Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 957, 111. löggjafarþing 224. mál: Háskóli Íslands (dómnefndir og veiting embætta).
Lög nr. 30 10. maí 1989.

Lög um breyting á lögum nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 8/1985.


1. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Forseti Íslands skipar prófessora, en menntamálaráðherra dósenta og lektora. Eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum ræður háskólaráð aðjúnkta og erlenda lektora að fengnum tillögum háskóladeildar, en háskóladeild stundakennara og styrkþega.
     Umsækjendur um prófessorsembætti, dósentsstörf og lektorsstörf skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf þau, er þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og námsferil sinn og störf.
     Skipa skal hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna embættinu eða starfinu. Háskólaráð skipar einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan, en deild sú, sem hann á að starfa við, hinn þriðja, og er hann formaður. Í nefnd þessa má skipa þá eina, er lokið hafa háskólaprófi á hlutaðeigandi fræðasviði, eða eru að öðru leyti viðurkenndir sérfræðingar á því sviði. Dómnefndarmenn skulu, eftir því sem við á, uppfylla hin sérstöku dómaraskilyrði, sbr. 36. gr. l. nr. 85/1936. Háskólaráð skipar ritara dómnefnd til ráðuneytis, leiðbeiningar og annarrar aðstoðar. Háskólaráð setur reglur um starfshætti dómnefndar og hlutverk ritara og skulu þær lagðar fyrir menntamálaráðherra til staðfestingar.
     Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita umsækjenda og rannsókna svo og námsferli þeirra og störfum megi ráða að þeir séu hæfir til að gegna embættinu eða starfinu. Leita skal álits hlutaðeigandi skorar áður en háskóladeild fjallar um umsækjendur sem dómnefnd telur hæfa. Eiga fulltrúar stúdenta á skorar- og deildarfundi þá ekki atkvæðisrétt. Engum má veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf við Háskólann nema meiri hluti dómnefndar telji hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á deildarfundar greiði honum atkvæði í embættið eða starfið. Ef fleiri umsækjendur en tveir eru í kjöri við atkvæðagreiðsluna á deildarfundi og enginn þeirra hlýtur meiri hluta við fyrstu atkvæðagreiðslu skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Nú fellst menntamálaráðherra ekki á tillögu deildarfundar og skal þá auglýsa embættið eða starfið að nýju.
     Heimilt er að kveða svo á í reglugerð að framangreind ákvæði skuli gilda um sérfræðinga við rannsóknastofnanir eða aðrar háskólastofnanir.
     Heimilt er að flytja lektor í dósentsstöðu og dósent í prófessorsembætti samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
     Háskólaráð getur lagt til að forstöðumaður háskólastofnunar sé fluttur í prófessorsembætti eftir sömu reglum og gilda um flutning dósents í prófessorsembætti.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 1989.