Ferill 463. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 463 . mál.


Ed.

1157. Frumvarp til laga



um breytingu á jarðræktarlögum, nr. 56 30. mars 1987.

(Eftir 2. umr. í Ed., 11. maí.)



1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði eftir reikningi er landbúnaðarráðherra samþykkir.
    Skilyrði þess að framkvæmd njóti framlags samkvæmt lögum þessum er að umsókn þar um ásamt framkvæmdaáætlun, sem samþykkt er af héraðsráðunaut, sé lögð inn hjá Búnaðarfélagi Íslands á árinu áður en verkið skal hafið. Búnaðarfélag Íslands áætlar fjárþörf vegna jarðræktarframlaga að þeim umsóknum fengnum og gerir tillögur til landbúnaðarráðherra um fjárveitingar næsta árs áður en frumvarp til fjárlaga er lagt fyrir Alþingi. Þegar fjárlög hafa verið samþykkt skal Búnaðarfélag Íslands tilkynna bændum bréflega hvaða framkvæmdir á jörðum þeirra muni njóta framlags á árinu. Framlög skulu greidd svo fljótt sem við verður komið eftir að úttekt lýkur. Hafi greiðsla vegna samþykktra framkvæmda eigi farið fram fyrir 1. nóvember á úttektarári skal framlag taka hækkunum mánaðarlega frá þeim tíma samkvæmt byggingarvísitölu. Framlög til grænfóðurræktar, kölkunar og endurræktunar, sem jarðræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands metur nauðsynleg vegna kals eða annarra ræktunaráfalla af völdum harðinda, skulu greidd í byrjun næsta árs eftir framkvæmd þótt ekki hafi verið sótt um þau fyrir fram. Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð tímamörk vegna umsókna, tilkynninga um væntanleg framlög og úttekta.
    Ríkissjóður greiðir búnaðarsamböndum 65% af launum héraðsráðunauta og trúnaðarmanna. Hluti ríkissjóðs í launagreiðslum fer eftir kjarasamningum opinberra starfsmanna. Ríkissjóður greiðir allt að 65% af ferðakostnaði héraðsráðunauta og trúnaðarmanna samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands.

2. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Til jarðabóta, sem taldar eru í þessari grein, skal greiða framlag úr ríkissjóði sem hér segir:



— Töflur í Gutenberg—




3. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Á framlög, sem ákveðin eru í 10. gr. þessara laga, skal greiða verðuppbót samkvæmt vísitölu er sýni breytingar á tilkostnaði framkvæmda frá meðalkostnaði þeirra á árinu 1988. Hagstofa Íslands ákveður grundvöll þessarar vísitölu í samráði við Búnaðarfélag Íslands, Byggingarstofnun landbúnaðarins og landbúnaðarráðuneytið. Hagstofa Íslands reiknar vísitöluna miðað við meðalkostnað hvers árs. Fyrirmæli fyrri málsliða þessarar greinar gilda um greiðslu verðlagsuppbóta á framlög til framkvæmda frá og með árinu 1989.
    Af jarðabótaframlögum þeim, sem talin eru í 10. gr., skulu 4% renna til hlutaðeigandi búnaðarsambands og 2% til búnaðarfélags jarðabótamanns. Af framlögum til loðdýrabygginga skal þó aðeins greiða 4% til búnaðarsambands.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.