Samgöngur yfir Hvalfjörð
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að bæta því við, sem kom kannski ekki nægilega skýrt fram í mínu máli áðan, að að sjálfsögðu verður sú greinargerð sem ég vitnaði í nú send þingmönnum, þ.e. þegar í dag, og mun vonandi verða í pósthólfum þeirra strax eftir hádegið.
    Ég hef jafnframt ákveðið að senda út fréttatilkynningu sem miðlar upplýsingum um stöðu málsins vegna þess, eins og ég tók fram, að mér hefur þótt gæta óþarfa misskilnings um það hvers eðlis þetta mál væri, hversu stórt það væri og hvar það væri á vegi statt. Og ég vil gjarnan koma öllum efnislegum og tæknilegum upplýsingum á framfæri. Ég mun hins vegar ekki elta ólar við til að mynda nafnlaus níðskrif sem um þetta mál hafa gengið með ásökunum, m.a. á mig í dagblöðum, læt mér það í léttu rúmi liggja. Aðalatriðið er að vanda alla vinnu að þessu máli, eins og hér hefur komið fram og hv. þm. hafa tekið undir, og málinu til framdráttar vona ég að það verði miðlað þeim upplýsingum sem ég hef gert grein fyrir. Þá munu hv. þm., ítarlegar en ég hef hér í stuttu svari getað gert grein fyrir, geta glöggvað sig á stöðu málsins.