Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 511 . mál.


Nd.

1176. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 3 6. mars 1955, um skógrækt, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



1. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna komi ný grein svohljóðandi:
    Aðalstöðvar Skógræktar ríkisins skulu vera á Fljótsdalshéraði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Landbúnaðarnefnd neðri deildar hefur haft til umfjöllunar stjórnarfrumvarp um skógvernd og skógrækt, 412. mál þingsins. Hér er um mjög viðamikið frumvarp að ræða en nefndin telur ekki mögulegt á þeim stutta tíma, sem nú er til þingslita, að taka frumvarpið til jafngaumgæfilegrar athugunar og æskilegt er um svo þýðingarmikið mál.
    Það er hins vegar skoðun nefndarinnar að nauðsynlegt sé að lögfesta nú þegar það ákvæði frumvarpsins er felur í sér að aðalstöðvar Skógræktar ríkisins verði á Fljótsdalshéraði, en það er í samræmi við ályktun Alþingis frá 11. maí 1988. Í því skyni er frumvarp þetta flutt.