Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Ég flyt ykkur kveðju úr Austurstræti. Um daginn var ég þar á göngu og hitti ungan dreng. Við fórum að spjalla saman og ég spurði hann hvernig faðir hans hefði það. Hann drúpti höfði og sagði: ,,Hann pabbi minn er dáinn. Hann þoldi það aldrei þegar fyrirtækið varð gjaldþrota svo hann svipti sig lífi``, þar sem hann labbaði út strætið dapur í bragði. Ég flyt ykkur kveðju þessa drengs.
    Það urðu um 1000 fyrirtæki og einstaklingar gjaldþrota á síðasta ári. Í ár verður talan yfir 2000. Guð einn veit hvað það verða mörg gjaldþrot á næsta ári. En hverju gjaldþroti tengist hópur af fólki, bæði fullorðið fólk, ung börn, fólk missir kjarkinn og heimilin leysast upp. Gjaldþrot er vergangur nútímans, vergangur í velferðarþjóðfélagi.
    Nú verður aldrei með öllu komið í veg fyrir öll gjaldþrot. En það má draga úr fjölda þeirra. Hér taki sá sneið sem á, en við breytum ekki gangi sögunnar. Við búum við okurvexti, við búum við matarskatt og við búum við ranga skráningu á gengi krónunnar. Þetta ástand er fyrst og fremst arfur frá síðustu ríkisstjórn Sjálfstfl., sömu ríkisstjórn og nú hímir álengdar og fitnar eins og púkinn á fjósbitanum og falast eftir trausti kjósenda í skjóli skoðanakannana. Þetta er kjarni málsins og honum megum við ekki gleyma. Það var Sjálfstfl. sem lagði vextina í hendur okurkörlum. Það var Sjálfstfl. sem lagði matvælin í hendur skattheimtumönnum. Og það var Sjálfstfl. sem lagði útflutninginn í rúst með föstu gengi.
    Góðir Íslendingar. Við verðum að lækka vextina strax í dag. Við verðum að leggja matarskattinn niður strax í dag, við þurfum að skrá gengi krónunnar á réttu verði strax í dag og við þurfum að útvega útflutningsgreinunum ódýra peninga frá öðrum löndum strax í dag. Þá mun atvinnulífið spjara sig, þá munu heimilin spjara sig og þá mun ríkiskassinn spjara sig.
    Góðir landsmenn. Ég flyt ykkur kveðju úr Austurstræti og býð góða nótt.