Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 396 . mál.


Nd.

743. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978.

Flm.: Guðmundur G. Þórarinsson.




1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna orðist svo:
    Fyrir stimplun hlutabréfa, sem gefin eru út af félögum með takmarkaða ábyrgð, skal greiða 1 / 2 % af fjárhæð bréfanna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að stimpilgjald hlutabréfa lækki úr 2% af fjárhæð bréfanna í 1 / 2 %.
    Um þessar mundir mun það samdóma álit fjölmargra í þjóðfélaginu að mikil nauðsyn sé að auka eigið fé fyrirtækja. Margt kemur þar til. Á undanförnum árum hefur gengið mjög á eigið fé fyrirtækja í mörgum greinum, ekki síst í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Lánsfé er dýrt og vextir háir vegna mikillar eftirspurnar eftir lánsfé. Allt ber því að sama brunni þ.e. æskilegt er að fyrirtæki auki eigið fé sitt. Á það er hins vegar að líta að það er kostnaðarsamt að auka hlutafé vegna stimpilgjalda. Auki fyrirtæki hlutafé sitt um t.d. 50 millj. kr. ber því að greiða 1 millj. kr. í ríkissjóð í stimpilgjöld af hlutabréfunum.
    Ekki síst við þær aðstæður, sem nú ríkja í þjóðfélaginu, er ástæða til að hvetja fyrirtækin til að auka hlutafé. Því er með þessum frumvarpsflutningi lagt til að stimpilgjald lækki í 1 / 2 %.