Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Frjálslyndi hægri flokkurinn hefur þegar á þeim stutta tíma sem hann hefur starfað sýnt fram á tilverurétt sinn. Íslendingar þurfa nú þá forustu í þjóðmálum sem er óhrædd við þá strauma sem berast hingað frá Evrópu. Frjálslyndir hægri menn geta veitt þessa forustu. Stefna núv. vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar er tímaskekkja eins og reyndar tilvera stjórnmálaflokks eins og Alþb. Atburðirnir í Austur-Evrópu sanna þetta. Stöðugleiki hægri manna í Vestur-Evrópu frá stríðslokum hefur nú sannað réttmæti sitt. Við sem stóðum að Varið land og vorum kallaðir landráðamenn af vinstri mönnum höfum nú sannað að við höfðum rétt fyrir okkur. Traustar varnir NATO og samheldni þeirra ríkja hefur á endanum sannað réttmæti sitt. Kommúnistaríkin hafa viðurkennt að einmitt þessi styrkur hefur orðið til þess að þau hafa beygt sig og halda nú á vit réttlætisins í vestri. Sögufalsanir kommúnista eru nú hver af annarri afhjúpaðar af þeim sjálfum og það sem við talsmenn vestrænnar menningar höfum ávallt haldið fram staðfest.
    Þáttur kristinnar trúar verður seint ofmetinn í því sem nú er að gerast í Austur-Evrópu. Kosning Jóhannesar Páls páfa II. hefur haft gífurleg áhrif í Austur-Evrópu, sérstaklega í Póllandi. Þá er ekki úr vegi að minna á frétt á forsíðu Morgunblaðsins nýlega þar sem skýrt var frá merkum atburði. Það hafði verið messað innan múra Kremlar í fyrsta sinn frá því að byltingin varð. Og ekki nóg með það. Í sumar skýrði Mikhail Gorbatsjov frá því að hann hefði verið borinn til skírnar sem barn. Þessi fregn hefur víst farið fram hjá þorra fólks. Hún skýrir hins vegar meira en nokkuð annað framgöngu sovétleiðtogans. Hún sýnir enn einu sinni að kristin trú er sterkari en jarðneskar kenningar eins og kommúnisminn.
    Góðir áhorfendur. Frjálslyndir hægri menn munu á þessu þingi bera fram mál til framfara fyrir fólkið í landinu. Unga fólkið er orðið leitt á kjaftasnakki
vinstri manna. Það vill stjórnmálastefnu sem tekur mið af framtíðarmöguleikum þess, ekki stefnu sem ætlað er að halda því einangruðu með eins konar Berlínarmúr sem takmarkar möguleika þess til samskipta við aðrar þjóðir. Landflótti yngra fólks verður í framtíðinni, ef ekki verður snúið við frá þessari óbyggðastefnu sem núv. ríkisstjórn stendur fyrir. Þegar sjást merki þess að svo sé. Afleiðing meiri menntunar er sókn þessa fólks í störf við sitt hæfi. Það er ekki hægt að stöðva framrás unga fólksins. Það er betur menntað en nokkru sinni fyrr og vill takast á við verkefni sem hæfa undirbúningi þess fyrir lífið. Lífið er ekki lengur saltfiskur. Þessu verða menn að gera sér grein fyrir og gefa unga fólkinu ný atvinnutækifæri. Það er því óskhyggja að ætla sér að ríghalda í liðna tíð. Við lifum á tækniöld þar sem möguleikar eru ótæmandi fyrir þjóð sem er tilbúin að tileinka sér nútímann. Við skulum því líta fram veginn. Landið býr yfir orkubrunnum sem eru einstakir í Evrópu því virkjun þeirra er án mengunar

eða hættu á kjarnorkuslysi. Verðgildi þeirra verður því æ meira og æ eftirsóknarverðara verður að nýta slíka orku. Þess fyrr sem þessir orkubrunnar verða beislaðir og notaðir fyrir fólkið í landinu, fólkið í Evrópu, þess betra. Það er skylda okkar að nýta þessa orku sem fyrst.
    Alþb. hefur komið í veg fyrir þetta um árabil til skaða fyrir land og þjóð. Við eigum að semja um stóriðju. Það er dýrt að láta orkuna falla óbeislaða til sjávar eða niða í iðrum jarðar engum til gagns. Á sama tíma er verið að menga jörðina með orkunotkun úr lífshættulegum efnum. Við skulum beisla orkuna strax. Íslands framtíð er bundin framkvæmdum, athöfnum, ekki orðaflaumi. Nýfélagshyggjugreifarnir í fimmfætlustjórn Steingríms Hermannssonar eiga að segja af sér. Við viljum nýja ríkisstjórn, frjálslynda hægri ríkisstjórn.
    Góðir áheyrendur. Guð gefi ykkur góðar vetrarnætur. Þingmenn frjálslynda hægri flokksins bjóða ykkur góða nótt. Hafið þökk fyrir áheyrnina.