Ferill 431. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 431 . mál.


Ed.

791. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 69/1984, hafnalögum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    35. gr. laganna orðast svo:
    Hafnamálastofnun ríkisins annast í umboði ráðherra vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

Greinargerð.


    Í núgildandi hafnalögum er 35. gr. svohljóðandi:
    „Seðlabanki Íslands annast í umboði ráðherra, vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs og veitir sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár.“
    Breytingin er í því fólgin að Hafnamálastofnun ríkisins yfirtekur þau verkefni sem Seðlabanki Íslands hefur annast fyrir Hafnabótasjóð. Tilgangur breytinganna er að gera starfsemi sjóðsins einfaldari og skilvirkari auk þess að spara rekstrarútgjöld.
    Í raun er ekki verið að tala um svo mikla breytingu, því að hingað til hefur stór hluti vinnunnar við Hafnarbótasjóð verið unnin á Hafnamálastofnun. Í því sambandi má nefna að fjárveitingar ríkissjóðs til sjóðsins fara í gegnum stofnunina (fjárlagaliður 10-333). Þá hefur Hafnamálastofnun undirbúið og unnið upp tillögur um úthlutun úr sjóðnum, enda liggja þar fyrir upplýsingar um fjárhag hafnanna svo og þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Að lokinni úthlutun hafa lán og styrkir í flestum tilfellum aftur farið í gegnum Hafnamálastofnun eftir að sveitarstjórnir hafa veitt stofnuninni umboð til að reka mál sín hjá Seðlabankanum. Í mörgum tilfellum hefur Hafnamálastofnun, í samráði við sveitarstjórnir, greitt af lánum í sjóðnum og
notað til þess fjármuni sem stofnunin hefur legið með fyrir hafnirnar. Hafnamálastofnun ætti þannig að hafa jafngóða möguleika og Seðlabankinn á að annast innheimtu afborgana af lánum.
    Væntanlega leiðir þessi breyting til sparnaðar því að Hafnamálastofnun telur að ekki þurfi vinnuafl nema sem svarar um hálfu stöðugildi til að annast rekstur sjóðsins. Þá mundi breytingin spara sveitarstjórnarmönnum og öðrum ráp milli stofnana í Reykjavík.