Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð. Ég missti því miður af fyrri hluta þessarar umræðu en hef fylgst með síðari hlutanum. Hv. 4. þm. Reykn. talaði um að efni umræðunnar hefði snúist um aukaatriði vegna þess að fólkið spyrði ekki að því hverjir sætu í nefndinni heldur spyrði það um úrræði. Þá vil ég benda hv. þm. á það sem ég hygg að hann viti, að þegar athugaðar eru tölur um atvinnuleysi þá hefur það ævinlega verið svo að meiri hluti þeirra sem eru atvinnulausir eru einmitt konur. Konur hafa verið sveiflujafnararnir, eins og það hefur verið kallað, í atvinnulífinu. Þær hafa verið sendar heim og mátt víkja þegar atvinnu hefur vantað. Og auðvitað spyrja konur um það hver úrræðin eru. Og hverjir mundu nú vera líklegastir til að finna heppileg úrræði fyrir konur? Skyldu það ekki einmitt vera konur sem búa yfir hugmyndum sem henta konum? Ég skil ekkert í hv. þingmanni að hafa þennan málflutning uppi.
    Hins vegar átti ég annað erindi í stólinn og það var að minna á þá jafnréttisáætlun sem hæstv. félmrh. hefur gert, sem er einmitt samflokksmaður hv. 4. þm. Reykn., og hefur sent stofnunum á vegum ríkisins. Það hafa farið fram heitar umræður í hverri stofnuninni á fætur annarri þegar þessari jafnréttisáætlun hefur verið komið á og hún hefur verið samþykkt. Hún felur það m.a. í sér að beita sér fyrir því að konur verði valdar til ábyrgðarstarfa ekki síður en karlar og jafnvel af ásetningi. Og vegna þess að hæstv. félmrh. er í þessari ríkisstjórn sem segja má að sé eins konar stofnun á vegum ríkisins þó að innviðir hennar séu talsvert hreyfanlegir. Má ég spyrja hæstv. forsrh. hvort þessi ríkisstjórn hefur í raun jafnréttisáætlun sem hún vinnur eftir þegar hún setur niður nefndir, þegar hún viðhefur sín vinnubrögð? Fer hún þá eftir einhverri ákveðinni jafnréttisáætlun sem hún tekur tillit til?