Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 425 . mál.


Sþ.

785. Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á siglingaleið um Hornafjörð.

Flm.: Egill Jónsson, Jón Kristjánsson, Hjörleifur Guttormsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um við Hafnamálastofnun ríkisins að hún hefji sem fyrst rannsóknir á innsiglingunni við Hornafjarðarós og öðrum aðstæðum í tengslum við skipaleiðir um Hornafjörð.

Greinargerð.


    Á þessum vetri hefur það enn gerst að siglingaleiðin til Hafnar í Hornafirði hefur þrengst svo að hindrað hefur siglingu stærri skipa til Hafnar. Þarna eru náttúruöflin að verki. Í umhleypingasamri veðráttu, eins og verið hefur í vetur, kastar brimaldan sandi inn yfir tangann á Austurfjörum sem er að austanverðu við siglingaleiðina um Ósinn. Við þennan sandburð lengist Austurfjörutanginn og siglingaleiðin þrengist. Á sumrum, þegar vatn eykst í Hornafirði vegna ánna sem í hann falla, vex straumur í Ósnum svo að sandurinn, sem sjávaraldan bar inn yfir Austurfjörutangann, berst nú með straumnum til hafs.
    Þær margslungnu aðstæður í náttúrufari, sem lítillega hefur verið drepið á að framan, eiga sér enga hliðstæðu við aðra höfn á Íslandi. Sú mikilvæga reynsla, sem fyrir hendi er varðandi aðstæður við Hornafjörð, er því staðbundin, enda hefur hennar verið aflað með starfi hafnsögumanna þar og skipstjórnarmanna, einkum frá Höfn, sem gjörkunnugir eru þessum óvenjulegu aðstæðum.
    Þrátt fyrir þessi mikilvægu reynsluvísindi liggur ekki enn fyrir hvaða kostir eru helst færir til að hindra eða draga úr sandburði í innsiglinguna um Hornafjörð né hvaða ráð eru helst tiltæk til að flýta fyrir hreinsun skipaleiðar um Ósinn við þær aðstæður sem að framan getur.
    Alkunna er að við innsiglinguna til Hornafjarðar eru aðstæður oft erfiðar, sæta verður sjávarföllum og vindur verður að vera innan ákveðinna marka. Það
er því full ástæða til að hugleiða hvort ekki sé hægt að bæta skilyrði og auka öryggi sjófarenda um Ósinn með gerð brimvarnarmannvirkja utan hans.
    Þótt þessar hugmyndir þyki ef til vill nokkuð fjarlægar er full ástæða til að hefja rannsóknir á aðstæðum við Hornafjörð. Fyrsti áfangi í þeim efnum er öldumælingar, en svo sem kunnugt er eru þær fyrsti þáttur í rannsóknum þar sem meta á ölduhæð og brimþunga. Slíkar mælingar taka langan tíma, oft þrjú til fimm ár eftir aðstæðum. Þessar mælingar eru fremur auðveldar í framkvæmd og verður því að ætla að unnt sé að greiða kostnað við þær af rannsóknafé Hafnamálastofnunar.
    Svo sem kunnugt er hefur rannsóknastöð Hafnamálastofnunar nýlega verið endurbyggð og búnaður hennar bættur. Reynslan sýnir að þessar breytingar hafa bæði flýtt fyrir niðurstöðum úr öldumælingum og aukið öryggi rannsóknar. Þessar breyttu aðstæður í rannsóknastöðinni auðvelda rannsóknir á aðstæðum við Hornafjörð.
    Þrátt fyrir að hafnaframkvæmdum hafi verið skorinn fremur þröngur stakkur í fjárveitingum má þó ætla að á næstu árum muni uppbygging almennra hafnarmannvirkja færast mjög til betra horfs. Hins vegar liggur fyrir að nokkrar stórar og kostnaðarsamar framkvæmdir rúmast ekki innan þeirra fjárveitinga sem ætla má að verði varið til hafnamála á næstu árum.
    Í vega- og flugmálaáætlunum eru tilteknar framkvæmdir flokkaðar sem sérverkefni og að stærstum hluta greiddar af óskiptu fé til þeirra mála. Þessa skipan þarf einnig að taka upp við kostnaðarsamar hafnaframkvæmdir en það mundi auðvelda gerð brimvarnarmannvirkja við Hornafjörð ef niðurstöður rannsókna leiddu í ljós að slíkar framkvæmdir væru mögulegar.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að Hornafjörður er eina höfnin allt frá Vestmannaeyjum til Berufjarðar og að við hann stendur ein þróttmesta sjávar- og þjónustubyggð landsins. Bætt hafnarskilyrði mundu treysta enn frekar þennan mikilvæga grundvöll. Hér er því um sanngirnismál að ræða sem mikil þörf er á að komist í framkvæmd.