Byggingarlög
Miðvikudaginn 18. október 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á byggingarlögum nr. 54/1978. Sú breyting sem hér er verið að leggja til er að málskotsréttur fólksins í sveitarfélögum til ráðherra verði burtu numinn og í staðinn leiti það réttar síns til dómstólanna.
    Ég vil taka undir það sem hæstv. félmrh. hefur sagt um þetta og álít að það væri ekki til bóta að taka þann rétt af fólkinu í landinu að geta skotið máli sínu til ráðherra því að málaferli eru bæði flókin og erfið fyrir venjulegt fólk og það þarf að vera möguleiki á að það geti skotið máli sínu með sem fljótvirkustum og sem ódýrustum hætti til stjórnvalda um ágreining sem slíkan því að það er alveg ljóst að ef ætti að fara að leggja mörg af þeim málum sem hefur verið skotið til félagsmálaráðherra í gegnum árin undir dómstólana mundi það kosta bæði stórfé og hins vegar það að einstaklingar gætu ekki tekið þá áhættu að fara að leggja slíkt mál fyrir dómstólana því ef þeir þyrftu að leggja fram tryggingar t.d. fyrir því að greiða skaðabætur sem hugsanlegar væru á tug af byggingum sem slík málaferli gætu orsakað, þá er alveg ljóst að einstaklingar stæðu aldrei undir því. Þess vegna er þetta frumréttur einstaklings og mjög mikilvægt að einstaklingarnir í landinu hafi greiðan aðgang til að fá úrskurðað í málum og þetta er ein af þeim leiðum sem gerir það einfaldara fyrir einstaklinginn að ná rétti sínum ef hann telur að hallað sé á hann, með þeirri leið að skjóta því til ráðherra. Hins vegar á hann alltaf síðar möguleika á því að skjóta því til dómstóla og halda því máli áfram ef hann er ekki ánægður með úrskurð ráðherra. Það er því mjög mikilvægt að þessi grein sé inni, en ég þykist vita að frv. sé tilkomið vegna mikilla deilna hér áður eins og um ráðhúsið hér sem sýnir auðvitað að það getur verið mjög erfitt að eiga við slík mál. Það er náttúrlega ljóst að þegar mál valda pólitískum óróa og það eru deildar meiningar um hluti er auðvitað erfitt að eiga von á því að ráðherra úrskurði um það út af fyrir sig, en ég held að þessi leið sé svo mikilvæg fyrir almenning í landinu að henni eigi að halda og tel því að málflutningur hæstv. ráðherra sé einmitt í þeim anda sem fólkið þarf á að halda.