Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég ákvað að koma hér aðeins inn á fjárlagaumræðuna við 1. umr. þó ég hins vegar muni leggja aðalvinnu í það að ræða fjárlög við 2. umr. eins og venja er. Ég segi það hér að ég get tekið undir með hæstv. fjmrh. það sem hann segir um meginmarkmið sem eigi að stefna að við þessa fjárlagagerð, þ.e. að ríkisbúskapurinn stuðli að því að viðskiptahalli aukist ekki og verðbólgan minnki þrátt fyrir samdrátt útflutningstekna, að skattar verði óbreyttir sem hlutfall af landsframleiðslu og að halli ríkissjóðs verði innan þeirra marka sem hægt sé að fjármagna án þess að auka erlendar skuldir. Að sjálfsögðu er þetta markmið sem allir geta skrifað undir og ég vil líka taka undir með hæstv. ráðherra með það að það á að vera meginmarkmið að treysta grundvöll fjárlaga hverju sinni og draga úr þeirri sjálfvirkni sem við vitum öll að hefur vaðið í gegnum ríkisfjármálin á undanförnum áraröðum, hver svo sem hefur verið við stjórn á hverjum tíma.
    Ég tel einnig ástæðu til að fara viðurkenningarorðum um fjármálastjórn hæstv. fjmrh., sem ekki hefur nú fengið of glæsilega dóma hér frá stjórnarandstöðunni í dag, að því leyti til að ég hygg að hann eigi heiður skilið fyrir hvað hann hefur tekið myndarlega á innheimtuaðgerðum ríkisins í sambandi við það að innheimta skatta og ekki síst þá skatta sem ýmsir aðilar hafa innheimt af almenningi og ekki skilað þeim á eðlilegum tíma inn í ríkissjóð. Þarna hafa orðið straumhvörf sem er ástæðulaust annað en að viðurkenna þegar rætt er um frv. til fjárlaga á hverju ári fyrir sig.
    Þess vegna er það nýjung núna við þessa fjárlagagerð að ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. hafa tekið það til greina sem við sem höfum starfað lengi við fjárlagagerðina höfum bent á, þ.e. að leggja fram fjáraukalög, bæði fyrir liðið ár og eins fyrir það yfirstandandi ár sem ný fjárlög eru kynnt. Þetta er nýjung og framför og ég þarf ekki að ræða það hér umfram það sem gert hefur verið áður að þetta mun mjög auka aðhald og festu í meðferð fjárlaga þegar þetta er orðið að venju sem nauðsynlegt er að innleiða hér með ákveðnum hætti. Þessu vil ég fagna sérstaklega þó að ég geri mér grein fyrir því að það verða önnur vinnubrögð við fjárlagagerðina sjálfa og það náttúrlega kemur til með að styrkja þau rök sem margir hafa haldið fram, m.a. sá sem hér stendur, að það þurfi að breyta þingsköpum að því leyti til að fjvn. starfi allt árið sem bæði eftirlitsaðili Alþingis og einnig til þess að taka þátt í fjárlagagerð fyrir hvert ár fyrir sig. Ég tel að þarna sé um stefnubreytingu að ræða sem þurfi að gera að veruleika.
    Einnig get ég tekið undir það að sú ákvörðun sem hæstv. fjmrh. kynnti í sambandi við fjárlagagerðina að leggja fram fjárlög, rammafjárlög, til lengri tíma, þ.e. til þriggja ára, það er spor í rétta átt og mun áreiðanlega gera meðferð fjármála miklu traustari og auðveldari viðureignar heldur en til þessa hefur verið.
    Í sambandi við fjárlög fyrir árið 1990 er alveg ljóst

að þar eru miklar breytingar í uppsetningu sem hlýtur að kalla á miklu meiri vinnu en áður hefur tíðkast við fjárlagagerðina sjálfa. Það er svo við þetta fjárlagafrv., eins og það kemur fyrir mín augu og við þá vinnu sem fjvn. er þegar búin að leggja í þetta frv., að það er mörgum spurningum ósvarað. Ég vil nefna hér fyrst það sem er ofarlega í mínum huga miðað við þá áraraða vinnu sem ég hef tekið þátt í, þ.e. í sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem er ákaflega þýðingarmikið mál og ein mesta breyting sem hefur verið gerð á síðari árum í sambandi við stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Hér er um að ræða lög og ákvörðun sem má ekki undir neinum kringumstæðum fara úrskeiðis eða verða þannig að sveitarstjórnarmenn eða fólkið í landinu geti ekki treyst því að hér verði rétt að staðið og það öryggi sem þessi lagabreyting gerir fyllilega ráð fyrir nái fram að ganga.
    Hér er um að ræða þýðingarmikla þætti og það sem mér finnst vera mikil óvissa um í sambandi við þetta fjárlagafrv. varðar uppgjörsþátt þessara mála. Auðvitað er það ljóst, og það hefur komið fram bæði í ræðu hæstv. fjmrh. og víðar, að vissir þættir sem komu í ljós eftir að þessi lög voru samþykkt í þessum samskiptamálum hafa verið á annan veg en reiknað var með. Þar er ég sérstaklega að tala um heilbrigðisþjónustuna, hvernig yfirtakan á heilsugæslustöðvum kemur allt öðruvísi út en reiknað var með. Þarna hafa mannleg mistök að sjálfsögðu komið til. En ég legg áherslu á það að þrátt fyrir þessar upplýsingar má það ekki verða til þess að breyta grundvelli þeirra hugmynda og þeirra laga sem í gildi eru um þessa verkaskiptingu. Það er hægt að hugsa sér ýmsar leiðir til að breyta þessu á þann veg að ríkið t.d. þurfi ekki að greiða eins hratt þær upphæðir sem fara í uppgjörsþáttinn, þ.e. af því sem sveitarfélög eiga inni hjá ríkinu miðað við fyrri lög. Ég tel að það væri út af fyrir sig ekki frágangssök fyrir sveitarfélögin að semja um lengri tíma eða fleiri ár sem þau fá uppgjör á sínum innstæðum, en grundvellinum má ekki breyta. Það er mín skoðun. Ég tel að fjvn. verði að leggja mikla vinnu af mörkum í sambandi við að aðstoða ríkisstjórnina og
hæstv. fjmrh. til að fá skynsamlega niðurstöðu í þessi mál.
    Ég ætla aðeins að nefna landbúnaðarmálin. Ég treysti því að nýsett lög á Alþingi, þ.e. jarðræktarlög og búfjárræktarlög, geri það auðveldara að reyna að hreinsa til í þessum málum þannig að við þurfum ekki ár eftir ár að vera að glíma við eftirstöðvar frá fyrri árum sem bændur landsins eiga ekki að gjalda fyrir að hefur ekki verið hægt að standa við. Þó ég verði fyrir vissum vonbrigðum með lestur þessa fjárlagafrv. þá geri ég ráð fyrir því að við hljótum að fá á borðin ákveðnar línur frá ríkisstjórninni um það hvernig hún ætlar að standa við þessi lagafyrirmæli eða það sem hefur komið fram í sambandi við setningu þessara laga og allar þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið, og raunar voru upplýsingar veittar um það í dag frá hæstv. landbrh. að það er verið að vinna að þessum

málum hjá hæstv. fjmrh. og við eigum von á því að heyra um það næstu daga og alla vega hlýtur fjvn. að fá á borðið hvernig þetta mál er hugsað.
    Þá vil ég aðeins víkja að einum þætti sem er e.t.v. stærstur í fjárlagafrv., þ.e. breytingunni úr söluskattinum yfir í virðisaukaskatt. Hér er um stórmál að ræða og ég verð að segja það alveg eins og er að ég harma það mjög hvað milliþinganefnd þingflokkanna hefur starfað slælega að þessu máli. Ég leyfi mér að nota það orðalag. Þegar lögin voru samþykkt hér á hv. Alþingi voru nokkrir tugir atriða teknir út af borðinu sem ekki vannst tími þá til að ræða í botn hvernig með skyldi fara og sumt af því þannig að tæknilega þurfti meiri tíma til þess, en þessi milliþinganefnd var skipuð til að það yrði fljótlega ljóst hvernig með framkvæmd þessarar mikilvægu og umfangsmiklu breytingar yrði farið.
    Ég hafði þá sérstöðu sem stjórnarþingmaður þá við afgreiðslu þessa máls að ég gerði grein fyrir mínu atkvæði og ég tel ástæðu til að lesa það hér af því að ég minntist á þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég er fylgjandi því að taka upp virðisaukaskatt í stað núgildandi söluskatts. Það er ljóst að virðisaukaskattskerfið verður því aðeins skilvirkt að undanþágur séu sem fæstar. Með því er hægt að hafa skattprósentu lægri, lægra gjald á matvörur. Jafnframt þurfa að vera skýr ákvæði um endurgreiðslur sem hlýtur að fylgja slíku skattkerfi. Í meðferð Alþingis kom í ljós að ótal mikilvæg atriði í frv. eru ekki frágengin. Jafnframt er búið að setja í frv. fjölmargar undanþágur á aðila sem síst skyldi sem vinnur augljóslega gegn skattinum. Ég tel að skynsamlegast sé að fresta afgreiðslu málsins til næsta þings, skipa milliþinganefnd til að kanna betur hin fjölmörgu vafa- og ágreiningsefni. Að samþykkja frv. með öllum þeim vafaatriðum ófrágengnum tel ég rangt. Ég get því ekki samþykkt þessa málsmeðferð og greiði ekki atkvæði.``
    Síðan þetta var hefur, eins og ég sagði áðan, því miður allt of lítil vinna og allt of langur tími farið í ekki neitt til þess að upplýsa þessi atriði og ná um þau samkomulagi. Ég verð að segja það alveg eins og er að núna þegar við erum komin í fjárlagaafgreiðsluna sem byggir að meginhluta til á þessari skattbreytingu þá óttast ég að það verði erfitt að samræma ýmis sérsjónarmið sem þarna hljóta að koma til greina þó að það eigi að sjálfsögðu eftir að koma í ljós. En ég get ekki stillt mig um að nefna þetta hér vegna þess að það má ekki verða til þess að tefja fjárlagagerðina, en þessi vinna hefur ekki verið unnin á réttum grunni. Það er ljóst.
    Í sambandi við annað atriði sem er fyrirferðarmikið í fjárlagafrv. get ég ekki stillt mig um að nefna hér Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég verð að segja það að ég varð dálítið undrandi þegar ég las í grg. frv. um Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Með leyfi forseta langar mig til að lesa hér aðeins lítinn kafla úr þessari grg. og fara um þetta nokkrum orðum. Það stendur hér:
    ,,Árið 1988 skipaði félmrh. nefnd sem hafði það hlutverk að semja lagafrv. um breytta skipan hins

almenna húsnæðislánakerfis. Í lögum nr. 76/1989, sem taka gildi 15. nóv. 1989, var lögum um Húsnæðisstofnun breytt í þá veru að inn komu ákvæði um húsbréfaviðskipti. Tekið er upp kerfi skuldabréfaskipta --- húsbréfamiðlunar --- í stað beinna lána til íbúðakaupa sem ætlað er að í fyllingu tímans taki yfir hið almenna húsnæðislánakerfi. Jafnframt var lífeyrissjóðunum heimilað að fullnægja samningsbundnum skuldabréfakaupum af Húsnæðisstofnun ríkisins að hluta með húsbréfum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Lánveitingar byggingarsjóðanna verða í framtíðinni nær eingöngu til kaupa á félagslegum íbúðum og kaupleiguíbúðum og skref í þá átt tekið á árinu 1990.``
    Þarna er um að ræða stefnubreytingu sem ég hef ekki heyrt áður setta fram vegna þeirrar einföldu ástæðu að það var reiknað með því að húsbréfakerfið yrði við hliðina á almenna kerfinu. Og ef þetta á að vera stefnubreyting í fjárlögum 1990 þá er hér verið að fara aftan að hlutunum. Það sem kom mér til að taka þetta til athugunar hér er það að gert er ráð fyrir því, sem ég hef ekki séð áður, að fella niður úr fjárlögum og úr lánsfjárlögum 1990 þá fjárhæð sem lífeyrissjóðirnir láta í húsbréfakerfið. Samkvæmt gildandi lögum eiga lífeyrissjóðir að greiða 55% af ráðstöfunarfé sínu til Húsnæðisstofnunar
ríkisins. Sú fjárhæð er samkvæmt áætlun fyrir árið 1990 24 milljarðar kr. sem er sjálfsagt í lægri kantinum. Þess vegna ætti í frv. og í lánsfjárlögum að standa til húsnæðismála rúmlega 13 milljarðar kr. Það er tekið þannig út að hér er um það að ræða að aðeins 45% eru tekin upp í frv., sem eru 10,8 milljarðar kr., en 10% eru ekki með og það er það sem er að mínu mati rangt vegna þeirrar einföldu ástæðu að ríkisábyrgð er á allri fjárhæðinni, 55% ráðstöfunarfjár lífeyirssjóðanna. Það er ríkisábyrgð á þessum fjárhæðum. Það er ríkisábyrgð á og það á að fara í gegnum Byggingarsjóð ríkisins. Það er meira að segja í nýsettum lögum gert ráð fyrir því að á þessu sé full stýring á árinu 1990 frá Húsnæðistofnun ríkisins.
    Það mætti að sjálfsögðu flytja langt mál um þetta. Ég ætla þó ekki að gera það við þetta tækifæri, en ég tel að þarna sé rangt að staðið og ég vil fá lögfræðilega skýringu á því, og hef óskað eftir því, hvernig stendur á því að þessar fjárhæðir sem ríkið ábyrgist eru ekki í lánsfjárlögum og ekki í fjárlagafrv.
    Fyrir utan það, sem er framhjáhlaup, að það er náttúrlega furðuleg staðreynd í dag að verða að standa frammi fyrir því að við samþykkt þessara laga var gert ráð fyrir því að milliþinganefnd stjórnmálaflokkanna færi ofan í málið og skilaði áliti inn á Alþingi í byrjun þings um það hvort hún teldi að þyrfti að breyta þessum lögum, fresta gildistöku þeirra eða annað sem þessu tilheyrir. Ekkert slíkt hefur komið fram og hefði verið ástæða til að það hefði komið fram jafnhliða fjárlagafrv. þegar það var lagt fram. Þetta vil ég átelja um leið og ég minni á það að ákvæðin í húsbréfakerfinu eru þannig að einstaklingur, hvort hann er lítt stæður, vel stæður eða

stórríkur, getur fengið upp í 7,5 millj. í lán gegnum þetta kerfi og núna heyri ég að það sé búið að festa í reglugerðarhugmyndir að þessi lán eigi að bera 6% vexti og vera til 25 ára. Og það getur hver lesið úr því sem vill, en ég mun gera ráðstafanir til þess að við fáum á borð fjvn. upplýsingar um þetta af því að þær koma ekki hingað inn í Alþingi og jafnframt um fjárstreymi í Húsnæðisstofnun á þessu ári þar sem ekki er búið að greiða út nema um helming þess fjár sem átti að greiða til lántakenda á þessu ári.
    Annað sem ég tel ástæðu til að nefna hér, hæstv. forseti, er það sem vantar inn í fjárlagafrv., það eru frekari upplýsingar um það hvernig ríkisstjórnin hyggst vinna að því markmiði sem ég tel mjög aðkallandi að því er varðar jöfnun raforkuverðs í landinu. Af þessu má ljóst vera að ég tel að fjvn. verði að taka mörg atriði hér til skoðunar og ég treysti því að það verði góð samvinna um það í fjvn. að vinna skynsamlega að því að fara höndum um þetta frv. þannig að það verði ekki í því nein stórslys. Og ég treysti á góða samvinnu við fjmrh. og hans stofnanir um það að það verði hægt að fara vel og vandlega ofan í ýmis mál sem ég tel af langri reynslu að séu ekki fullfrágengin í þessu frv. Ég get vel tekið undir það sem hæstv. fjmrh.
setti hér fram um breytt vinnubrögð. Ég hef löngum haldið því fram í mínum ræðum hér að við umfjöllun um fjárlög að það væri allt of mikil sjálfvirkni þar á ferðinni og það skipulag sem við höfum haft við fjárlagagerðina væri gengið sér til húðar. Ég er tilbúinn að taka þátt í þeirri vinnu að breyta hér ýmsum vinnubrögðum sem færa okkur nær því sem væri eðlilegt miðað við þá bæði tækni við ýmsa vinnu sem nú er fyrir hendi og eins við þá upplýsingaöflun sem ætti að vera í öðru formi heldur en hún er jafnvel hér í dag.
    Ég vil svo að lokum endurtaka það sem ég sagði hér áðan. Ég tel að markmiðið með þessu fjárlagafrv. og það sem fjmrh. hefur sagt hér í sínum ræðum, margt af því er rökrétt og eðlilegt að reyna að ná því og fylgja fram og ég treysti því að það verði góð samvinna um að það sem eftir er tímans sem við höfum til þess að koma þessu fjárlagafrv. í lög verði notað til þess að leiðrétta ýmislegt og ná betri tökum á því sem ég tel miður farið í þessu frv.