Samgöngur yfir Hvalfjörð
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans við þessari fsp. og ég vil leyfa mér að taka algerlega undir með hæstv. ráðherra sambandi við efnislega meðferð þessa máls og vanda þá meðferð í alla staði því að það er eitt af þeim frumskilyrðum sem þarf að breyta hér á landi í sambandi við mannvirkjagerð jafnvel þó að sé í miklu minna sniði heldur en hér er um að ræða og þess vegna tel ég að það sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra í sambandi við samstöðu um alla efnisþætti og meðferð þeirra sé hið þýðingarmesta mál. Og um þetta mál er ekki neinn ágreiningur að þessu leyti til, hæstv. ráðherra, og þessi fsp. er ekki sett fram vegna þess að það sé um að ræða neina gagnrýni á hans afstöðu í þessu máli, alls ekki, heldur hitt að við sem höfum áhuga fyrir þessu máli fyrir hönd þeirra ekki aðeins byggðarlaga á Vesturlandi heldur fyrir alla umferð á Íslandi, við viljum einmitt að það sé tryggt að það sé verið að vinna skynsamlega að undirbúningi þessa máls. Það er málið.
    Ég tek sérstaklega undir það og legg áherslu á það að það þarf að skapa breiða samstöðu um meðferð þessa máls.
    Ég ætla ekki að fara inn í umræður um það hvernig afstaða einstakra flokka er í þessu máli. Það á sjálfsagt eftir að koma í ljós. Aðalatriðið er hins vegar það að við sem höfum umboð fyrir þetta kjördæmi sérstaklega viljum tryggja það að málið hafi vissan framgang og þau fyrirheit sem eru í skipan þessarar nefndar komi öll skýrt fram. Við erum ekki á einn eða neinn hátt að gagnrýna það, heldur viljum við fá alla efnisþætti málsins á borðið svo að hægt sé að taka ákvörðun um framhaldið.