Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 420 . mál.


Sþ.

780. Tillaga til þingsályktunar



um samning milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands

(Lögð fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Grænlands, Íslands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með ályktun þessari.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samnings milli Grænlands, Íslands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Samningurinn sem hér liggur fyrir leysir deilu milli hlutaðeigandi landa um skiptingu loðnustofnsins á svæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen. Frá árinu 1980 hefur gilt samkomulag milli Íslands og Noregs um að skipta veiðum á stofninum á milli sín þannig að 85 af hundraði falla í hlut Íslands og 15 af hundraði í hlut Noregs. Hins vegar var Grænland ekki bundið af því samkomulagi og t.d. á árinu 1988 veiddu Færeyingar samkvæmt heimild grænlensku landsstjórnarinnar 48 þúsund lestir af loðnu innan grænlenskrar lögsögu.
    Á samningafundi milli aðilanna í Ósló dagana 18. til 20. janúar 1989 náðist samkomulag um samningsdrögin sem hér liggja fyrir.
    Samkvæmt 2. gr. samningsins skal reynt að ná samkomulagi um leyfilegan hámarksafla fyrir hverja vertíð. Ef ekki næst samkomulag mun Ísland ákveða hámarksaflann. Sams konar ákvæði er að finna í samkomulaginu milli Íslands og Noregs frá 1980.
    Samkvæmt 3. gr. samningsins skiptist aflinn þannig að 78 af hundraði falla í hlut Íslands, 11 af hundraði í hlut Grænlands og 11 af hundraði í hlut
Noregs. Íslenskum og norskum skipum verður heimilt að veiða loðnu í lögsögu Grænlands (7. gr.) og íslenskum skipum og skipum með leyfi grænlenskra stjórnvalda heimilt að veiða í lögsögu Jan Mayen (8. gr.).
    Um veiðar í íslenskri lögsögu er fjallað í 6. gr. Heimildir eru takmarkaðar við norsk skip og grænlensk skip, þ.e. skip sem eru skráð á Grænlandi og fullnægja skilyrðum grænlenskra fiskveiðilaga um eignaraðild. Íslensk stjórnvöld geta einnig veitt fiskiskipum af öðru þjóðerni, sem fengið hafa grænlensk fiskveiðileyfi, veiðiheimildir. Í viðræðum milli aðila var gengið út frá því að færeysk skip, sem hafa leyfi grænlenskra stjórnvalda til veiða á þeirra hlut, fái heimild til veiða innan íslenskrar lögsögu. Veiðiréttindi takmarkast við svæðið norðan 64?30*N og tímabilið 1. júlí til 15. febrúar á hverri vertíð.
    Ef samningurinn verður staðfestur af viðkomandi stjórnvöldum mun hann gilda til þriggja ára frá og með 1. júlí 1989.
    Ríkisstjórnin hefur haft samráð við fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi um gerð þessa samnings og kynnt drögin í utanríkismálanefnd Alþingis.



Fylgiskjal.



SAMNINGUR


milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um loðnustofninn


á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen.



1. gr.

    Aðilar skulu eiga samvinnu um verndun og nýtingu loðnustofnsins á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen.

2. gr.

    Aðilar skulu leitast við að ná samkomulagi um leyfilegan hámarksafla á loðnu fyrir hverja vertíð. Náist ekki samkomulag mun Ísland, sem sá aðili sem mestra hagsmuna hefur að gæta varðandi loðnustofninn, ákveða leyfilegan hámarksafla. Noregur og Grænland skulu þó ekki bundin af þeirri ákvörðun sé hún bersýnilega ósanngjörn. Leitast skal við að ákveða fyrir 1. júní ár hvert
leyfilegan hámarksafla til bráðabirgða og fyrir 1. desember endanlegan leyfilegan hámarksafla fyrir vertíðina sem hefst 1. júlí og stendur til 30. apríl árið eftir.

3. gr.

    Leyfilegur hámarksafli skiptist milli aðila þannig:

    Grænland     11 af hundraði.
    Ísland     78 af hundraði.
    Noregur     11 af hundraði.

4. gr.

    Ef aðili ákveður að framselja sína aflahlutdeild að fullu eða hluta skal hann tilkynna það hinum aðilunum.

5. gr.

    1. Ef Noregur eða Grænland veiða ekki sína hlutdeild á tiltekinni vertíð skal Ísland leitast við að veiða það magn sem á vantar. Í slíkum tilvikum skal hlutaðeigandi aðili fá bætur á næstu vertíð sem nema sama magni, enda hafi ástæður, sem hlutaðeigandi aðili réð ekki við, legið til þess að hann veiddi ekki sína hlutdeild á vertíðinni.
    2. Ef bætur samkvæmt 1. tölul. leiða til þess á einhverri vertíð að skiptingin er bersýnilega ósanngjörn skulu aðilar reyna að ná samkomulagi um það hvernig bótum skuli háttað.

6. gr.

    1. Grænlenskum og norskum fiskiskipum skal heimilt á hverri vertíð að veiða loðnu í íslenskri efnahagslögsögu norðan 64?30*N til 15. febrúar. Ísland mun einnig leyfa þessum veiðiskipum að landa afla sínum í íslenskum höfnum og taka um borð vistir í íslenskum höfnum. Að fengnum tilmælum grænlenskra stjórnvalda getur Ísland veitt fiskiskipum af öðru þjóðerni, sem fengið hafa grænlenskt fiskveiðileyfi, sömu réttindi, enda sé gerður um það samningur við Ísland sem gildi fyrir eina vertíð í senn.
    2. „Grænlenskt fiskiskip“ merkir í 1. tölul. skip sem skráð eru í Grænlandi og fullnægja skilyrðum grænlenskra fiskveiðilaga um eignaraðild.

7. gr.

    Íslenskum og norskum fiskiskipum skal heimilt að veiða loðnu í grænlenskri fiskveiðilögsögu norðan 64 30*.

8. gr.

    Fiskiskipum með grænlenskt fiskveiðileyfi og íslenskum fiskiskipum skal heimilt að veiða loðnu í fiskveiðilögsögunni við Jan Mayen og einnig til að landa afla sínum í norskum höfnum.

9. gr.

    Með vísan til veiðiheimilda í lögsögu skv. 6., 7. og 8. gr. getur hver aðili fyrir sig sett takmarkanir í sinni lögsögu með tilliti til stærðar fiskiskipa, fjölda þeirra og gerðar.

10. gr.

    Aðilar skulu skiptast reglulega á tölfræðilegum upplýsingum um loðnuveiðarnar.

11. gr.

    Aðilar skulu vinna saman að vísindalegum rannsóknum á loðnustofninum.

12. gr.

    Aðilar skulu halda fund a.m.k. einu sinni á ári, til skiptis í löndunum þremur, til að ræða framkvæmd samningsins. Aðilar skulu hafa samráð um verndunaraðgerðir, þar á meðal um tillögur um lokanir svæða til verndunar smáloðnu.

13. gr.

    Samningurinn skal gilda fyrir vertíðirnar frá og með 1. júlí 1989 til og með 30. apríl 1992.