Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 351 . mál.


Sþ.

760. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Hreggviðs Jónssonar um ályktun Evrópuráðsins um griðland fyrir flóttamenn.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað hefur dómsmálaráðherra hugsað sér að gera varðandi framgang ályktunar Evrópuráðsins nr. 1088 frá 1988 um griðland fyrir flóttamenn?
    Ályktun Evrópuráðsins um griðland fyrir flóttamenn var samþykkt á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins 7. október 1988. Samþykkt þessi hafði ekki borist dómsmálaráðuneytinu þegar fyrirspurnin var lögð fram en texti hennar hefur nú borist frá skrifstofu Alþingis. Athygli íslenskra stjórnvalda mun heldur ekki hafa verið vakin sérstaklega í ályktuninni. Af þessu leiðir að íslensk stjórnvöld hafa ekki enn haft aðstöðu til að taka afstöðu til einstakra þátta ályktunarinnar.
    Rétt er að taka fram að Ísland hefur ekki orðið fyrir ásókn flóttamanna. Stjórnvöld hafa hins vegar í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna tekið við nokkrum hópum flóttamanna, frá Ungverjalandi, Júgóslavíu, Víetnam og Póllandi. Í framhaldi þessa hefur verið tekið á móti 20 ættingjum víetnömsku flóttamannanna og enn hefur verið samþykkt að taka á móti 21 slíkum flóttamanni til viðbótar.
    Af hálfu dómsmálaráðuneytisins er fylgst með alþjóðastarfi fyrir flóttamenn, einkum í sérstakri samstarfsnefnd þeirra ráðuneyta á Norðurlöndum er fara með málefni flóttamanna og í norrænu útlendinganefndinni. Hins vegar hefur ráðuneytið ekki tekið þátt í störfum nefndar Evrópuráðsins um hæli, flóttamenn og ríkisfangslaust fólk.
    Rétt er að taka fram að Ísland hefur fullgilt bókanir við mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 4 og 7, sem vikið er að í ályktuninni en þær fjalla um málefni flóttamanna. Fór fullgilding bókunar nr. 4 fram 16. nóvember 1969 og bókunar nr. 7 22. maí 1987.
    Ráðuneytið tekur fram að ályktun ráðgjafarþingsins er beint til ráðherranefndar Evrópuráðsins. Ályktunin mun ekki hafa verið tekin til efnismeðferðar þar og eins og greinir í upphafi hefur afstaða til einstakra þátta hennar ekki verið tekin hér.
    Efni ályktunar ráðgjafarþings Evrópuráðsins nr. 1088 (1988) er almennt séð þess eðlis að íslensk stjórnvöld ættu að geta fallist á þau atriði sem þar er fjallað um og tekið þau upp, að því leyti sem þau eiga við hér á landi. Hins vegar þarfnast þau frekari könnunar stjórnvalda, en málefnið varðar í raun fleiri ráðuneyti.



Fylgiskjal.


Ályktun Evrópuráðsins um griðland fyrir flóttamenn.





Repró í Gutenberg.





Prentað upp.