Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 344 . mál.


Nd.

1037. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 86/1988, sbr. lög nr. 109/1988.

Frá 4. minni hl. félagsmálanefndar.



    Fljótlega eftir að breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins tók gildi 1. september 1986 kom í ljós að áhrif breytinganna voru stórlega vanmetin af þeim sem lögðu fram frumvarpið.
    Breytingin olli hækkun íbúðarverðs, hækkun vaxta á lánamarkaði og mikilli þenslu. Biðtími eftir lánum er orðinn mjög langur og skortur á leiguhúsnæði og félagslegu húsnæði mjög tilfinnanlegur.
    Það er því fyllilega tímabært að taka húsnæðislánakerfið til gagngerrar endurskoðunar, ekki eingöngu almenna hlutann heldur kerfið í heild og marka framtíðarstefnu í þessum málum.
    Fjórði minni hl. telur húsbréfakerfið á ýmsan hátt til bóta. Skipti á íbúðum verða einfaldari. Stærri hluti láns verður á einni hendi. Seljendur búa við meira öryggi um verðmæti, tryggingu og söluhæfi þeirra bréfa sem þeir fá í hendur við íbúðasölu.
    Hins vegar er ekki hægt að búast við að þetta kerfi leysi þann mikla húsnæðisvanda sem nú er til staðar. Ekki fá staðist fullyrðingar um að með upptöku húsbréfakerfis geti allir sem á þurfa að halda fengið lán, með stuttum fyrirvara, fyrir hærri hluta af verði fasteignar og jafnframt að afborganir verði minni en í núverandi kerfi. Sagt er að með samþykki frumvarpsins sé stuðlað að víðtækari og meiri innri fjármögnun húsnæðiskerfisins en verið hefur. Ekki verður þó séð að það gerist nema að mjög takmörkuðu leyti. Þannig hefur verið áætlað að þessi aukning muni aðeins nema 1000–2000 m. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að lán til hvers umsækjanda muni hækka verulega eða að hámarki í 5,5 m. kr. Meðallán nú frá Byggingarsjóði ríkisins er um 2,5 m. kr. Ef gert er ráð fyrir að meðallán hækki um 2 m. kr. við þessa breytingu verða færri lán afgreidd en nú er.
    Jafnframt þessum breytingum hefur ríkisstjórnin boðað að vextir muni hækka á lánum Byggingarsjóðs ríkisins sem mun hafa í för með sér aukna greiðslubyrði fyrir fjölda lántakenda. Samhliða þessu frumvarpi er flutt annað frumvarp (349. mál) sem gerir ráð fyrir að í stað vaxtaniðurgreiðslna í núverandi kerfi komi vaxtabætur þar sem upphæð bóta er bæði háð tekjum og eignum. Miklu varðar að form þess máls verði ótvírætt á þann veg að opinber stuðningur vegna húsnæðiskaupa sé í þágu hinna tekjulægri.
    Margir þeirra, sem nú eru á biðlista um lán hjá Byggingarsjóði ríkisins, munu falla frá lánsumsókn, þar sem einhverjir þeirra eru að sækjast eftir láni með niðurgreiddum vöxtum en ekki til íbúðarkaupa. Óljóst er hve þessi hópur er stór en áður hafa verið gerðar breytingar á lögum Húsnæðisstofnunar ríkisins til að reyna að útiloka þennan hóp. Annar hópur, líklega stærri, mun heltast úr lestinni vegna þess að margir þeirra geta ekki staðið undir þeim vöxtum sem greiða þarf af lánum Byggingarsjóðsins. Það er því ljóst að hækkun vaxta á lánum Byggingarsjóðs ríkisins mun ein sér hafa veruleg áhrif, óháð tilkomu húsbréfakerfis.
    Ekki er ljóst hvernig framlagi ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins verður háttað, hvort það mun alveg falla niður eða minnka smám saman. Ekki hefur verið gerð áætlun um fjárhag Byggingarsjóðsins til frambúðar, hve miklu hækkun vaxta muni skila og hve mikið áætlað er að ríkissjóður þurfi að leggja fram til endurgreiðslu lána frá lífeyrissjóðunum.
    Frumvarpið var sent fjölmörgum aðilum til umsagnar. Þær umsagnir, sem bárust, voru á ýmsan veg. Flestir tóku undir þá meginhugsun sem felst í hugmyndinni um húsbréf. Margir bentu á ýmsa óvissuþætti varðandi framkvæmd málsins og töldu að það þyrfti frekari athugunar við.
    Samkomulag hefur náðst um að fresta gildistöku frumvarpsins til 15. nóvember og fram að þeim tíma mun milliþinganefnd starfa við frekari undirbúning málsins og taka tillit til ábendinga og athugasemda. Óhjákvæmilegt þótti að afgreiða málið frá Alþingi til þess að nauðsynlegur undirbúningur gæti hafist.
    Skiptar skoðanir eru meðal sérfræðinga um áhrif húsbréfakerfisins á íbúðaverð, fasteignamarkaðinn, lánamarkað og efnahagskerfið í heild. Stór hópur fólks ræður ekki við þau kjör sem nú bjóðast til húsnæðiskaupa. Hærri vextir munu gera þessum hópum enn erfiðara fyrir. Því er ljóst að þrýstingur á félagslega íbúðakerfið mun aukast verulega og er hann þó mikill fyrir. Kvennalistinn hefði því viljað efla og bæta félagslega húsnæðiskerfið áður
en ráðist væri í þá breytingu sem hér er verið að gera á almenna kerfinu. Enn liggur engin áætlun fyrir í tengslum við þessa kerfisbreytingu um félagslega íbúðalánakerfið. Með samkomulagi Kvennalista og við ríkisstjórnina tókst hins vegar að efla verulega félagslega þátt húsnæðiskerfisins samanber meðfylgjandi fylgiskjal.
    Eins og þar kemur fram verður gert átak í byggingu félagslegra íbúða strax á þessu ári og enn frekar árið 1990. Einnig tókst samkomulag um að á næstu mánuðum fari fram endurskoðun á félagslega hluta íbúðalánakerfisins.
    Eftir sem áður er þó heildarendurskoðun húsnæðislánakerfisins jafnnauðsynleg þrátt fyrir þá breytingu sem felst í húsbréfakerfinu.
    Með tilliti til þess að fallist hefur verið á að endurskoða félagslega íbúðalánakerfið og tryggt er að aukin framlög renni til þess á þessu og næsta ári og vegna þess að færi gefst á að skoða málið betur í milliþinganefnd fram til gildistöku laganna mun fjórði minni hl. greiða fyrir framgangi málsins.

Alþingi, 3. maí 1989.


Kristín Einarsdóttir.





Fylgiskjal.


Samkomulag um húsnæðismál.



    Athuganir innan ríkisstjórnarinnar og viðræður við Kvennalistann hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að samþykkt frumvarps til laga um húsbréfakerfi verði tengt húsnæðismálum í stærra samhengi.
    Samkomulag er um eftirfarandi:
1.     Skipan nefndar á vegum félagsmálaráðherra til að endurskoða hinn félagslega hluta húsnæðiskerfisins. Nefndin skili niðurstöðu fyrir 1. nóvember nk. Hlutverk nefndarinnar er að leggja fram tillögur um endurbætur á fyrirkomulagi lánveitinga til félagslegra íbúðabygginga með það fyrir augum að einfalda lánafyrirkomulag og auka skilvirkni félagslega íbúðalánakerfisins. Nefndinni er falið að gera tillögur um breytt fyrirkomulag á stjórnun og úthlutun á félagslegri aðstoð í húsnæðiskerfinu. Jafnframt er nefndinni falið að gera tillögur um framkvæmd ráðstafana og leita leiða til að auka framboð leiguhúsnæðis og til að jafna húsnæðiskostnað leigjenda til samræmis við húseigendur.
2.     600 millj. kr. raunaukningu á framkvæmdafé til félagslega hluta íbúðakerfisins. Á árinu 1989 verði 100 millj. kr. raunaukning á framlögum auk þess sem felst í bréfi ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambandsins í tengslum við kjarasamninga 1. maí 1989. Á árinu 1990 verði svo 500 millj. kr. raunaukning framkvæmdafjár.
3.     Vextir á lánum, sem úthlutað hefur verið úr Byggingarsjóði ríkisins, verði ekki hækkaðir þegar húsbréfakerfið kemst í framkvæmd.
4.     Þingflokkur Kvennalistans mun taka þátt í undirbúningi gildistöku húsbréfakerfisins og fylgjast með þeirri reglugerðarsmíð sem fram þarf að fara.
    Samkomulag er um ofangreind atriði milli ríkisstjórnarinnar og Kvennalistans og munu þau koma fram í nefndarálitum félagsmálanefnda við afgreiðslu húsbréfamálsins á Alþingi.