Almannatryggingar
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Þetta frv. er nú flutt hér öðru sinni eins og fram kom í máli 1. flm. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir að ég styð heils hugar þessa breytingu á 13. gr. laganna og hefði gjarnan viljað að þetta frv. hefði verið afgreitt á síðasta þingi.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. boðar hér flutning á frv. um endurskoðun almannatryggingalaga og mér skildist á honum að honum hafi nú fundist sú endurskoðun hafa gengið okkuð seint, en það eru kannski fleiri ekkert mjög langt frá honum sem hafa líka orðið fyrir vonbrigðum með seinaganginn á heildarendurskoðun almannatryggingalaga. Alþingi og báðar þingdeildir hafa sýnt það í fleiri en eitt skipti á þessum tíma að deildirnar hafa ekki viljað bíða eftir heildarendurskoðun tryggingalaganna og hafa því afgreitt einstök mál um breytingar á lögum um almannatryggingar. Í öllum tilfellum held ég að mér sé óhætt að fullyrða að þær breytingar hafi verið mjög þarfar því að engin löggjöf er svo fullkomin að það megi ekki endurskoða hana eða einstök ákvæði hennar að fenginni reynslu og það hefur Alþingi gert í þessum tilfellum.
    Ég tel því að það þurfi ekki að bíða eftir heildarendurskoðun og sjá til hvað einhverjir vísir menn leggja til. Mér finnst að flm. þessa frv. hafi allt til síns máls að gera þessar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra varðandi síðustu mgr. 1. gr. að auðvitað má um það deila hvort viðkomandi einstaklingur eigi að hafa rétt á styrk til starfs eða endurmenntunar, en það er sett undir mat tryggingaráðs.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt hjá flm. þessa frv. að þetta sé gert með þessum hætti og ég er ekki sannfærður um það að samþykkt þessa frv. auki útgjöld ríkissjóðs eða almannatryggingakerfisins. Hún flytur til aftur í þessu kerfi. Það getur verið og það er alveg vafalaust búið þannig að fólki sem annast umönnun þessara sjúklinga að það fær nú engar bætur. Mér finnst að það eigi ekki að níðast á því fólki sem vill hafa vandamenn sína heima og fórnar miklu. En með samþykkt þessa frv. getur það orðið hvati fyrir aðra að annast þessa sjúklinga, fólk sem nú af fjárhagslegum ástæðum getur það ekki og þá er það mikill sparnaður fyrir almannatryggingakerfið og ríkissjóð ef hægt er að minnka ásókn á hinar ýmsu stofnanir þar sem þessi kostnaður er margfalt meiri eins og fram kemur í greinargerð með frv.
    Herra forseti. Ég vildi aðeins með þessum orðum lýsa yfir stuðningi mínum við frv. og ég vona að hv. nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar auðnist að afgreiða það en liggi ekki á því eins og gert var á síðasta þingi.