Byggingarlög
Miðvikudaginn 18. október 1989


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég kem hér til að segja örfá orð um þetta frv. og taka undir málflutning hæstv. félmrh. og hvetja þingið til þess að skoða þetta mál rækilega. Ég tek undir það hjá hæstv. ráðherra að mikilvægt sé að réttur fólksins í landinu sé tryggður fyrir málskot. Ég held að litli maðurinn sem stundum finnst að hann sé beittur órétti gangi ekki greitt á vald lögfræðinganna með peningaveskið þykka þegar honum finnst á sig hallað. Ég tel líka að sú regla sem hér hefur gilt um langt skeið sé góð hvað þetta varðar. Þegar litla manninum og sveitarfélaginu hefur lent saman hefur oft reynst heppilegt að leita til þriðja aðilans sem í þessu máli hefur verið ráðuneytið, ég hygg að það sé svo með mörg þung og stór deilumál, sem hafa komið upp á milli einstaklinga og sveitarfélaga í landinu, að þau hafa verið leyst með friði vegna þessa ákvæðis. Þess vegna furðar mig á því að hv. flm., sem hefur stýrt heilli borg, skuli hvetja til þess með frumvarpsflutningi að það verði dómstólarnir sem taki við öllum deilumálum í þessu efni í landinu.
    Það er stundum fróðlegt að sjá hversu menn nota orðið ,,frelsi``. Hér er sótt fram í nafni frelsisins og talað um frelsi sveitarfélagsins, frelsi byggingarnefndanna o.s.frv. Ef þetta gerðist, þá yrði þetta á kostnað frelsis litla mannsins í samfélaginu og því er ég andvígur. Þess vegna hef ég hér lagt á það áherslu að menn átti sig á þeirri heilsteyptu ræðu sem ráðherrann flutti við þessa umræðu, hvað svo sem kann að gerast í nefndum, hvað svo sem menn falla fyrir þessu sígilda orði frelsi, að menn hafi það í huga sem hér hefur komið fram við þessa umræðu þegar nefndin skoðar málið í heild sinni.