Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


    Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Klukkan er orðin hálfátta og mér þykir tími til kominn að taka matarhlé. Það veit enginn hversu lengi þessar umræður dragast.
    Ég var þeirrar skoðunar að eðlilegt hefði verið að hefja fjárlagaumræðu kl. 10 í morgun þegar sá háttur var tekinn upp að flýta fundum í Sþ. á fimmtudögum þannig að þeir hæfust kl. 10. Þá var gert ráð fyrir að þingfundum gæti lokið fyrr. Ég man ekki eftir því meðan sá háttur var hafður á að fjárlagaumræða hæfist kl. 2 um leið og fundur hæfist hér áður fyrr að fyrirspurnir og annað því líkt væri tekið á undan fjárlagaumræðunni. Þar misstum við fjóra tíma og sennilegt að unnist hefði tími til þess að ljúka umræðunni fyrir kvöldmat ef byrjað hefði verið á henni í upphafi fundar.
    Ég geri ráð fyrir því, hæstv. forseti, að sú regla verði virt í vetur að þingmenn fái matarhlé og vil mælast til þess að fundi verði nú frestað þannig að þingmönnum gefist svigrúm til þess að ganga til snæðings.