að byggja upp nýja vinnustaði. Það er ein leið til að fjölga störfum, auka fjölbreytni atvinnulífsins í byggðarlögum og treysta um leið búsetu fólks. Með frumkvæði stjórnvalda við uppbyggingu fjarvinnustofa fyrir hluta starfsemi sinnar má ætla að ýmis önnur fyrirtæki og einstaklingar fylgi í kjölfarið. Mikilvægt er að vel takist til við að notfæra sér nýja tækni á jákvæðan hátt. Verkefni sem þetta krefst góðrar skipulagningar og samstarfs. Því er nauðsynlegt að gera áætlanir og skipuleggja starfsemi fjarvinnustofa í samráði við sveitarfélög og heimafólk á hverjum stað.
    Tilgangurinn með flutningi þessarar tillögu er fyrst og fremst sá að fjölga störfum og auka fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni, draga úr miðstýringu og auka möguleika fólks um land allt til að nýta sér þá tækni sem fyrirsjáanlegt er að verður stór hluti daglegs lífs okkar í framtíðinni.



Fylgiskjal I.


Þróun byggðar og atvinnulífs.


Skýrsla byggðanefndar þingflokkanna.


(Júlí 1986.)




Repró í Gutenberg.



    Breytingar á fjölda starfa eftir atvinnuvegum 1981–1984. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að nýjum störfum hefur fækkað í frumvinnslugreinum en fjölgað í þjónustugreinum.

Heimild: Vinnumarkaðurinn 1984.




Fylgiskjal II.




Repró í Gutenberg.





Fylgiskjal III.


Vinnumálaskrifstof a félagsmálaráðuneytisins:


Yfirlit um atvinnuástandið.


(Reykjavík, 10. mars 1989.)